13.05.1950
Neðri deild: 100. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í C-deild Alþingistíðinda. (2638)

141. mál, verðjöfnun á benzíni

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Ég vildi nú mjög gjarnan gera hv. þm. Ísaf. allt til geðs í þessu efni. En ég hef nú ekki haft aðstöðu til þess að bera mig saman við meðnm. mína um þessa breyt., og get þess vegna ekki talað fyrir n. hönd, en ég fyrir mitt leyti get ekki fallizt á þessa breyt. Alþ. á aðgang að ríkisstj. um slíkt erindi sem þetta og beinir sínum orðum til ríkisstj. um það, hvað það ætlast til, að hún sjái um framkvæmd á. Og vitaskuld er það þá ríkisstj. að fara til þeirra manna, sem framkvæmdin áhrærir, og gera sínar till. gildandi gagnvart þeim um það, hvers hún ætlist til um það hvernig fjárhagsráð, sem er í þjónustu ríkisstjórnarinnar, framkvæmi þetta svo gagnvart olíufélögunum. — Og ég get tekið undir þau ummæli, sem hér hafa fram komið um það, að það er vissulega ekki tilætlun n., að út af þessu máli eigi að hækka verð á benzíni og olíum yfirleitt, út af slíkri verðjöfnun, því að ég geri ráð fyrir. að það muni vera hægt að koma á þeirri framkvæmd, án þess að til breyt. þurfi að koma á verði benzínsins, þar sem það er lægst. Og ég held, að þessi rökst. dagskrá, eins og hún er borin fram af hálfu n., sé hvað þetta snertir alveg fullkomlega bindandi og fullnákvæm um það, sem máli skiptir í þessu efni.

Fjárhagsráð er í þjónustu ríkisstj., og þarf þess vegna ekki að minna ríkisstj. á, hvert hún á að snúa sér um þetta efni.