22.11.1949
Neðri deild: 3. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í C-deild Alþingistíðinda. (2656)

6. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er alveg samhljóða frv. um sama efni, sem flutt var á síðasta þingi. Frv. fylgdi þá ýtarleg grg. frá nefnd, sem hafði undirbúið málið. Og sömuleiðis var þá gerð allýtarleg grein fyrir því í framsögu. Ég sé því ekki ástæðu til að fara að rekja það hér á ný, hverjar eru ástæðurnar til þess, að þetta frv. hefur verið borið fram, en vildi aðeins leyfa mér að benda á, hversu geysiþýðingarmikið það er, bæði frá sjónarmiði þjóðarheildarinnar og einnig vegna þeirra vinnutafa, sem orsakast af slysum, og vegna einstaklinganna, sem vinna á hinum ýmsu vinnustöðum, að þeim sé tryggður eins öruggur vinnuútbúnaður og mögulegt er. — Ég vildi því leggja þetta frv. fram í byrjun þings, svo að hæstv. Alþ., báðar d. þess, gæti haft nægilega rúman tíma til þess að athuga þetta mál. Í fyrra komst málið ekki út úr þessari hv. d. En ég vona a. m. k., að það sé nokkurt öryggi fyrir því, að það geti gengið hraðar nú, að það hefur þegar fengið allýtarlega athugun á síðasta þingi.

Legg ég svo til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og iðnn.