29.11.1949
Neðri deild: 6. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í C-deild Alþingistíðinda. (2681)

36. mál, skipulag kaupstaða og kauptúna

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Fyrir Alþingi 1948 var lagt frv. um þetta efni, er samið var af nefnd, sem þar til var skipuð og átti að vera sérfróð í þessum efnum; m. a. átti í henni sæti borgarritarinn í Reykjavík. Frv. var ekki afgr., en heilbr.- og félmn. þessarar hv. d. sendi það ýmsum aðilum til athugunar og umsagnar, og frá sumum þeirra komu ýmsar ábendingar um breytingar, sem þyrfti að gera á frv. Félmrn. athugaði svo eftir þinglok 1948 meðferð málsins og ábendingar og till., sem fram höfðu komið, og til þess enn á ný að reyna að ná samkomulagi milli sem allra flestra, þá ákvað ráðun. að skipa sérstaka nefnd til þess að athuga frv. á ný og benda á breytingar, sem æskilegar kynnu að þykja. Nefndin hefur yfirfarið frv. og lagt til, að á því yrðu gerðar nokkrar breytingar, en engar þeirra eru stórvægilegar, og hefur ráðuneytið tekið þær til greina og fellt þær inn í frv.

1948 fylgdi ég þessu máli úr hlaði og skýrði ákvæði þess, og sé ég ekki ástæðu til að endurtaka það nú, en læt nægja að vísa til þess, sem ég hef sagt um breytingar, sem á því hafa verið gerðar, og vænti þess, að hv. Alþingi sjái sér fært að afgreiða frv. sem lög, því að brýna nauðsyn ber til þess að setja lög um þau efni, sem ákvörðuð eru í þessu frv. — Legg ég svo til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn., sem áður fjallaði um mál þetta.