21.02.1950
Neðri deild: 49. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í C-deild Alþingistíðinda. (2687)

37. mál, sveitarstjórar

Frsm. (Jónas Rafnar) :

Herra forseti. Á síðasta þingi var samþ. þáltill. frá hv. þingmönnum Eyf. þess efnis að skora á ríkisstj. að taka til athugunar, hvernig stjórn hinna stærri kauptúna verði bezt og haganlegast komið fyrir, og að undirbúa nauðsynlegar lagabreytingar um það efni fyrir næsta Alþingi. Félmrn. hefur nú samið frv. það, sem hér liggur fyrir og vísað var til heilbr.- og félmn. eftir 1. umr. Eftir athugun þess leggur n. til, að það verði samþ., þó með nokkrum breytingum. Brtt. n. eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi leggur hún til, að í stað „sveitarráðsmaður“ komi hvarvetna: sveitarstjóri. N. telur, að það orð sé nær íslenzkri málvenju.

Í öðru lagi leggur n. til, að hér verði einungis um heimildarl. að ræða, þ. e., að ef frv. verður samþ., þá sé hreppsfélögum, sem hafa yfir 500 íbúa, heimilt að ráða fastan mann í sína þjónustu með þeim hætti, er frv. gerir ráð fyrir, en séu ekki skylduð til þess.

Í þriðja lagi leggur n. til, að hámark launa sveitarstjóra skuli vera samkomulagsatriði milli hans og hreppsnefndar, en launin ekki lögákveðin, eins og gert er ráð fyrir í frv. Þó leggur n. til, að ársgrunnlaun séu ekki lægri en 5.000 kr. auk verðlagsuppbótar. N. rökstyður þessa brtt. með því, að greiðslugeta hinna ýmsu hreppsfélaga sé misjöfn, enda ástæða til þess að miða launin við það, hvort um umfangsmikið starf sé að ræða. Hins vegar, ef hreppsfélag stendur í miklum framkvæmdum, t. d. hafnargerð, gæti verið ástæða til þess að fá sérmenntaðan mann í þjónustu sveitarfélagsins. Þyrfti þá að greiða honum hærri laun.

Í fjórða lagi sé hreppsn. heimilt að fela sveitarstjóra hreppstjórastörf, ef hreppstjóri lætur af starfi í hreppi, þar sem starfandi er sveitarstjóri, enda náist um þá ráðstöfun samkomulag milli hreppsnefndar og viðkomandi sýslumanns f. h. sýslunefndar.

Þetta eru helztu breyt., sem n. leggur til, að gerðar verði, en auk þess hefur hún gert tillögur um smávægilegar breyt., orðalagsbreyt. o. fl.

N. leggur eindregið til, að frv. verði samþ., þó með þeim breyt., sem ég hef þegar nefnt.