21.02.1950
Neðri deild: 49. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í C-deild Alþingistíðinda. (2688)

37. mál, sveitarstjórar

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. á þskj. 337, þá leggur heilbr.- og félmn. d. til, að frv. verði samþ., þó með þeim breyt., sem hv. frsm. hennar hefur þegar gert grein fyrir. En það eru einstök atriði í frv. og brtt. n., sem ég vildi víkja að.

N. leggur til í brtt. sínum, að í stað þess, að fastákveðið sé í l., að slíkir sveitarráðsmenn skuli vera í kauptúnahreppum, þá skuli hér aðeins vera um heimild að ræða. Tel ég til bóta að breyta frv. svo, enda mælir stj. Sambands íslenzkra sveitarfélaga með því. En gert er ráð fyrir því í frv., að l. skuli aðeins gilda fyrir þá hreppa, þar sem fleiri íbúar eru en 500, sem búa í kauptúni. Nú vildi ég fá skýringu á því hjá n., hvers vegna hún telur, að þetta eigi aðeins að gilda um kauptúnahreppa, en eigi aðra hreppa. — Þá er eitt nýmæli í 4. brtt. n. Þar segir svo, að ekki sé „heimilt að binda ráðningu sveitarstjóra við kjörtímabil hreppsnefndar né önnur ákveðin tímamörk.“ Ég skal ekki segja, hvort þetta sé heppilegra, en það fyrirkomulag, sem nú er í kaupstöðunum, að ráðning borgar- og bæjarstjóra gildir aðeins fyrir eitt kjörtímabil. En mér skilst, að ef þetta verður samþykkt, þá gildi aðrar reglur í þessum hreppum en í stærri bæjum, þar sem ráðning bæjarstjóra gildir fyrir ákveðið tímabil. — Þá er enn eitt: 7. brtt. n. Þar er lagt til, að á eftir 7. gr. frv. komi ný gr., að efni til um það, að hætti hreppstjóri störfum í hreppi, þar sem sveitarstjóri starfar, sé „heimilt að fela sveitarstjóra hreppstjórastörf, náist um það samkomulag milli hreppsnefndar og viðkomandi sýslumanns fyrir hönd sýslunefndar. Fari sveitarstjóri með hreppstjórastörf, greiðir ríkissjóður honum þóknun sem svarar hreppstjóralaunum.“ En þess er eigi getið, hvort hann eigi að fá þóknunina til viðbótar sveitarstjóralaunum sínum eða ekki. En ég álít, að þessi gr. eigi ekkert erindi í þetta frv. Nú er það svo, að þegar sæti hreppstjóra losnar, gerir sýslun. till. til sýslumanns um nýjan hreppstjóra. Hún velur þrjá menn til starfans úr hópi hreppsbúa, og sýslumaður á svo að skipa einn af þessum þremur í stöðuna. Nú liggur í hlutarins eðli, að í hreppi, þar sem sveitarstjóri er starfandi, er sýslun. heimilt að benda á hann sem hreppstjóraefni eins og aðra hreppsbúa. Má þá sýslumaður velja hann til hreppstjórastarfsins úr hópnum, ef hann vill. Þar sem ekki er lagt til, að skylt skuli að sameina þetta tvennt, þá sé ég ekki, að gr. eigi erindi í frv. Eðlilegt er, að sýslun. og sýslumaður hafi í sameiningu vald til að kveða á um það, hverjir taki að sér hreppstjórastörf, eins og nú er. Legg ég því á móti, að þessi brtt. n. verði samþykkt.