21.02.1950
Neðri deild: 49. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í C-deild Alþingistíðinda. (2691)

37. mál, sveitarstjórar

Landbrh. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Ástæðan til þess, að þetta frv. var lagt fram, og sú, sem þáltill. byggist á, er sú, að það er víða erfitt í fjölmennum hreppum að fá hæfa menn, sem bundnir eru annars staðar, til að gegna oddvitastörfum. Ég hef litið svo á, að sé á annað borð farið inn á þá braut að ráða fastan starfsmann, þá eigi að sameina oddvita- og hreppstjórastörfin í þeim hreppum, þar sem það er gert. Það verður þá að vera samningsmál milli sýslunefndar og hreppsnefndar, hver fari með sveitarstjóra- og hreppstjórastörfin, ef sveitarstjóri er ráðinn til oddvitastarfa. Ég tel þá framför að gera ráð fyrir því, að starfstími þessa manns sé eigi bundinn við kjörtímabil hreppsnefndar. Væri þá unnt að koma meiri festu á, ef hann væri ráðinn sem fastur starfsmaður.

Eitt atriði er það, sem hv. þm. V-Húnv. gat réttilega. Það er varðandi 2. brtt. hv. n., við 1. gr. frv., að þetta sé eingöngu bundið við þá hreppa, „þar sem fleiri en 500 íbúar búa í kauptúni.“ Nú eru nokkrir sveitabæir með í kauptúnahreppum, og gæti það valdið misskilningi, ef þeir væru teknir með. Að öðru leyti er það skoðun mín, að séu svo margir íbúar í hreppi, hvort sem um er að ræða sveitahrepp eða kauptúnahrepp, þá sé réttmætt, að umrædd heimild nái líka til sveitahreppanna. Ég vil nú víkja því til hv. n., hvort hún geti eigi fallizt á að fella þessi orð niður í kauptúni. Vildi ég, að samkomulag gæti orðið um þetta í hv. n. Að öðru leyti geri ég ráð fyrir að flytja breytingartillögur við frv. við 3. umr.