21.02.1950
Neðri deild: 49. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í C-deild Alþingistíðinda. (2695)

37. mál, sveitarstjórar

Landbrh. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Út af þeim aths., sem hér hafa komið fram varðandi 7. tölul. í brtt. hv. n., þykir mér ástæða til að segja nokkur orð. Það hafa fleiri en einn hv. þm. vikið að því, að það væri réttara að koma þessu þannig fyrir að setja inn í frv. ákvæði um, að sveitarstjórinn væri kjörgengur sem hreppstjóri. Um þetta þarf ekkert að setja í lögin, því að þetta er sjálfsagt, að hann yrði kjörgengur til þess, eins og hver annar innanhreppsmaður. En það, sem hér er um að ræða, er, að ég get tæplega hugsað mér, kostnaðar vegna, að framkvæmdin á þessu máli yrði á annan veg en þann, að um leið og heimildin til þess að setja sveitarstjóra í einhverju hreppsfélagi, þá yrðu um leið sameinuð störf oddvita og hreppstjóra, eins og þau eru nú. Og þá þarf að vera frá því gengið, að framkvæmdin á þessu yrði ekki á þann veg, að þessir sveitarstjórar hefðu hvor tveggja störfin með höndum þannig, að þeir fengju sem aukagetu, auk sveitarstjóralaunanna, hreppstjóralaunin frá ríkissjóði, heldur væri þetta framkvæmt þannig, að sú upphæð, sem hreppstjóralaununum nemur, kæmi sem greiðsla til léttis við þá launabyrði, sem hreppurinn þar að greiða þessum manni, sem gert er ráð fyrir, að hafi fast starf sem sveitarstjóri. Ég get þess vegna varla hugsað mér, að þetta eigi að framkvæmast á annan hátt en þann, að áður en ákveðið er að nota heimild þessara laga í einhverjum hreppi, þá verði samið um það við hlutaðeigandi sýslunefnd og sýslumann að samelna þannig þessi störf eins og ég hef drepið á, og þá ekki aðeins um stundarsakir, heldur til frambúðar. Þetta vildi ég biðja hv. n. að athuga, því að ég vænti þess, að hún verði við þeirri ósk, sem fram hefur komið hjá hv. þm. Borgf., að taka brtt. þessa aftur til 3. umr.