05.01.1950
Neðri deild: 22. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í B-deild Alþingistíðinda. (270)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Emil Jónsson:

Herra forseti, Ég skal ekki fara mörgum orðum um ræðu hv. þm. Siglf. (ÁkJ). Hún var þó að ýmsu leyti merkileg, m.a. vegna þess, að það virtist vera hans mesta áhyggjuefni, að ábyrgðarverðið væri ekki nógu hátt, og álagningin þá sjálfsagt ekki nógu mikil. Enn fremur hafði hann áhyggjur af því, að útvegsmönnum yrði ekki gefið nógu mikið af frjálsum gjaldeyri. Þá sagði hann, að þrátt fyrir vaxandi dýrtíð og alls konar álögur í tíð fyrrv. stjórnar, hefðu útvegsmenn ekki fengið hækkað verð. Það er rétt, að ábyrgðarverðið hefur staðið í stað, en söluverð erlendis hefur líka lækkað, og uppbátagreiðslurnar hafa því farið vaxandi, enda þótt útvegsmenn hafi ekki fengið hærra verð fyrir aflann. Dýrtíðarráðstafanir í þá átt að greiða niður verð á vörum innanlands hafa líka farið vaxandi, og munar miklu um það árið 1949 frá árinu 1946. Það liggja þannig til þess eðlilegar orsakir, að ríkisstj. hefur orðið að afla aukinna tekna til þess að standa undir auknum niðurgreiðslum og uppbótum á útflutningsvörur. Þeir skattar, sem í því skyni hafa verið lagðir á, hafa ekki verið nefskattar nema að litlu leyti. Var reynt til þess, að þeir legðust á þá hluti, sem almenningur þyrfti lítt eða ekki að nota. Það var lagður skattur á bíla, benzín, kvikmyndir, innlenda sælgætisframleiðslu og þær innflutningsvörur aðrar, sem almenningur þyrfti sízt að nota, en allar nauðsynlegustu vörurnar voru undanþegnar skatti. Þetta er höfuðmunurinn á fyrri stefnu og þeirri, sem nú á að fara, að leggja jafnt á allar vörur. Í tíð fráfarandi stj. leituðumst við við að leggja gjöld á vörur, sem almenningur notar lítið, þær er telja mátti umfram venjulega neyzlu. Þó er neyzluskatturinn undanþeginn. En mismunurinn á söluskattinum áður fyrr og þessum, sem nú á að leggja á, er mikill, því að hann fimmfaldast, fer m.ö.o. úr 6% í 30%. — Freistandi væri að fara frekar út í ræðu hv. þm. Sigif., en ég mun nú sleppa því og minni heldur á 1–2 atriði. Annars hefur hv. 8. landsk. gert grein fyrir afstöðu okkar Alþýðuflokksmanna. En mig langar til að láta í ljós undrun mína yfir því, hvernig þær tölur eru taldar — eða upphæðir —, sem frv. þetta gerir ráð fyrir, og eins yfir hinu, hvernig á að afla teknanna. Eru í því sambandi tvö atriði í frv. Annað er þetta: Útvegsmönnum á að tryggja svo hátt verð, að þeir fari af stað á veiðar. Það hygg ég, að tekizt hafi með 75 aura verðirðu. Ég hygg, að hæstv. ríkisstj. hafi haft samráð við útvegsmenn, og býst við, að þetta verð sé nægilegt, þótt það sé allmiklu lægra, en fram kemur í tillögum frá fundi stjórnar Landssambands íslenzkra útvegsmanna. Ég veit eigi um það og ræði þetta mál því ekki nánar. En, eins og ég tók fram, geri ég ráð fyrir, að upphæðin muni nægja.

Hitt atriðið er það, hversu mikið þetta kosti, og hvernig afla eigi fjárins. Það er gert ráð fyrir að hækka ábyrgðarverðið úr 65 aurum í 75 aura, eða um 10 aura pr. kg. Ef gengið er út frá því í fyrstu að afla tvo mánuði ársins 23 þús. tonn, sem er hærri tala en árið 1949, þegar öfluðust um 16 þús. tonn, (Atvmrh.: Það er tekið meðaltal af fimm árum.), jæja, meðaltal af 5 árum, þá nemur hækkunin á þessum 23 þús. tonnum eða 23 millj. kg. eigi nema 2.3 millj. kr. Nægir þetta því elgi til þess að ná umræddri upphæð. Í ábyrgðarverðinu til hraðfrystihúsaeigenda er innifalið heldur meira en felst í verðinu á fiski, eins og hann kemur úr sjónum, vinnslukostnaði hans. En um saltfiskverðið er það tekið fram, að hækkunin umfram fiskverðið sjálft, hækkunin á því, nemi um helmingi af því, sem fiskverðsupphæðinni nemur, ef reiknað er með kr. 1.53 í stað kr. 1.33 í núgildandi l., pr. enskt pund fob. Miðað við hækkunina eina á fiskverðinu mundi þurfa 12–13 aura. Því er hækkunin um 15–20% meiri. En þó nær upphæðin, er stj. þarf að greiða, vart meira en 2,3 millj. kr., og verði haldið áfram með þessar ábyrgðargreiðslur út árið og verði gert ráð fyrir svipuðum sjávarafla og verið hefur að undanförnu, þá telst mér til, að hækkunin á meðlagsskyldu ríkissjóðs geti ekki farið yfir 18–20 millj. kr. (Atvmrh.: Allt árið?) Það er reiknað m.a. með 30 þús. tonnum af flökum, og eru þá innifaldar um 131/2 millj. kr. í hækkuninni einni, og síðan bætist við vinnslukostnaður, svo að meðlagsskylda ríkissjóðs yrði 16–18–20 millj. kr. En hitt skil ég ekki, að leggja þurfi til viðbótar á landsmenn 30% á ábyrgðarverðið. Samkvæmt frásögn hæstv. ríkisstj. hefur þetta að vísu breytzt á þá leið, að leggja skuli á cifverð, en eigi tollverð — að viðbættu fob -verði. En yrði það gert, mundi skatturinn nema um 80–90 millj. kr. En ef í staðinn skuli lagt á cifverð, kemur hækkunin á ca. 250 millj. kr., þ.e. 300 millj. kr. innflutning, að frádregnum 60 millj. kr., þ.e. 240 millj. kr., — með 24% hækkun frá því, sem nú er, og að frádregnum 1/6 (í tvo mánuði), þ.e. 10 millj. kr. Þ.e.: hækkunin gæti eigi orðið minni, en 50 millj. kr. frá 1. marz til að jafna upp 18 millj. kr. hækkun, sem fiskverðshækkunin að viðbættri hækkuninni til hraðfrystihúsanna kallar á. Mér finnst því, að þessar tölur í frv. séu í senn losaralegar og ríflega áætlaðar fyrir álagningunni á ríkissjóð.

Hitt er annað mál, hvernig aflað skuli tekna á móti þessu, þannig að það á að leggja á söluskatt, sem er raunverulegur gjaldeyrisskattur: Það er lagt á innflutninginn allan. Þetta er gengisfelling um 30% á öllum innfluttum nauðsynjavörum. Fráfarandi stj. hafði það fyrir reglu í skattaálögum, að tekna ríkissjóðs yrði eigi aflað með jöfnu álagi, heldur skyldi undanskilja almennar neyzluvörur og hækka þá gjöldin á hinum, sem almenningur notar ekki almennt. Því vildi ég leggja áherzlu á það, að verði farið út í að afla tekna á þann hátt, sem gert er ráð fyrir sem möguleika í þessu frv., því að við vitum, að um þær leiðir verður eigi að ræða eftir þ. 1. marz n.k., — og verði því haldið fram, þá — ég endurtek — vildi ég undirstrika það, að teknanna verði eigi aflað með jöfnu álagi, þ.e. með beinni 30% gengisfellingu, heldur verði leitazt við að draga úr álagningunni á þær vörur, sem almenningur notar mest. Ég sé eigi betur en hér sé svo riflega áætlað, þ.e. tekjurnar eru áætlaðar þrisvar sinnum hærri en útgjöldin, að unnt ætti að vera að sleppa öðrum vörutegundum en þeim, sem við þörfnumst til daglegrar neyzlu. Ef það yrði gert og lagt yrði á aðrar og minna notaðar vörur, þá held ég, að við mundum verða til viðtals um málið, þ.e. um aðra leið, en hér er farin í því. Miðað við þær tölur, er hér að framan eru taldar, þá ætti að vera kleift að draga út úr talsvert magn af vörum, sem skatturinn yrði lægri á. — Þetta vil ég, að n. sú, er málið fær til athugunar, kanni nánar, því að á því veltur fylgi mitt við þennan hluta frv. Eins vildi ég biðja hana um að reikna betur út, hvað þurfa muni til að standa straum af kostnaði þeim, sem aðgerðirnar skv. frv. mundu hafa í för með sér.

Ég skal svo ekki fara miklu meira út í að ræða frv. í einstökum atriðum. Hefur grein verið gerð fyrir málinu af hv. 8. landsk. En ég vildi láta þetta koma fram vegna tekjuöflunarinnar og útreiknings á tekjum og greiðslum skv. frv.