21.02.1950
Neðri deild: 49. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í C-deild Alþingistíðinda. (2701)

37. mál, sveitarstjórar

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Það eru örfá orð í tilefni af þessari brtt. hv. þm. V-Húnv. Mig langar til að vekja athygli á því, að verði till. samþ., þá er frv. raunverulega gert alveg gagnslaust. Nú fer ég að gera mér ljóst, að hv. þm. er í raun og veru á móti málinu. Hann vill fella niður þá setningu í frv., sem má segja, að sé kjarni þess og undirstaða þess kerfis, sem hér er verið að reyna að byggja upp með frv. Eins og n. leggur til að þetta verði, er hér eingöngu um heimild til sveitarstjórnanna að ræða, og þess vegna má segja, að sú breyt., sem gerð yrði með samþykkt frv., yrði engan veginn mjög mikil frá því, sem verið hefur. En samt sem áður væri gagnlegt spor stigið með samþykkt frv. einmitt vegna þess, að ef sveitarstjórnirnar ráða sér slíkan starfsmann, þá verða þær að hafa það í samræmi við þessi l., ef samþ. yrðu. Þessi maður verður þá embættismaður og verður ekki sagt upp, nema hann geri sig sekan um vanrækslu eða skeytir ekki áminningu sveitarstjórnar. Ef þetta er fellt úr frv. og gert ráð fyrir, að sveitarstjóri skuli verða ráðinn til 4 ára í senn eða sama tíma og hreppsnefnd er kjörin, þá finnst mér fullkomlega tilgangslaust að samþ. frv., því að þá felst engin breyting í því frá því, sem nú er. Til hvers væri að samþ. slík heimildarlög, sem ekki fælu í sér neina verulega breyt. á þeirri skipun, sem gilt hefur um stjórn þessara hreppa, sem hér eiga hlut að máli?

Hv. þm. kallaði það hortitt, ef 7. brtt. væri samþ., einmitt vegna þess að hún felur í sér ábendingu um, hvað gera megi. Hún felur í sér heimild til að ráða sveitarráðsmann hreppstjóra. Ég skal fúslega játa, og ég tók það fram áðan, að það mundi sjálfsagt engin veruleg breyt. verða, þó að þessi brtt. væri ekki samþ., vegna þess að ég hef litið svo á, að sveitarstjóri væri kjörgengur sem hreppstjóri. En ef hv. þm. kallar þessa breyt. hortitt, þá sé ég ekki betur, en hann sé að reyna að gera allt frv. að einum hortitt með sinni brtt. Þessi ummæli mín eru á fullum rökum reist, vegna þess að ef brtt. verður samþ., þá verða þetta almenn heimildarlög, sem breyta ekki það minnsta raunverulegri skipun á þessum málum, nema hvað oddviti verður framvegis ekki kallaður oddviti, heldur sveitarstjóri, og að hér eru sett lágmarksákvæði um laun hans og því um líkt. En kjarni málsins, meginatriði þessa frv., eins og það var hugsað af félmrn. og eins og n. var sammála um að mæla með því, meginhugsunin var að gera tilraun til að taka upp nýja skipun um framkvæmdastjórn ákveðinna hreppa, þeirra hreppa, sem hafa fleiri en 500 íbúa og eru kauptún. Ég er þeirrar skoðunar, að þetta sé spor í rétta átt, og ég vona, að hv. þdm. eða meiri hluti þeirra sé einnig þeirrar skoðunar, því að andmæli gegn þessu nýmæli hafa ekki komið fram af hálfu annarra en hv. þm. V-Húnv., og einu andmælin eru þau, að ef það sé réttmætt, að þessi skipun verði tekin upp í þessum hreppum, þá sé það einnig réttmætt í kaupstöðum. Ég tók fram, að n. ræddi um, hvort ekki væri rétt að bera fram brtt. við sveitarstjórnarlögin um þetta efni eða bera fram þáltill. um að endurskoða sveitarstjórnarlögin með tilliti til þessa atriðis. Nú viðurkenni ég, að það er dálítið meiri erfiðleikum bundið að gera breytingar á skipun þessara mála í kaupstöðum, vegna þess að þessi störf eru þar miklu umfangsmeiri. Aðalatriðið liggur ekki alveg eins í augum uppi þar eins og í litlu hreppunum. Þar er ekki um það að ræða, að þar sé verkefni aðeins fyrir einn starfsmann. Annars hygg ég, að reynslan af bæjarstjórastörfunum sýni, að núverandi skipun á stjórn kaupstaðanna samkvæmt gildandi l. er mjög ábótavant. Það hefur gengið illa fyrir kaupstaðina að fá hæfa menn í störf bæjarstjóra vegna þess, hvernig skipun þessara mála hefur verið, að það er litið á þá sem pólitíska umboðsmenn ráðandi bæjarstjórnarmeirihluta, en ekki fyrst og fremst framkvæmdastjóra bæjarfélagsins. Ég er því eindregið þeirrar skoðunar, að það eigi að gera tilraun til að breyta sveitarstjórnarlögunum. En þótt tillögur liggi ekki fyrir um það, sé ég ekki að ástæða sé til að fresta meðferð þessa máls, þar sem rökin fyrir hinni breyttu tilhögun eru miklu augljósari hvað snertir kauptúnin, en kaupstaðina.