03.03.1950
Efri deild: 68. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í C-deild Alþingistíðinda. (2715)

37. mál, sveitarstjórar

Bernharð Stefánsson:

Virðulegi forseti. Það stendur svo á, að ég er upphafsmaður þessa máls. Á fyrra þingi bar ég fram í Sþ. þáltill. um þetta mál ásamt hv. samþm. mínum, 2. þm. Eyf. (StSt). Það er því rétt, að ég láti málinu fylgja nokkur orð og tjái þakkir mínar fyrir, að hæstv. stj. tók þessa þál. til greina og lét semja þetta frv. Ég álít, að hér sé um nauðsynjamál að ræða fyrir mörg sveitarfélög á landinu. Í kauptúnum, þar sem eru miklar framkvæmdir, er ómögulegt að ætlast til þess, að einhver borgari taki oddvitastörfin að sér sem aukastörf. Það mundi ríða atvinnu hans að fullu, og það er ekki hægt að gera þá kröfu til borgaranna. Frsm. n. í Nd. hafði samstarf við mig um breyt. á frv., en ég sakna eins ákvæðis, er við töluðum um og mér þykir nauðsyn, að sé í frv. Þegar sérstakur starfsmaður hefur verið ráðinn, finnst mér, að oddvitastörfin séu ekki það mikil, að hann geti ekki haft önnur störf með. Hreppstjórastörfin eru hliðstæð störf. Hvers vegna er það ekki tekið inn í frv., að sveitarstjóri skuli annast þau störf? Fyrir þau mundi hann fá laun greidd úr ríkissjóði, er draga mætti frá þeim launum, er sveitarsjóður ella þyrfti að borga. Það yrði því hagnaður fyrir sveitarfélögin að láta sveitarstjóra einnig hafa hreppstjórastörfin með höndum.

Út af því, sem hv. 1. þm. N-M. (PZ) sagði, þá get ég tekið undir það, að þörf er á því, að sveitarstjórnarlögin verði endurskoðuð. Einn þáttur þeirra endurskoðunar yrði skipting landsins í sýslur og hreppa. Það er vitanlega engin meining í þessum litlu hreppum, og væri miklu réttara að steypa saman fleiri hreppum í eina heild. Mér dettur í hug, hvernig þessu er farið í mínu héraði. Hvaða meining er í því að skipta dalnum innan við Akureyri í þrjá hreppa? En ég er á móti því, að hv. n. fari að blanda sér í þetta stóra mál. Það er nauðsyn fyrir kauptúnin að fá fastan starfsmann, og þess vegna þarf að samþ. þetta frv. nú, en gagngerð breyt. á sveitarstjórnarl. mundi taka of langan tíma. Ég vil þess vegna beina því til hv. n., að hún hraði afgreiðslu málsins og taki til athugunar það, sem ég nefndi. Úr því að hv. 4. þm. Reykv. er kominn, vil ég endurtaka, að mér finnst, að taka ætti inn í frv. ákvæði um það, að hreppsnefndir geti samið um, að sveitarstjóri gegni einnig hreppstjórastörfum og ríkissjóður borgaði þá þann hluta launanna, sem hann ætti að greiða hreppstjóra hvort sem er.