27.03.1950
Efri deild: 81. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í C-deild Alþingistíðinda. (2719)

37. mál, sveitarstjórar

Frsm. meiri hl. (Rannveig Þorsteinsdóttir) :

Herra forseti. Í heilbr.- og félmn. varð ekki samkomulag um afgreiðslu þessa máls. Meiri hl. n. leggur til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir, en minni hl. n. hefur borið fram brtt.

Þetta frv. var á sínum tíma borið fram af ríkisstjórn og hafði verið undirbúið af félmrn. En upphaf þessa máls er það, að á Alþ. 1949, þann 25. febr., var samþ. þáltill. svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að taka til athugunar, hvernig stjórn hinna stærri kauptúna verði bezt og haganlegast fyrir komið, og að undirbúa nauðsynlegar lagabreytingar um það efni fyrir næsta Alþingi.“

Samkv. þessari ályktun hefur ríkisstj. látið undirbúa frv. það, sem hér liggur fyrir og nú hefur gengið í gegnum hv. Nd. og er nú hingað komið, að vísu nokkuð breytt frá því, sem það var lagt fram á sínum tíma. Má segja, að aðalbreyt. sé í því fólgin, að í frv. upphaflega var það látið vera skylda að fela sérstökum sveitarstjóra stjórn hreppsmála, þar sem fleiri en 500 íbúar væru í hreppi, en nú er það aðeins heimild eftir frv., eins og gengið var frá því í hv. Nd. Aðalefni þessa frv. er það að taka það atriði út úr sveitarstjórnarl., sem hér um ræðir, og tiltaka sérstakan starfsmann til þess að hafa á hendi framkvæmdir fyrir sveitarfélögin, þar sem svo margir íbúar eru sem hér greinir, enda er talið, að í flestum sveitarfélögum, sem orðin eru svo fjölmenn eins og hér greinir í frv., þá sé þetta fullnóg starf fyrir einn mann. Frv. þetta hefur nokkuð verið byggt upp með tilliti til þeirrar reynslu, sem fengin er af kosningum bæjarstjóra og af samskiptum bæjarstjóra við bæjarstjórnir víðs vegar, og hefur verið reynt, eftir því sem unnt er, að setja inn í þetta frv. ákvæði, sem komið gætu í veg fyrir, að svipaðir árekstrar ættu sér stað á milli sveitarstjóranna og sveitarstjórnanna eins og iðulega hefur átt sér stað á milli bæjarstjóranna og bæjarstjórnanna.

Ég fjölyrði svo ekki um þetta. En meiri hl. n. leggur til, að frv. verði samþ. í þeirri mynd, sem það nú hefur. Þó hefur einn nm., sem skrifað hefur undir álit meiri hl. n., áskilið sér rétt til þess að fylgja einstökum brtt.