27.03.1950
Efri deild: 81. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í C-deild Alþingistíðinda. (2722)

37. mál, sveitarstjórar

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég vil svara nokkru því, sem komið hefur fram í síðari ræðu hv. frsm. meiri hl. n. Hún sagði í fyrri ræðu sinni, að frv. væri byggt á reynslu, sem fengizt hefði af ráðningu bæjarstjóra. Ég held, að þetta sé ekki rétt, því að ef það hefði verið, þá hefði það verið byggt á allt annan hátt, en það er. En hv. frsm. meiri hl. n. hélt fram, að meiningin væri sú með þessu frv., að í starf sveitarstjóra væri ráðinn ópólitískur embættismaður. Ég held, að það ætti að setja það inn í frv., ef það væri meiningin. En ákvæði frv. fyrirbyggja það alls ekki, að það séu ráðnir til sveitarstjórastarfa rótpólitískir menn, enda hygg ég, að ógerlegt væri að setja það í lög, að í eitthvert embætti mætti ekki skipa eða ráða aðra, en ópólitískan mann, þar sem flestir Íslendingar eru í sjálfu sér rótpólitískir. Ég þekki sýslumann, sem ekki gat hugsað sér að taka neinn bónda í einum hreppi til þess að vera hreppstjóra, af því að þeir voru ekki af hans flokki, og hann setti vinnumann til þess að vera hreppstjóra. Þetta m. a. sýnir, hvað margir menn eru rótpólitískir.

Hv. frsm. meiri hl. sagði í sambandi við till. um breyt. á 4. gr., að það væri ýmislegt, sem ekki væri hægt að taka upp í samninga og setja í Stjórnartíðindin, sem tekið væri fram í gr., en ég vil benda á það, að í frv. er gert ráð fyrir því, að sveitarstjórn semji drög að samningum, og hví getur hún þá ekki gert þessa samninga án þess, að sérstök lagaákvæði komi þar til? Það væri því bezt að fella gr. niður. — Þá sagðist hv. frsm. ekkert skilja í því, að við skyldum vilja fella 7. gr. niður, og sagði, að hún hefði verið sett vegna þeirrar sorglegu reynslu, sem fengizt hefði í sambandi við bæjarstjóra. Ég veit ekki, hvað hv. frsm. er að fara, þegar hann segir þetta, og veit ekki til, að fengizt hafi nein sorgleg reynsla af bæjarstjórum. Ég mótmæli því algerlega, að bæjarstjórar hafi yfirleitt reynzt nokkuð óreglusamari, en aðrir starfsmenn. Hv. frsm. sagði, að þeim hefði verið vikið frá starfi án þess, að þeir hefðu nokkra leiðréttingu fengið sinna mála. Hvers vegna leituðu þessir menn þá ekki réttar síns fyrir dómstólunum? En í þessu frv. er tekið fram, að samið skuli vera á milli sveitarstjórnarinnar og sveitarstjóra, svo að þeim ætti að vera borgið. — Þá sagði frsm., að nauðsyn bæri til að taka fram, hver skuli taka við störfum sveitarstjóra, en sá meiri hluti, sem víkur sveitarstjóra frá, verður að sjálfsögðu að sjá um slíkt, og í frv., eins og það er nú, segir, að ekki megi segja upp samningum með skemmri uppsagnarfresti en 6 mánuðum, og verði því beitt af sveitarstjórninni, verður hún að sjá um, að einhver sé til að taka við starfinu að þeim tíma liðnum. Við viljum hafa heiðarlega ráðningarsamninga milli tveggja heiðarlegra aðila, og er því sjáanlegt, að engin nauðsyn er að hafa þessa grein. Hv. þm. S-Þ. (KK) hefur bent mér á, að hann telji heppilegra, að upphafi 4. gr. verði breytt svo, að í stað: „Sveitarstjóri fer með störf þau“ o. s. frv. komi: Sveitarstjóri getur farið o. s. frv. — og mun ég athuga þetta fyrir 3. umr. Verði okkar till. samþ., þá tel ég þetta betra, en verði þær felldar, þá tel ég réttast, að hv. meiri hl. beri einnig ábyrgð á orðalagi frv.