27.03.1950
Efri deild: 81. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í C-deild Alþingistíðinda. (2723)

37. mál, sveitarstjórar

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Mín skoðun er sú, að þau l. séu bezt, sem taka aðeins það fram, sem nauðsynlegt er, og mun ég — því greiða atkv. till. þeirra hv. þm. Barð. (GJ) og hv. 7. landsk. Og mér skilst, að það, sem þeir vilja fella niður, sé fremur til óþæginda, en þæginda og eins, að heimildin skuli ná til allra sveitarfélaga, en ekki aðeins þeirra, sem telja 500 íbúa og þar yfir, sé til bóta. Ég skal nefna dæmi um það, sem mér finnst til óþurftar í frv., t. d. um ákvörðun launa. Oddvitar fá nú í laun 1 kr. með verðlagsuppbót, þ. e. 3. kr., fyrir hvern mann í hreppnum og 2% af því, sem þeir heimta inn. Oddvitar í 500 íbúa sveitarfélagi fá þannig 1.500 kr., og ef við gerum ráð fyrir, að innheimtan nemi 300–400 þús. kr., segjum 300 þús., þá á hann að fá 6.000 kr. í innheimtulaun, þannig að launin nema alls 7.500 kr. Ekki mundi sveitarfélagi finnast það til bóta að vera skyldað til að greiða manni, er annaðist sömu störf, helmingi hærri laun. — Í síðari mgr. 5. gr. segir, að sé hreppsnefndarmaður kjörinn sveitarstjóri, skuli hann leggja niður umboð sitt sem hreppsnefndarmaður. Nú er tekið fram í sveitarstjórnarl., að hreppsnefndarmaður geti tekið hvaða starf sem er að sér, án þess að segja af sér hreppsnefndarstörfum. Það er því mjög óheppilegt, að hreppsnefndarmaður verði að segja af sér því starfi, ef hann gerist sveitarstjóri. Hv. þm. Barð. benti áðan á atriði, sem ég tel, að betur mætti fara. Ég tel heppilegra, að sveitarstjóri megi taka meira eða minna að sér af störfum sveitarstjórnar, en sé ekki skyldaður með lagaákvæði til að taka það allt að sér nema fundarstjórn.

Ég tel, að ég hafi nú gert grein fyrir skoðun minni, og mun fylgja minni hl. n. að málum.