28.03.1950
Efri deild: 82. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í C-deild Alþingistíðinda. (2730)

37. mál, sveitarstjórar

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson):

Forseti. Ég minntist á það síðast, að ef till. minni hl. yrði samþ., mundi ég bera fram brtt. við 4. gr. Ég vil nú leyfa mér að leggja fram brtt. við þessa gr., er hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„a. Í stað orðanna „Sveitarstjóri fer með störf þau“ í upphafi gr. komi: „Sveitarstjóra má fela störf þau.“

b. Í stað orðanna „og hefur á hendi framkvæmd málefna“ í 1. málslið komi: og hefur hann þá á hendi framkvæmd þeirra málefna.“

Út af brtt. frá hv. 11. landsk. vil ég segja, að mér finnst gæta hjá honum of mikillar hræðslu í þessu sambandi. Það er á valdi hreppsnefndar í hverjum hreppi, hvort hún ræður þennan mann eða ekki, og á hún bezt að geta dæmt um þörfina. En ég hygg, að ótti hv. 11. landsk. muni stafa af því, sem hann veik að í gær, að í hans ágætu sýslu séu innan um svo frekir menn, að hann sé hræddur um, að þeir muni kúga hreppsnefndirnar. Hins vegar mun ég greiða atkvæði á móti till. hans og mælast til; að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir.