28.03.1950
Efri deild: 82. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í C-deild Alþingistíðinda. (2734)

37. mál, sveitarstjórar

Þorsteinn Þorsteinsson:

Virðulegi forseti. Ég veit nú eiginlega ekki, hvernig ég á að snúa mér um þessa till. Er hún komin fram eða ekki? Er þetta svo heilagt, að það megi ekki taka hana inn, eða er hún ekki fædd? Fæðingunni hefur verið lýst af hv. þm. Barð., en síðan hafa einn eða tveir tekið til máls, en þó er till. ekki komin til umr. Ég verð að segja það, að hv. þm. hefur oft verið framkvæmdameiri við að sjóða saman till. Ég held næstum því, að honum ói við afkvæminu.

Hv. 4. þm. Reykv. (HG) lýsti sinni skoðun á brtt. minni, og ég vil taka það fram, að ég teldi það gott og reyndar ágætt, ef við gætum haft frið í hinum fámennari hreppum fyrir því að beita nýjum embættum, en úr því að Alþingi hefur áhuga á því að koma nýjum embættum á stofn, þá er spurning um það, hvort það geti ekki verið rétt að láta það sjá um greiðslu á t. d. 1/3 af þeim kostnaði, sem þetta hefur í för með sér! En ég ætla nú ekki að fara að biðja um frest til þess að koma með till. um það, af því að þetta er líka 3. umr. málsins. En það getur ef til vill verið rétt að bæta einhverjum á launakassann hjá ríkissjóði! Nei, ég held, að þetta sé óheppilegt, og þetta er svo ólíkt hv. þm. Barð., sem annars er nú svo praktískur maður. Ég held, að þetta hafi eitthvað snúizt í höfðinu á hv. þm., og það, sem hann sagði, að þetta ætti aðeins við um Dalasýslu, er náttúrlega alveg út í bláinn, því að þetta á ekki frekar við þar en annars staðar. Þetta gæti einnig átt við um þann hrepp, sem hv. þm. talaði um í gær, þar sem ekki var öðrum til að dreifa til þess að taka að sér framkvæmd mála, en vinnumönnum og veizlustjóra.

Sem sagt, ég vildi helzt, að d. styngi hér ögn við fæti og samþ. till. mína, að minnsta kosti varatill., mér er þá sama, þótt aðaltill. sé felld. Að öðru leyti læt ég útrætt um þetta mál, en sé mér hins vegar ekki fært að fylgja því út úr deildinni.