05.01.1950
Neðri deild: 22. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í B-deild Alþingistíðinda. (274)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að fara að halda neina langa ræðu, því að bæði ætlaði ég að vera búinn að fá svarað hér ýmsum fsp., sem ég bar fram í dag, áður en ég talaði núna, og svo finn ég mig ekki knúinn til þess að tefja þetta mál um of, og í þriðja lagi er ekki svo björgulegt um að litast hér í d., að það beint hvetji menn til þess að halda hér langar ræður.

Ég ætla í fáum orðum að minnast á það, sem fram kom hjá tveim hæstv. ráðh. við umr. málsins í dag. Það var í fyrsta lagi út af þeim drætti, sem á því hefur orðið, að hæstv. ríkisstj. legði fram þetta frv. Hæstv. forsrh. færði enn sem fyrr sömu ástæður fyrir þessum drætti og taldi hann í allan máta mjög eðlilegan. Ég skal ekki, þrátt fyrir það að þær ástæður eru ekki gildar, orðlengja það fremur hér, og leiði það því hjá mér. Ég hefði talið það afsakanlegt, þó að þetta hefði dregizt fram yfir nýár fyrir ríkisstj., ef hún hefði þá komið fram með nýjar till. til úrbóta í málinu, en þar sem því er ekki til að dreifa, þá er þetta algerlega óafsakanlegt og hefur, eins og hv. þm. Hafnf. (EmJ) hefur í sinni ræðu réttilega tekið fram, orðið til verulegs tjóns fyrir útveginn og þjóðina alla í heild. Þó að hæstv. forsrh. hafi látið í það skína. að þeir gætu og mundu róa, sem vildu, þó að ekki væri búið að samþykkja lögin, þá veit hann það þó vel, að svo er ekki, heldur eru samtök um það að byrja ekki fyrr, en þetta frv. hefur verið samþykkt.

Hæstv. forsrh. sagði það, að ríkisstj. vildi ekki fara uppbótaleiðina, heldur mundi hún boða nýja leið. En ég verð að segja það, að mér finnst það mjög einkennilegt, þegar ekkert bólar á þeirri nýju leið enn sem komið er, og skil ég því ekkert í því, hvað hæstv. forsrh. meinar eiginlega, því að ég get ekki betur séð en að hann vilji einmitt uppbótaleiðina, ef marka má af þessu frv. Það var eitt í þessu sambandi, sem ég gleymdi í dag, og það er, að þegar ríkisstj., sem er óþreytandi að tala um þessa nýju leið, og hæstv. forsrh. segir, að það sé ekki alveg búið að ganga frá till. endanlega, en verið sé í óða önn að ganga frá og útfæra einstök atriði, en það hlýtur þá að vera svo langt á leið komið, að ljóst sé í höfuðdráttum, hver leiðin muni vera, og væri þá mjög æskilegt, ef hæstv. ríkisstj. skýrði þinginu frá henni í höfuðdráttum. Gæti það haft geysimikla þýðingu fyrir málið, ekki sízt þar sem hér er verið að samþykkja fyrir fram varaleið, ef hin skyldi bregðast, en við vitum ekki enn þá, hver aðalleiðin kann að vera. Vildi ég mjög eindregið skora á ríkisstj. að skýra okkur frá því, hver þessi leið í raun og veru er, sem hún þreytist aldrei á að boða, því að það virðist hún svo sannarlega ekki gera. Það er þó ekki hægt að kalla þetta boðskap hjá ríkisstj., því að allt í þeim boðskap er hulið. Þetta vildi ég taka fram sérstaklega, að ríkisstj. gæfi einhverjar upplýsingar um, hver þessi nýja leið hennar er.

Þá vildi ég minnast í örfáum orðum á það, sem hæstv. forsrh. og hæstv. atvmrh. sögðu um svo nefndan hrognagjaldeyri eða gotupeninga. Forsrh. sagði, að það væri ekki rétt að fara að vekja neinar deilur um hrognapeningana, og er það fjarri mér að ætla að fara að gera það, eins og ég líka tók fram í dag. En til þess að fá mynd af þessu eins og það á að vera, þá vildi ég gjarnan fá það upplýst, hvernig ríkisstj. hyggst haga sér í þessum málum, hvort hún ætlar sér að draga úr þessum gjaldeyri eða bæta við hann eða halda áfram eftir sömu reglum og settar voru í tíð fyrrv. ríkisstj. Enn fremur vil ég geta þess, að þótt ég hafi ef til vill átt nokkurn þátt í, að þetta komst á, þá benti ég á það, að vafasamt væri, hvort heimildir fyrrv. ríkisstj. til þessara ráðstafana væru í lögum. Hæstv. fjmrh. vísaði þá í gjaldeyrislöggjöfina í því sambandi, en það verður þó að teljast mjög hæpið, því að ef sá skilningur er réttur, þá mætti taka á þann hátt óendanlega marga vöruflokka og setja svo ofan á þá skatt til útflytjendanna, en það mun alls ekki hafa vakað fyrir þeim, sem gjaldeyrislögin settu. Hæstv. fjmrh. þátti einkennilegt, að ég skyldi benda á þetta, þar sem ég átti þátt í því, að þessi háttur var upp tekinn, og hélt, að ég vildi nú nema hann úr gildi. En ég er ekki að gera neinar kröfur um, að þetta verði fellt úr gildi í þessu frv., heldur tel ég, að heimildin sé svo hæpin, að ríkisstj. eigi að lýsa því yfir, ef hún ætlaði sér að gera eitthvað frekar í málinu, að hún muni ekki gera neitt nema með ráði og vilja þingsins, því að þegar hrognapeningarnir voru teknir upp, þá var það gert með ráði þingsins, og ég held líka, að það sama hafi verið, þegar við var bætt nokkrum vörutegundum síðar, þá var það allt opinbert. Ég held, að hæstv. ríkisstj. ætti að halda því áfram að gera þess konar ráðstafanir með ráði þingsins og vitneskju og lýsa því yfir, hvernig fyrirkomulag hún hugsi sér, og ekki hvað sízt þegar hæstv. forsrh. hefur gefið það í skyn, að kannske ætti að bæta fleiri vörutegundum við, þó að hann vissi hins vegar ekki, hvaða vörutegundir það ættu að vera. En ég vænti þess, að hæstv. ríkisstj. sjái, að það er algerlega ómögulegt fyrir Alþingi að samþykkja þetta frv. án þess að fá upplýsingar varðandi þetta. Og ef ríkisstj. vill ekki samvinnu við Alþingi, þá verður þingið sjálft að setja ákvæði um þetta í löggjöfina. Um það, hvort rétt er að útgerðin fari þessa braut, lengra eða skemmra, eða einhverja aðra, það er mál, sem þarf að athuga vel og kryfja til mergjar.

Þá vil ég endurtaka það, sem ég sagði áður í dag, og vona, að hæstv. atvmrh. athugi og skýri frá því, svo að þetta verði gert ljósara fyrir okkur og raunar öllum almenningi, svo að við getum verið á því hreina með, hvaða vörur það séu, sem undir þessi ákvæði eiga að falla, svo að maður heyri ekki alltaf sama tóninn hjá fólki um okurverð á þessum vörum og öðrum, sem það álítur eiga þar undir. Ég vænti þess, að hæstv. atvmrh. komi inn á þetta í ræðu sinni á eftir.

Þá vil ég minnast nokkrum orðum á tekjuöflunaraðferðir þær, sem gert er ráð fyrir í frv. Ég sagði, að hér væri um 60–80 millj. kr. aukningu pr. anno að ræða, miðað við sama innflutning og s.l. ár, en gerði svo ráð fyrir, að innflutningurinn þyrfti að færast niður, en þetta yrði að minnsta kosti 80 millj., ef hann stæði í stað. En nú hefur hæstv. fjmrh. upplýst það, að ég hafi alls ekki tekið of djúpt í árinni, því að eins og söluskatturinn er nú ákveðinn, þá er óhugsandi, að þetta komist niður í 60 millj. Eins og vitað er, þá getur innflutningurinn ekki farið niður í 300 millj., þegar innflutningur fyrir Marshallfé er talinn með, en miðað við það lágmark, þá væri söluskatturinn samt miklu meira en 60 millj., ef söluskatturinn er 5-faldaður. En nú er ekki meiningin að 5-falda allan söluskatt, en það breytir þá málinu þannig, að ef miðað er við 300 millj. kr. innflutning og þar af er skattskylt 245 millj., þá verður skattaaukningin samt 60 millj. kr. miðað við þennan lægsta hugsanlega innflutning. Það er því augljóst, að viðbótartekjur verða þarna að minnsta kosti 60 millj., en sennilega eitthvað á milli 60 og 80 millj., en til þess að þær yrðu 60 millj. kr., þá þyrfti að lækka innflutninginn um 100 millj. kr. frá því, sem hann er í ár. Ég er hissa á því, að hæstv. ríkisstj. skyldi ekki strax hafa gert grein fyrir þessu, en sennilega stafar þetta af því, að hún hefur viljað reikna þetta varlega, og eins vegna villu, sem hefur slæðzt í frv., en hér hlýtur þó að vera um 60–80 millj. álögur að ræða, þrátt fyrir það að sú villa sé leiðrétt. En sem sagt, það hlýtur að vera augljóst, að ég hef tekið of varlega í árinni í dag, því að sú tala var í raun og veru of lág, eins og nú er komið fram.

Þetta var það, sem ég vildi taka fram fyrst og fremst, en ég vil einnig í þessu sambandi leyfa mér að minnast á fyrirspurn, sem ég bar fram í dag og hv. þm. Hafnf. (EmJ) einnig tók undir, hvernig þessi útgjaldahlið í þessu máli er hugsuð, en skal að öðru leyti ekki fara út í það nánar núna, enda tel ég, að það hafi komið nægilega skýrt fram í dag, bæði hjá hv. þm. Hafnf. og mér.