08.05.1950
Neðri deild: 97. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í C-deild Alþingistíðinda. (2744)

37. mál, sveitarstjórar

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ed. hefur gert miklar breyt. á þessu frv. frá því, að frá því var gengið hér í Nd., og breyt. hv. Ed. eru svo gagngerar, að telja má, að með samþykkt frv. nú hefði málið litla þýðingu. Hv. Ed. hefur fellt úr frv. heimildina til að fela sveitarstjóra framkvæmd hreppsmála, en tilgangur frv. í upphafi var sá, að heimila hreppsn. í hreppum, sem hefðu fleiri en 500 íbúa, að fela sérstökum sveitarstjóra stjórn og framkvæmd hreppsmála. Gert var ráð fyrir því, að sá maður ætti ekki sæti í hreppsnefnd og væri ekki stjórnmálamaður, en væri fyrst og fremst framkvæmdastjóri hreppsins. Í heilbr.- og félmn. þessarar hv. d. var fullt samkomulag um þetta mál. Nokkrar mótbárur komu fram gegn ýmsum minni háttar atriðum í hv. d., en fullt samkomulag náðist við þá menn, svo að telja má að nær enginn ágreiningur hafi verið um málið í Nd. Nú hefur hv. Ed. breytt frv. svo, að litlu máli skiptir, hvort það næði samþykki í því formi eða ekki. Heilbr.- og félmn. hefur lagt til, að frv. verði aftur breytt í sitt upphaflega form eins og það var, þegar það fór til Ed., og eru þær brtt. prentaðar á þskj. 579. Þá er frv. komið aftur í þann búning, sem það var hér í við 3. umr. Ég sé ekki ástæðu til að rekja þær brtt., því að þær hafa verið ræddar við 2. og 3. umr. málsins.