07.12.1949
Neðri deild: 8. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í C-deild Alþingistíðinda. (2752)

47. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Atvmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er um breyt. á l. um dýrtíðarráðstafanir, nr. 100 frá árinu 1948, að öðru leyti en því, að með 4. gr. er lagt til að breyta vaxtaákvæðum í 11. gr. l. nr. 41 frá 29. apríl 1946, um stofnlánadeild sjávarútvegsins. Eins og vænta mátti eftir aflabrestinn á síldveiðum s. l. sumar, verður ekki hjá því komizt að létta frekar undir með síldveiðibátum, en enn er heimild til í l., og er það aðalorsök þess, að af stað var farið með þetta mál. Annars væri hætt við, að skilanefnd sú, er skipuð var sumarið 1948, samkv. l. um aðstoð handa síldarútvegsmönnum, ætti erfitt með að framkvæma verk sitt og verða bátunum til hjálpar í þessum efnum. Út af hugleiðingum og bollaleggingum um þessi mál í sjútv-mrn. var leitað álits skilan., sem ég gat um áðan, og hefur hún skilað svari sínu til rn., og er það birt í grg. með frv. Ég vil með leyfi hæstv. forseta lesa svar þetta, því að það lýsir tilgangi rn. með þessu frv., betur en nokkuð annað. Í bréfi skilan. frá 22. nóv. s. l. segir svo: .

„Eftir því, sem nefndin hefur komizt næst við athugun á högum þeirra útgerðarmanna og fyrirtækja, er þegar hafa sótt um aðstoð samkv. l. 100 1948, virðist henni, að aðstoð sú og eftirgjöf lána, sem nefnd lög ætlast til að veitt verði, mundi tæpast koma að tilætluðum notum, verði nefndum mönnum og fyrirtækjum ekki jafnframt séð fyrir einhverri aðstoð við greiðslu áfallinna afborgana af lánum Stofnlánadeildar sjávarútvegsins og Fiskveiðasjóðs Íslands, sem á bátum þeirra hvíla. Þar sem slík frestun á afborgunum, sem ræðir um í nefndu bréfi ráðuneytisins, ætti að geta farið fram án þess að tryggingin fyrir lánunum væri skert, að minnsta kosti að nokkru verulegu leyti, virðist skilanefndinni, að sú leið geti verið haganleg og komið að miklum notum, enda verði leitað samþykkis þeirra, er veð kynnu að eiga í skipunum á eftir nefndum lánum. Samanlögð upphæð áfallinna ógreiddra afborgana af lánum stofnlánasjóðs árin 1948 og 1949 eru, eftir því sem næst verður komizt, 3.906.900 kr. Áfallnar ógreiddar afborganir til Fiskveiðasjóðs Íslands munu nema sem næst 2 millj. kr.“ — Þá þykja n. dráttarvextir af ofangreindum lánum of háir samkv. l. og víkur að því í bréfi sínu, að það mundi auðvelda starf n., ef rýmkuð væru þau skilyrði, sem sett eru í 14. gr. l. nr. 100 frá 1948, en þau hljóða svo, með leyfi hæstv. forseta: „Skilyrði fyrir uppgjöf krafna og skulda samkv. 13. gr. eru þessi:

1. Að útgerðarmaður sæki um aðstoð og sé að dómi skilanefndar, sem getur í 5. gr. laga nr. 85 15. des. 1948, vel hæfur til að reka útgerð.

2. Að útgerðarmaður hafi látið skilanefnd í té fullkomna greinargerð, undirritaða að viðlögðum drengskap, um fjárhag sinn og maka síns, svo og veiti henni færi á að láta kunnáttumenn meta eignir sínar.

3. Að skilanefnd telji útgerðarmanni ekki kleift að standa við skuldbindingar sínar eða reka útgerð á heilbrigðum grundvelli án aðstoðar.

4. Að útgerðarmaður nái viðunandi samningum við lánardrottna sína, að dómi skilanefndar, á öðrum skuldum sínum, til þess að útgerð hans verði rekin framvegis á fjárhagslega hryggum grundvelli.“

Það er þetta, sem skilan. á víst við, er hún talar um, að rýmkun á þessum skilyrðum sé æskileg. T. d. segir n., að erfitt sé að gera sér rökstudda grein fyrir því, hverjir séu hæfir til að reka eða standa fyrir útgerð. Hitt telur n. eðlilegt, að því skilyrði sé haldið, að viðkomandi sýni n. fram á, að hann hafi möguleika til að halda rekstri útgerðarinnar áfram. — Út af þessu er svo þetta frv. komið fram. Samkv. 1. gr. er gert ráð fyrir, að útgerðarmönnum og útgerðarfyrirtækjum, er síldveiðar hafa stundað fyrir Norðurlandi á árinu 1948 eð.a 1949, skuli veittur greiðslufrestur á afborgunum af lánum til skipakaupa úr stofnlánadeild sjávarútvegsins og Fiskveiðasjóði Íslands, er féllu í gjalddaga á þessum árum, þannig, að lánstíminn lengist um tvö ár. Útgerðarmenn skulu sanna, að síðari veðlán falli ekki í gjalddaga af þessum sökum. Og 2. gr.: „Ráðherra er heimilt samkvæmt meðmælum skilanefndar að veita útgerðarmönnum og útgerðarfyrirtækjum, sem stundað hafa síldveiðar á tímabilinu 1945–1949, þó að þeir sæki ekki um aðstoð samkvæmt II. kafla laga nr. 100/1948, eftirgjöf að nokkru eða öllu leyti á kröfum og lánum þeim, er um ræðir í 1. til 3. tölul. 13. gr. laga nr. 100/1948, enda sanni þeir fyrir skilanefnd, að þeir geti rekið útgerð sína áfram.“

Það er sem sé að margra dómi, og skilanefndarinnar líka, rétt, að einhver heimild sé til að veita þeim mönnum aðstoð, sem ekki hafa sótt um aðstoð samkv. II. kafla l. nr. 100 1948. Það getur verið, að þessir menn vilji ekki skuldaskil og óski heldur eftir að leggja hart að sér til að halda velli, og er því rétt, að veita þessum mönnum svipaða. fyrirgreiðslu og þeim, sem sótt hafa um aðstoð samkv. fyrrgreindum l. Lög nr. 100/1948 takmarka sig við þrenns konar eftirgjafir samkv. 13. gr., en hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkisstjórninni er heimilt að kveða svo á, að útgerðarmönnum og útgerðarfyrirtækjum, er síldveiðar stunduðu á tímabilinu 1945 til 1948, verði veitt að nokkru eða öllu:

1. Uppgjöf á innkeyptum sjóveðskröfum og öðrum lögveðskröfum samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85 15. des. 1948.

2. Uppgjöf á lánum samkvæmt 2. mgr. 2. gr. sömu laga, og

3. Uppgjöf á lánum, sem þeim voru veitt úr ríkissjóði vegna aflabrests á sumarsíldveiðum 1945 og 1947.“

Á þetta hefur hið háa Alþ. fallizt á sínum tíma og er það nú í lögum. Síðan þessi l. voru sett, og raunar að nokkru leyti fyrr, hafði hæstv. fyrrv. ríkisstj., til þess að örva menn til að halda út síldveiðitímann í stað þess að gefast upp, talið nauðsynlegt að ábyrgjast nokkra upphæð fyrir útvegsmenn, til að þeir gætu greitt sjómönnum nauðsynlegt og áfallið kaup. Þetta þótti nauðsynlegt, því að öðrum kosti hefði ekki verið hægt að halda mönnum á skipunum, og því gerði ríkisstj. þetta í bæði skiptin. Nokkur árangur hefur orðið af þessu í auknu aflamagni, sérstaklega s. l. sumar.

Nú er í þessu frv. í 3. gr. heimild fyrir ríkisstj. að taka að sér að nokkru eða öllu leyti þessi bráðabirgðalán, sem tekin voru hjá Landsbankanum og Útvegsbankanum með ábyrgð ríkissjóðs á vertíðunum 1948 og 1949. Skilyrði fyrir eftirgjöf eru þau sömu og í 2. gr., sem sé meðmæli skilanefndar og að undangenginni athugun hennar á hag viðkomandi útgerðarmanns. Með þessu er ekki stefnt að því, að þetta nái til allra útgerðarmanna, heldur aðeins þeirra, sem ekki gætu staðið undir þessu að öðrum kosti, en hafa skilyrði til að halda áfram útgerð. Það er því í frv. fyrst og fremst stefnt að því að veita 2 ára gjaldfrest á afborgunum í stofnlánadeildina og til Fiskveiðasjóðs Íslands, í öðru lagi að rýmka skilyrði, sem sett voru fyrir veitingu aðstoðar samkv. l. nr. 100/1948, í þriðja lagi að heimila ríkisstj. að taka að sér þessi bráðabirgðalán, sem ríkið gekk í ábyrgð fyrir vegna framhaldandi síldveiða sumrin 1948 og 1949, og loks í fjórða lagi að lækka dráttarvexti við stofnlánadeildina niður í ½%.

Ég vil svo bæta þeirri ósk við, að vegna þess, að nú situr skilanefndin að störfum og nauðsynlegt er, að hún geti hraðað störfum sínum sem mest, en getur ekki tekið fullnaðarákvarðanir í þessu fyrr en séð verður, hvernig þessari málaleitan verði tekið hér, að nauðsynlegt er fyrir alla aðila og sérstaklega fyrir bátaútvegsmenn, að mál þetta fái hraða og góða fyrirgreiðslu hér í þinginu, og vil ég beina þeirri ósk til þeirrar hv. n., sem um þetta mál fjallar, að hún taki tillit til þess, að störf skilan. standa föst, unz útséð verður um afgreiðslu þessa máls. Ég tel æskilegast, að hv. sjútvn. hefði fjallað um þetta mál, en ég held, að þau mál, sem fjalla um dýrtíðarráðstafanir, hafi jafnan verið í hv. fjhn., og ef svo er, vil ég ekki brjóta út af þeirri venju og tel, að málinu sé vel borgið í hendi hennar. Ég vil svo leggja til, að málinu verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. fjhn., og endurtaka ósk mína um góða og hraða afgreiðslu.