07.12.1949
Neðri deild: 8. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í C-deild Alþingistíðinda. (2753)

47. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að benda á tvennt í sambandi við þetta mál. Annað er efnisatriði, en hitt er formsatriði. Í frv. er gert ráð fyrir að lengja lánstímann um 2 ár til þeirra, sem síldveiðar hafa stundað. En nú óttast ég, að ýmsir útvegsmenn, sem ekki hafa stundað síldveiðar, hafi átt erfitt með að greiða afborganir af stofnlánum sínum, og gæti nú orðið skothent, ef þessi frestur verður veittur síldarútvegsmönnum, að ganga að öðrum útgerðarmönnum vegna vangreiddra afborgana. Nú vil ég beina því til n., hvort ekki sé rétt að hafa þetta víðtækara, svo að ekki sé gengið misjafnlega að mönnum í þessu efni. Ég hef ekki neina ákveðna till. í þessu efni, enda er þetta aðeins 1. umr. um málið, en vil benda hæstv. ráðh. og hv. n. á það, að nauðsyn er að skoða þetta vandamál niður í kjölinn, áður en málið fer lengra.

Hitt atriðið er það, að í 3. gr. er farið fram á heimild til að gefa eftir bráðabirgðalán þau, sem Landsbankinn og Útvegsbankinn veittu með ábyrgð ríkissjóðs árin 1948 og 1949. Eins og hæstv. ráðh. gat um, voru nokkur slík lán veitt á ábyrgð ríkissjóðs, en til þess skorti lagaheimild, en ríkisstj. var því öll sammála að veita þessi lán. En nú finnst mér formlegra að setja lagaheimild um þetta inn í þetta frv. — Það var aðallega þetta tvennt, sem ég vildi benda hér á, og þó einkum það fyrra, sem þarf sérstaklega að taka til athugunar.