07.12.1949
Neðri deild: 8. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í C-deild Alþingistíðinda. (2755)

47. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að ræða einstaka liði þessa frv. En þegar rætt er um dráttarvexti, þá er það svo um þau útgerðarfyrirtæki, sem hafa borgað afborganir, en borgað hafa mikla dráttarvexti, að það væri sanngjarnt að endurborga þá, svo að þau væru ekki verr sett en hin, sem, ekki hafa verið látin borga þá. Enn fremur er fleira í frv., sem horfir til bóta.

En það var aðallega það, sem ég ætlaði að færa hér í tal, sem kom fram hjá hv. þm. Borgf. (PO), þ. e. sjóveðin, sem hvíla á skipunum. Það er ákaflega hættulegt fyrir bæði sjómennina og fleiri að láta þessi sjóveð standa svona lengi. Ýmsir, sem á sjó hafa verið, vilja ekki fara á sjó upp á þau býti að búa við það, sem þeir hafa orðið að gera nú, þar sem þeir hafa ekki fengið upp gert fyrir marga mánuði. Ýmsir sjómenn hafa ekki verið á sjó síðan um nýár síðast. Þeir hafa ekkert fengið greitt síðan, og það er farið svo fyrir þeim, að þeir blátt áfram hræðast sjóinn af þeim ástæðum. Þó eru þeir ágætir sjómenn. Þeir segja, að þeir geti ekki verið sjómenn upp á það, að það líði sex til sjö mánuðir, þangað til þeir fái greitt fyrir sína vinnu. Þessir menn hafa sjóveð fyrir sínum kröfum, en það tekur marga mánuði að taka dóm, birta dóm, gera fjárnám og síðan auglýsa uppboð með sex til átta vikna fresti. Þá eru liðnir margir mánuðir síðan krafan var gjaldfallin, og þá var kominn aukakostnaður á þá kröfu, sem hækkar greiðslurnar um allt að 20%. Og þetta endar með því hjá yfirgnæfandi meiri hluta skipa, sem eru það góð eign, að menn vilja ekki sleppa þeim fyrir sjóveðin, að ef eigendur geta ekki leyst út sjóveðskröfurnar, þá koma bankarnir. En þegar þeir leysa þær út, þá eru þær orðnar allt að 20% hærri, en ef þær hefðu verið leystar út strax, og sjómenn hafa þá líka fengið mörgum mánuðum seinna kauptryggingu sína. Og þeir eru ekki of sælir af því kaupi, sem tryggingin veitir, milli 1.800 og 1.900 kr. á mánuði, til lífsviðurværis.

Ég vil því gera fyrirspurn til hæstv. atvmrh. um það, hvort ekki sé tiltækilegast, að lánsstofnanir leysi til sín sjóveðin, alveg burtséð frá því, hvort skuldaskil fara fram á útgerð bátanna, til þess að leysa sjómenn úr þessum vanda og koma í veg fyrir, að þeir, vegna dráttar á greiðslum kauptryggingar til þeirra, hætti sjómennsku, og þá geri þetta, leysi inn sjóveðin sem allra fyrst. Í fyrra var þetta gert upp úr áramótunum. Nefnd var sett á laggir í janúarmánuði. Hún starfaði sérstaklega rösklega. Ég býst við, að fá dæmi séu til þess, að opinber nefnd hafi starfað jafnrösklega, þannig að það gekk mjög fljótt að ganga frá þeim lánum, sem veitt voru þá til útgerðarinnar. En ég vil beina því til hæstv. atvmrh., að þannig lagaðar bráðabirgðaráðstafanir verði gerðar, að þessar sjóveðskröfur verði leystar út, áður en endanlega verða teknar ákvarðanir um það, hver aðferð verður höfð um þessi mál í framtíðinni.