07.12.1949
Neðri deild: 8. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í C-deild Alþingistíðinda. (2757)

47. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Atvmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Út af aths., sem komið hafa hér fram, vildi ég segja í fyrsta lagi út af aths. hv. 1. þm. S-M. (EystJ), að ég er honum samdóma um, að vel gæti komið til álita að hafa 1. gr. frv. eitthvað víðtækari. En frv., eins og það liggur fyrir, er nú samið í fullu samræmi við löggjöf um dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna, sem það er bæði viðauki við og breyt. á, og í allri þeirri löggjöf er sérstaklega miðað við, hvað aðstoðina snertir, síldveiðimennina, vegna þeirra sérstöku óhappa, sem þeir hafa orðið fyrir. Hitt er svo til athugunar hjá hv. n., hvort fært væri að láta þessi ákvæði ná lengra, og er ég alveg samdóma hv. þm. um það, að vandræði geta verið hjá einstökum bátum tilfinnanleg, þó að þeir hafi ekki verið á síldveiðum, þó að þar sé ekki um eins samfelldan hóp að ræða, sem óheppnin hafi sett í kreppu. Það er sjálfsagt líka rétt athugað hjá hv. þm., að lagaheimild fyrir þessari aðstoð, sem ríkisstj. hefur í tvö sumur beitt sér fyrir, að veitt yrði, mun ekki vera til og er það réttmæt ábending, að það sé tekið til athugunar, þegar málið verður athugað í hv. n. Það mætti sjálfsagt koma fyrir í því þeirri heimild, til þess að gera þær aðgerðir að fullu löglegar, sem ég veit, að hv. þm. eru sammála um, að fyrrv. stjórn hafi gert rétt í að framkvæma.

Hv. þm. Borgf. (PO) spurði, hvort ég liti svo á, að 2. gr. frv. fæli í sér heimild til þess að leysa inn sjóveðin nú. Ég verð að svara því neitandi, að hún gerir það ekki. Hann og hv. þm. Siglf. hafa undirstrikað nauðsynina á því, að eins eða hliðstæðar aðgerðir færu fram viðkomandi sjóveðunum nú og fram fóru 1945, 1947 og 1948. Á þetta mál var drepið fyrir skömmu af hv. þm. Ísaf. (FJ) hér í hv. þd., og gerði hann fyrirspurn út af þessu atriði, sem ég þá svaraði þannig, að það hefðu engin tilmæli borizt rn. um þess háttar aðgerðir, þ. e. sams konar aðgerðir á þessu hausti og í fyrra, ekki á neinn formlegan hátt, og lægju því í raun og veru ekki fyrir. Litlu síðar las ég það í einu dagblaðanna hér í sambandi við fundarskýrslu, og framkvæmdastjóri Landssambands íslenzkra útgerðarmanna borinn fyrir því, að hann hefði ítrekað farið þess á leit við sjávarútvegsmálarn., að þetta yrði gert. Ég kannaðist ekki við það og hringdi til hans og spurði, á hvaða hátt eða eftir hvaða leið eða í hvaða formi þessi tilmæli hefðu verið fram borin, því að mig ræki ekki minni til þess.

Sagði hann þá, að þetta væri rangt eftir sér haft, og kannaðist við, að hann hefði ekki komið með neitt slíkt í rn. Ég skýt þessu hér inn í til skýringar. En fyrir mér stóð málið þannig í haust, að ég lagði þannig út þá þögn, sem yfir því hvíldi, að það væru ekki nema þá mjög lítil brögð að því, að sjóveðskuldir hefðu safnazt á sama hátt og gerðist á þeim árum, er kreppuráðstafanirnar hafa verið gerðar. Ein af ástæðunum fyrir því, að ég leit svo á, var sú; að ekkert lá fyrir um þetta efni frá neinum aðila, og önnur sú, að þar, sem ég þekkti bezt til, vissi ég til, að sjóveðskuldir höfðu ekki safnazt. Svo kann að vera, að einhverjir séu með sjóveðskröfur, sem er ólokið, en það er á það að minnast, að í þau skipti, sem aðstoð hefur verið veitt í þessum efnum, þá hefur ekki verið fyrir hendi sú löggjöf, sem nú er fyrir hendi um dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna, sem í II. kafla hefur ákvæði um aðstoð til síldarútvegsmanna, og það er einmitt sú aðstoð, sem hér er verið að reyna að víkka út með þessu frv. og gera öflugri. Ég skal játa, að það væri náttúrlega mjög þægilegt, ef maður væri þannig í stakk búinn að geta eftir hverja vertíð leyst inn frá því opinbera þessi sjóveð, sem safnast fyrir, vangreitt kaup. En ég ætla nú, samt sem áður, að hv. þm. muni nú líka dálítið skilja það, að ríkið má ekki vera í kapphlaupi við aðra aðila í því að leysa slíkar kröfur. Það er dálítil hætta í því fólgin, ef það verður að vana, að það þyki sjálfsagt, að ef einhver hluti bátanna getur ekki borgað kaup, þá sé það greitt úr ríkissjóði. Það væri mjög æskilegt að geta það. En hversu holl regla það væri, skal ég láta ósagt: Til dæmis á síðasta ári var vel úr þessu greitt og málið vel fyrir stjórnina lagt af aðilum, sem þá álitu vera mjög bágborið ástand, sem og var, hjá síldarútvegsmönnum. Og þá var tekinn upp sá háttur að fara ekki sömu braut og farin var 1945 og 1947, að fá lán til þess að leysa sjóveðin, heldur beinlínis veitt fé úr ríkissjóði til þess, því að 6 millj. kr. voru teknar upp á fjárl. fyrir árið 1949, sem ég lagði til, að beinlínis yrðu af hendi leystar til greiðslna í þessu skyni, að undangenginni rannsókn, sem þá fór fram, og gerði ég það til þess að reyna að hætta skuldasöfnun ríkissjóðs í þessu skyni. Þetta fór nú skaplega. Áætlunin reyndist að vísu heldur lág, og vegna þessa þurfti síðar að bæta við hálfri millj. kr., svo að 6½ millj. kr. gjöld voru sett í fjárl. í þessu skyni. Ef eitthvað svipað ætti nú að gera, væru tvær leiðir fyrir hendi, að taka lán, og sjálfsagt í bili í öllu falli, og líka væri sú leið fyrir hendi að taka upp fjárhæð í fjárl. í þessu skyni, sem ég af skiljanlegum ástæðum veit ekki á þessari stundu, hve þarf að vera mikil. Ég skal á hinn bóginn engan veginn taka fyrir það, að að einhverju leyti kynni að vera þörf á einhverjum aðgerðum í þessum efnum, en ég ætla að það sé ósannað, hve mikil eða víðtæk sú þörf er, og ég hef tilhneigingu til þess að ætla, að hún muni engan veginn vera eins mikil að vöxtum nú og hún var s. l. ár, en þá var fjárhæðin til þess að leysa þessi sjóveð um 6 millj. Ég tel, að um þetta megi ræða og athuga það, en sem sagt, menn verða að gera sér það ljóst, að það að fara út í slíka innlausn á sjóveði yrði ekki gert með öðru, en láni frá ríkinu. Það er náttúrlega satt, að menn verða leiðir á því, hvaða atvinnu sem þeir stunda, að fá ekki kaup sitt goldið, en ég held, að ef litið er á það, sem gerzt hefur 1947 og 1948 og raunverulega er verið að gera nú með framkvæmd skilanefndarl., þá verði ríkissjóði ekki borið á brýn, að hann hafi ekki í öll þessi skipti leitazt við að leysa þessi vandræði eftir föngum. En menn mega líka athuga, að það er ekki einasta þetta, sem þarf að reiða af hendi fyrir útgerðina af ríkisins hálfu, heldur sennilega öll þessi kreppulán líka og í viðbót þau bráðabirgðalán, sem ég minntist á, fyrir utan það fé, sem lagt er fram til styrktar útveginum beinlínis í fjárl. og líka sem uppbætur á útflutningsvörur. Þegar litið er á það, hvað þarfirnar eru margar og knýjandi, þá er það náttúrlega sjálfsögð skylda allra, sem um þetta mál fjalla, að auka ekki að óþörfu kröfur á ríkið í þessum efnum, en hins vegar er þeim jafnskylt að leita eftir leiðum til þess að leysa það, sem brýn nauðsyn krefur, að leyst sé, og þá líka sjóveðin, en einvörðungu að undangenginni mjög mikilli athugun. Þetta getur komið til umræðu meðal þeirra aðila og í þeirri hv. n., sem um þetta fjallar, en menn mega ekki horfa fram hjá því, að allar kröfur, sem samþykktar eru í þessum efnum, kosta fjárframlög af hálfu þess opinbera.

Viðvíkjandi því, til hvaða n. mál þetta eigi að fara, virðist mér það ekki skipta miklu máli, og ætti það ekki að þurfa að skaða þetta mál neitt, þó að það væri látið ganga til fjhn., vegna þess að í því eru svo mörg atriði, sem vissulega eru fjárhagsatriði og þau stór. Virðist mér því rétt að halda sig við þá till., sem ég gerði í öndverðu, og sé ekki ástæðu til annars en fylgja þeirri venju, sem verið hefur varðandi sams konar löggjöf, sem gengið hefur í gegnum þingið, og verði þessu frv. vísað til fjhn. Hins vegar getur svo auðvitað hv. d. haft sinn hátt á því, ef henni sýnist annað og aðrir vilja gera till. um að beina málinu í aðra átt. Vil ég leyfa mér að láta í ljós það allt mitt, að ég ber jafnmikið traust til hv. fjhn. til þess að gera grein fyrir þessu máli eins og ég mundi bera til hv. sjútvn., og vona ég, að það verði ekki til trafala réttum framgangi málsins.