28.03.1950
Neðri deild: 76. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í C-deild Alþingistíðinda. (2768)

58. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Mér virtist sem hv. 2. þm. Reykv. (EOl) gæti hugsað sér að bera fram frekari brtt. um veitingu ríkisborgararéttar til erlendra manna. Er honum það að sjálfsögðu frjálst, svo framarlega sem þeir fullnægja ákvæðum l. um veitingu ríkisborgararéttar. Ég gat þess aðeins, að brtt. þær, er hér liggja fyrir, hefðu verið samþ. af allri n., og aðrir menn eru eigi bornir fram enn af hálfu hennar. Nú er 2. umr. málsins, og er því sjálfsagt að íhuga það nánar, ef eftir er að athuga einhver atriði. Ég er þess fullviss, að hv. form. allshn. muni vilja veita hv. 2. þm. Reykv. viðtal um þessi efni, og þá mundi hann hreyfa slíku í n. milli umr. Finnst mér því ekki þurfa að fresta þessari umr., þar eð 3. umr. er eftir.

Hv. þm. gerði eina brtt. n. að umtalsefni, þá að veita dr. Max Keil íslenzkan ríkisborgararétt. Mér skildist á ummælum hv. þm. eins og hann telji, að þessi maður muni hafa verið nazisti á sinni tíð. Um það get ég eigi borið. Ég ætla þó, að framkoma dr. Max Keil hér á landi hafi eigi borið vitni um það í kynnum fólks af honum, né heldur hafi þess gætt í starfi hans. Þessi maður kom hingað til lands árið 1930 og stundaði kennslu við Háskóla Íslands og fleiri opinbera skóla. Hefur hann getið sér hér hið bezta orð fyrir prúðmannlega framkomu og góða kennslu. Annað veit ég ekki. Hann dvaldist hér á landi til ársins 1940, þegar Bretar komu og tóku hann sem aðra þá, sem voru af þýzku bergi brotinn, en þá fóru þeir með hann af landi burt. Hann var því búinn að dveljast hér um tíu ára bil. Hann var kvæntur íslenzkri konu, og eiga þau hér börn saman, en þau hafa sem börn íslenzkra ríkisborgara gengið hér í skóla. Árið 1948 kom dr. Max Keil aftur hingað til lands, þegar honum var það leyfilegt, og síðan hefur hann dvalizt hér. Hér votta tveir velþekktir borgarar þessa bæjar um framkomu dr. Max Keil hér á landi, þeir dr. Alexander Jóhannesson og Eiríkur Ormsson. Gefa þeir honum góðan vitnisburð. Enn fremur votta þeir, að hann skilji og skrifi íslenzka tungu og víst mjög vel. Þá fylgja hér vottorð frá tveimur mönnum um það, að dr. Max Keil hafi starfað hér í tveimur skólum. Að öðru leyti eru hér öll þau vottorð, sem hentug eru til að öðlast ríkisborgararétt, nema hegningarvottorð vantar frá Þýzkalandi, eins og er hjá öðrum, sem sækja nú um íslenzkan ríkisborgararétt. Ég ætla, að þar eð ekki liggur fyrir, svo að ég viti til, og ég hygg, að ég megi segja það af hálfu n., annað en þessi skjöl, sem öll eru í bezta lagi varðandi umsækjandann, þá sé eigi auðvelt fyrir n. að gera till. um annað, en hún gerir. Ég hef eigi þekkt neinn þann, sem haft hefur nokkuð við framkomu þessa manns að athuga eða borið um, að hann hafi haldið pólitískum skoðunum sínum að mönnum hér á landi, og er hæpið frá því sjónarmiði að gera aths. við brtt. n. Ef um eitthvað slíkt er að ræða, þá er bæði mér og n. gersamlega ókunnugt um það, og vottorð þeirra sæmdarmanna, sem ég gat, ættu að vera trygging fyrir því, að framkoma þessa manns hafi verið góð á allan hátt. Ég hygg því, að eigi verði fundið að till. n. af þeim ástæðum, að hún hefði getað gert annað. Eins og málið liggur fyrir, þá nýtur dr. Max Kell einskis umfram aðra í því að njóta jafnréttis, og slík till. verður að vera byggð á þeim grunni.