28.03.1950
Neðri deild: 76. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í C-deild Alþingistíðinda. (2771)

58. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson) :

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég ætla, að ég hafi tekið fram í minni fyrstu ræðu, viðvíkjandi tímanum, sem menn þyrftu að hafa dvalið hér á landi áður en þeir fengju ríkisborgararétt, að sá tími væri 10 ár. Svo að það er ekki vafamál um slíkt, þ. e. a. s., að menn sem eru af erlendu þjóðerni, fæddir utanlands, þurfi að hafa átt hér heima í 10 ár til þess að geta fengið íslenzkan ríkisborgararétt. Og þessir menn, sem eru nefndir í brtt. allshn., eru búnir að uppfylla þetta skilyrði alveg, að heita má. Ég þori ekki að segja, hvort það kann að vera svo um einn eða tvo af þeim, að það vanti örfáa daga upp á, að þeir hafi dvalið hér á landi í 10 ár samfleytt, og eru það Þjóðverjar. En þetta stafar þá af því, að þeir voru teknir af Bretum og farið með þá til Englands á stríðsárunum, þannig að þeir hafi ekki alveg verið búnir að fylla 10 ára búsetutímann hér á landi, þegar þeir voru þannig, móti þeirra vilja, fluttir af landi burt. Nú hafa þeir dvalið hér síðan um tíma. Svo að þegar tekið er tillit til þess, að ekki skakkar meiru, en þessu um búsetutímann, sem er þeim líka, eins og ég tók fram, gersamlega ósjálfráður hlutur, og að öðru leyti er ekkert sérstakt við mennina að athuga, heldur eru öll þau skilríki, sem umsóknum um ríkisborgararétt eiga að fylgja, í bezta lagi þeim viðkomandi, þá ætla ég, að tæpast væri réttlátt að gera slíkt ákvæði svo einstrengingslega gildandi, ákvæðið um 10 ára búsetu í landinu samfleytt, að þeir væru upp á nýtt látnir bíða, þar til þeir hefðu dvalið 10 ár samfleytt í landinu, áður en þeir fengju íslenzkan ríkisborgararétt. Og ég hygg nærri því, að fyrir dómstóli mundi það vera talið fullgilt, ef í þessu tilfelli eða tilfellum, sem ég nefndi, væri haldið fram, að 10 ára búsetuskilyrðinu væri fullnægt, þar sem mönnunum, sem ég gat um, var það gersamlega óviðráðanlegt, að þeir urðu að fara úr landi áður en 10 ára dvölin fullnaðist hér á landi: Þar sem þeim var það ómáttugt að uppfylla þetta skilyrði og þeir voru móti þeirra vilja hindraðir frá því, þá hygg ég jafnvel, að í dómi myndi þeim ekki vera talið það áfátt að hafa ekki uppfyllt þetta skilyrði, þannig að þeir ættu að geta fengið ríkisborgararétt, ef allt annað væri í lagi, sem krafizt væri. Hvað þetta snertir, þá ætla ég því, að telja megi með sanngirni, að þessu skilyrði sé hjá þessum mönnum sem ég gat um, fullnægt. Og þess ber að gæta í þessu sambandi, að þessir menn eru hér kvæntir íslenzkum konum og eiga börn með þeim, og er sjáanlegt, að þeir koma til með að dvelja í þessu landi áfram. Mér dettur ekki í hug, að það komi fram af hálfu stjórnarvaldanna íslenzku neitt um að reka þá burt, þannig að þeir fái t. d. ekki landsvistarleyfi. Það dettur mér ekki í hug, að neinum detti í hug að leggja til. Og þá get ég ekki séð, að neinar ástæður séu gegn því að veita þeim þessi réttindi. Og þegar tillit er tekið til þess, hvert ástand ríkir í heiminum, þá er það nú enn skiljanlegra, að þessum mönnum sé hugarhaldið að öðlast hér þessi réttindi svo að þeir, hvað það snertir, geti verið óhultir í þessu landi áfram, þar sem þeir eiga hér konur og börn.

Viðvíkjandi því, sem hv. 2. þm. Reykv. (EOl) endurtók nú í sinni seinni ræðu, vil ég segja, að ég lét þess getið strax, að um þessa brtt., sem hér liggur fyrir, var samkomulag innan allrar n., og annað hefur ekki verið borið hér fram. Hv. 2. þm. Reykv. vék hér að einni umsókn, þ. e. umsókn frá Heinz Friedlaender, og sagði, .að hann væri búinn að dvelja hér á landi í 15 ár, og það er alveg rétt. En um till. um ríkisborgararétt honum til handa var ekki samkomulag innan allrar n. Ég þekki ekki þann mann og skal ekki fjölyrða um hann. Hann hefur í lagi sín vottorð, svo að því leyti er ekkert til fyrirstöðu. Út af fyrir sig, ef maður veit ekki neitt nánar, þá er það ekki neitt, sem sérstaklega skiptir máli, þó að einhver hafi verið sviptur ríkisborgararétti í sínu eigin heimalandi. Það getur verið, að þannig sé ástatt um slíkt, að það sé alls ekki hægt að finna það manninum til foráttu. En út af fyrir sig, ef maður þekkir ekkert af manninum, þá er a. m. k. hæpið, hvort það eru meðmæli, ef maður veit ekkert meira.

Nú vil ég heita hv. 2. þm. Reykv. því, að af minni hálfu mun ég mjög gjarnan vilja, að þetta sé athugað nánar, sem hv. þm. var að tala um. Ég hef orðið þess var líka, að það hefur ekki komið hér umsókn fram, sem átti að vera komin til n. fyrir nokkru. Ef hún kemur fram, þá verður það mál að sjálfsögðu athugað fyrir 3. umr., og þá er hægt að taka till. til frekari athugunar, sem fyrir hendi hafa legið, þó að n. hafi ekki flutt brtt. út frá þeim. Ég vil því vænta þess, að hv. 2. þm. Reykv. hafi ekki á móti því, að málið gangi nú áfram til 3. umr. og þar með brtt. n., því að það má vissulega eins koma að brtt. við málið við 3. umr., þó að 2. umr. sé lokið. Ég hef ekkert umboð af hálfu n. hvorki til þess að óska, að umr. sé frestað um málið, né til að taka aftur brtt. til 3. umr. Ég vænti, að hv. 2. þm. Reykv. geti fallizt á þetta.