06.12.1949
Sameinað þing: 8. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1526 í B-deild Alþingistíðinda. (28)

Stjórnarskipti

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Um leið og þessi háttvirta ríkisstjórn hefur göngu sína, vil ég lýsa yfir því, að Framsóknarflokkurinn hvorki styður þessa ríkisstjórn né veitir henni hlutleysi, því að hann ber ekki traust til hennar.

Til þessa liggja augljós rök. Framsóknarflokkurinn hefur á undanförnum árum löngum átt í harðri baráttu við Sjálfstæðisflokkinn, vegna þess að hann hefur talið og telur störf hans og stefnu ranga og skaðlega fyrir þjóðina.

Framsóknarflokkurinn hefur stundum átt samstarf við Sjálfstfl., þegar þannig hefur verið ástatt í stjórnmálum, að málefnum hefur ekki virzt verða lengra þokað áleiðis með öðrum hætti.

Í síðasta stjórnarsamstarfi reyndist Sjálfstfl. svo andvígur flestum þeim umbótamálum, er Framsóknarflokkurinn taldi mestu máli skipta fyrir hag þjóðarinnar, að Framsóknarflokkurinn sá sig til neyddan að slíta samstarfinu og áfrýja málum til þjóðarinnar.

Eftir kosningarnar hefur Framsóknarflokkurinn reynt að ná samtökum um stjórnarmyndun, til þess að koma fram þeim málum, sem hann álítur aðkallandi, en meðal þeirra eru þau málefni, sem Framsóknarflokkurinn telur grundvallaratriði þess, að þjóðin sætti sig við þá fórn í bráð, sem af henni verður að krefjast til þess að koma fjármálalífi þjóðarinnar og framleiðslu á heilbrigðari grundvöll. — Hið aukna fylgi, sem þjóðin veitti Framsfl., er mikils virði, en það hrekkur ekki til þess, að hann geti komið málunum áleiðis án mikils stuðnings annars staðar frá.

Þær viðræður, sem hafa átt sér stað milli flokkanna, virðast sýna, að afstaða Sjálfstæðisflokksins sé hin sama og áður til þeirra mála, er Framsfl. taldi og telur einna mestu varða. Afleiðingarnar eru þessi hæstv. ríkisstjórn, sem nú er tekin við stjórn landsins, — en af framansögðu er ljóst, að það er ekki Framsfl., sem er líklegur til þess að geta átt nokkra samleið með henni um lausn málanna. Til þess að svo yrði þyrfti Sjálfstfl. að gerbreyta um stefnu frá því, sem verið hefur.

Forseti Íslands hefur með skipun þessarar minnihlutastjórnar tekið hér upp nýjan sið, sem að vísu tíðkast svipaður erlendis, þar sem er þingbundin konungs- eða forsetastjórn. Um það skal ekki rætt.

Á hitt skal minnt, að forsetinn tók það skýrt fram, að nú mætti myndun stjórnar fyrir engan mun dragast, vegna þeirrar hættu, sem þjóðinni stafaði af því, ef nokkur dráttur yrði á, að tekið væri á vandamálunum og þau þegar leyst. Til þess þurfti stjórnin að koma svo fljótt.

Það skal ekki í efa dregið, að þessi skoðun forsetans og varnaðarorð hafi verið réttmæt, — þvert á móti.

En sá flokkur, sem tók að sér stjórnarmyndun úr hendi forsetans, eftir að hann hafði mælt áðurnefnd varnaðarorð, hlýtur að hafa gert sér það ljóst, að stjórn hans varð að hafa tillögur til úrbóta á reiðum höndum og verður þegar að skýra Alþingi frá því í höfuðatriðum, hverjar þær séu — og hvernig hún ætli að leysa mál, sem ekki þola neina bið.

Ef til vill hefur og verið frá þessu atriði gengið milli forsetans og væntanlegs stjórnarformanns, er hann tók að sér stjórnarmyndunina.-, því það liggur í augum uppi, að aðgerðalítil eða aðgerðalaus ríkisstjórn var ekki það, sem aðkallandi var að fá. Slík ríkisstjórn getur þvert á móti orðið mjög skaðleg.

Ef Alþingi þyldi nú setu aðgerðarlausrar ríkisstjórnar, væri það að taka á sig ábyrgð, sem forsetinn frammi fyrir Alþingi varaði svo mjög við og kvaðst ekki geta tekið á sínar herðar, þess vegna kvað hann ríkisstjórn verða að vera komna fyrir 1. desember s. l., til þess að hún tæki til starfa við vandamálin, er ekki þyldu bið.

Vegna þessarar nauðsynjar taldi hann sig hafa vald og skyldu til að setja hinn óvenjulega stutta frest til samninga um stjórnarmyndun. Það er eðlileg þingræðisvenja, sem styðst við augljós rök, að ríkisstjórn, sem kemur fram fyrir þing í fyrsta sinn, skýri frá því, hver stefna hennar sé og með hverjum hætti hún ætli að ráða fram úr vandamálunum. Á þetta skortir mjög í yfirlýsingu hæstv. forsætisráðherra, svo ekki sé sterkar til orða tekið. En af ástæðum, sem ég hef rakið, var enn ríkari ástæða en venjulegt er til þess, að stefnuyfirlýsingin lægi fyrir og sem allra skýrust.

Ég vil vara við því, að þetta sé látið dragast, því eins og hæstv. ríkisstj. er til komin, svo sem ég hef rakið, fæ ég eigi séð, að við slík vinnubrögð verði unað.