22.11.1949
Neðri deild: 3. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í C-deild Alþingistíðinda. (2814)

3. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Flm. (Kristin Sigurðardóttir) :

Eins og frv. það, sem hér er flutt, ber með sér og tekið er fram í greinargerðinni, er það flutt í þeim tilgangi að auðvelda húsmæðrum að eignast nýtízku heimilisvélar, með því að fá felldan niður hinn háa skatt á rafmagnstæki til heimilisnotkunar, sem síðasta Alþingi samþykkti í lok síðastl. árs.

Skattur þessi mæltist afar illa fyrir, sérstaklega meðal húsmæðra. Fannst mörgum sem ráðizt væri á garðinn þar sem hann væri lægstur, er húsmæður áttu að greiða þennan háa skatt, ef þeim tækist að afla sér véla, sem léttu þeim erfiðustu störfin.

Ýmis kvenfélög og kvenfélagasamtök mótmæltu þessum ráðstöfunum harðlega. Húsmæðrafélag Rvíkur sendi t. d. hv. Alþingi og hverjum einstökum alþingismanni mótmæli, sem samþykkt voru á fundi félagsins 7. febr. 1949, sem ég vil — með leyfi hæstv. forseta — lesa hér upp.

„Fundur í Húsmæðrafélagi Reykjavíkur, haldinn 7. febr. 1949, lýsir megnri óánægju yfir hinum nýja skatti á rafmagnstæki til heimilisnotkunar.

Vegna takmarkaðs vinnukrafts fjölda heimila er nauðsynlegt, að sem flestar húsmæður geti eignazt þessi þarflegu heimilistæki, og ekki ástæða til að íþyngja fólki við öflun þeirra, frekar en t. d. við kaup á landbúnaðarvélum. Skorar fundurinn á rétta aðila að leiðrétta þetta misræmi á viðunandi hátt.“

Í þessu sambandi má líka geta þess, að kvenfélagasamtök hafa alltaf lagt áherzlu á, að heimilisvélar þessar, er hér um ræðir, nytu sömu kjara og landbúnaðarvélar, bæði hvað snertir tolla og innflutning. Liggja fyrir um þetta fjölda fundarsamþykktir frá fyrri árum.

Undanfarin ár hefur rafvirkjun stöðugt aukizt í landinu og eykst áframhaldandi. Við það fjölgar einnig þeim heimilum, sem þurfa á rafmagnstækjum að halda, og virðist því óhjákvæmilegt, að aukinn sé innflutningur þeirra.

En jafnframt er með öllu óverjandi, að lagðir séu á þau svo háir skattar, að fátækustu, og þá oft um leið stærstu heimilin, hafi ekki efni á að afla sér þeirra og verði þess vegna að vera án þeirra lífsþæginda, vinnuléttis og vinnusparnaðar, sem rafmagnið getur veitt.

Oft hef ég dáðst að því til sveita, er ég hef séð hinar margvíslegu landbúnaðarvélar að störfum, hversu mikið þær auðvelda og létta vinnu fólksins. Heyrt hef ég líka bændur segja, að síðan notkun landbúnaðarvéla varð svo almenn sem nú er, séu störf þeirra ekki sambærileg við það, sem áður var, bæði hvað snertir vinnuafköst, vinnulétti og fólkssparnað.

Þetta er öllum ljóst. Sanngjarnt og sambærilegt við þetta virðist það, að húsmæður fái notið þess hagræðis og léttis við sín störf, sem nýtízku heimilisvélar veita þeim, og að þeim verði ekki gert ókleift að kaupa vélarnar vegna óhæfilegra skatta, sem lagðir eru á þær.

Það er í sjálfu sér óþarfi að fara um þetta fleiri orðum, ég þykist vita, að hv. alþingismenn hafi fullan skilning á þessu máli.

Vil ég leyfa mér að leggja svo til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.