22.11.1949
Neðri deild: 3. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í C-deild Alþingistíðinda. (2815)

3. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að lýsa ánægju minni yfir því, að þetta frv. er nú fram komið, og því alveg sérstaklega, að það skuli koma frá Sjálfstæðisflokknum. Það var svo á síðasta þingi, er þessar tollaálögur voru samþykktar, að sjálfstæðismenn stóðu saman um það allir sem einn. Við sósíalistar reyndum að fá þær till. felldar, þótt ekki væri nema þennan f-lið, en Sjálfstfl. stóð þar í gegn óhagganlegur. Því ánægjulegra er, að till. kemur nú fram um að afnema þann lið með þessum hætti.

Það er rétt, sem hv. 9. landsk. sagði, að með þessu var ráðizt á garðinn þar, sem hann var lægstur. En það var erfitt að koma hv. þm. í skilning um það á síðasta þingi, að með þessu væru þeir að gera rangt. Ég veit ekki, hvort þeim kann að vera orðið það eitthvað ljósara nú, en vona þó, úr því að Sjálfstfl. ber þetta nú fram, að meiri hluti verði fyrir því á þinginu að afnema þennan toll. Og ég geri ráð fyrir, að menn séu þá líka reiðubúnir til að bæta fyrir það, sem rangt var gert, og endurgreiða það fé, sem hefur nú verið innheimt í ár með svo röngu móti. Ég mun því í fjhn. leggja til, að þetta óréttláta gjald verði endurgreitt öllum þeim, er fengið hafa heimilisvélar og orðið að greiða það síðan lögin voru samþykkt.