05.01.1950
Neðri deild: 22. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í B-deild Alþingistíðinda. (282)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Ég vil út af þessum orðum hv. atvmrh. upplýsa, að stjórn S.Í.F. hefur höfðað meiðyrðamál gegn Þjóðviljanum fyrir að birta upp úr skýrslunni um S.Í.F., en ekki er manndómurinn meiri en það, að hún hefur ekki farið í mál við þann, sem samdi þessa skýrslu. Samkvæmt 108. gr. hegningarlaganna má refsa manni fyrir að viðhafa óviðurkvæmileg orð um aðra menn, jafnvel þó að sönn reynist. Því vita allir fyrir fram, að þessi dómur í málinu gegn Þjóðviljanum segir ekkert um sök eða sakleysi S.Í.F. Ef hæstv. ráðh. teldi, að S.Í.F. hefði alveg hreint mél í pokahorninu, mundi hann og stjórn S.í.F. fyrirskipa opinbera rannsókn, þar sem skýrslan með ákærunum á hendur S.Í.F. væri rannsökuð. En á meðan svo er ekki gert, verður að slá því föstu, að ekki sé allt hreint. Það er ekki nokkur leið að draga aðra ályktun af slíku aðgerðaleysi, enda mun nú ýmislegt nýtt vera komið fram í þessu máli, og gefst sennilega tækifæri til að ræða um það síðar.