25.11.1949
Neðri deild: 5. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í C-deild Alþingistíðinda. (2825)

18. mál, hvíldartími háseta á togurum

Flm. (Sigurður Guðnason):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er orðið nokkuð gamalt í þessari hv. d., því að það er fyrst flutt 1946. Árið 1947 var kosin n. til að athuga málið, en sú n. hefur ekki skilað áliti enn og ekkert hefur heyrzt frá henni. Það þótti því ástæða til að flytja málið enn þá. Það er merkilegt, að á þessum tveimur þingum, sem málið var flutt, 1946–1947, þá hefur aldrei farið fram atkvgr. um það. Því hefur verið ýtt til hliðar, og menn hafa forðazt að taka afstöðu til þess. Það eru allir sammála um, að sjómannastéttin og togaramenn afkasti einhverri allra verðmætustu vinnu í þjóðarbúið. Alls staðar þar sem ekki er rætt um kjör sjómannanna, hafa menn ekki nógu sterk orð til að lýsa þessum hetjum hafsins og hvað þeir séu fyrir þjóðarbúið. Þetta eru einu mennirnir, sem Alþ. hefur tekið að sér að vernda, svo að þeim væri ekki ofþjakað til vinnu, einu mennirnir, sem lögboðið er, að skuli hafa hvíldartíma. Maður gæti því hugsað sér, að þessi óskabörn hefðu ekki við rýrari kjör að búa, hvað viðkemur hvíld og hvað þeim er ætlað að vinna, heldur en aðrir. Sannleikurinn er sá, að áður en togaravökul. voru samþ., þá var það takmarkalaust, sem þessir menn unnu, og allir eru sammála um, að þegar þetta var lagað, fékkst meiri og betri vinna eftir mennina en áður, eins og öllum er ljóst. Nú hafa skipin stækkað, veiðarfærin eru fullkomnari og afköstin meiri, en var á gömlu togurunum, en þessir menn hafa enn þá 16 tíma vinnu á sólarhring. Á sama tíma og menn eru komnir niður í 8 tíma vinnu á dag og skrifstofumenn í 6 tíma, þá er það ekki talið umtalsvert, þó að þessir menn vinni 16 tíma vinnu, svo að maður er undrandi yfir því, að öll þessi ár síðan 1946 skuli þetta ekki hafa náðst fram, að togaramennirnir skuli hafa 12 tíma vinnu. Og hefði ekki Alþ. verið búið að taka að sér vernd þessara manna, þá er ég viss um, að það væri búið að breyta því. Ég vona, að þetta verði ekki fjórða þingið,. sem lætur þetta mál fara svo fram hjá sér að gera ekki eitthvað í því eða a. m. k., að það verði til viðtals um breytingu á þessu máli.

Það er svo margt búið að taka fram um þetta mál, að ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri í bili. Ég óska, að málinu verði vísað til 2. umr. og sjútvn.