25.11.1949
Neðri deild: 5. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í C-deild Alþingistíðinda. (2833)

18. mál, hvíldartími háseta á togurum

Gylfi Þ. Gíslason:

Ég kvaddi mér hljóðs áðan til að láta í ljós undrun mína yfir því, að formaður Dagsbrúnar skuli hafa haldið því fram í ræðu, að það eigi að afnema togaravökulögin. Ég kveð mér hljóðs nú til að láta í ljós undrun mína yfir öðru, yfir því, að þessum sama hv. þm. virðist vera alls ókunnugt um innihald frv. um öryggisráðstafanir á vinnustöðum, sem hefur legið fyrir heilu þingi, sem hann hefur átt sæti á. Hann segir, að þetta frv. fjalli um öryggi á vinnustöðum og hvernig tryggja skuli, að stórar vélar verði ekki að tjóni, en þar séu. engin ákvæði um lágmarkshvíldartíma. Þetta er misskilningur. 5. kafli hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

.,Lágmarkshvíldartími verkamanna o. fl.

31. gr.

Vinnu skal þannig hagað, að sérhver verkamaður geti notið samfelldrar hvíldar frá vinnu sinni, er eigi sé skemmri en 8 klst. á sólarhring.

Ákvæði 1. málsgreinar þessarar greinar ná þó eigi til:

1. hvers konar björgunarstarfs;

2. björgunar hvers konar framleiðslu frá skemmdum.

3. annars konar vinnu, sem ráðherra, í samráði við öryggismálastjóra og öryggisráð, kann að tiltaka í reglugerð.

Þegar undantekningarákvæði 2. málsgr. þessarar greinar eru í gildi, skal haga vinnu þannig, að verkamenn geti notið samanlagðs lágmarkshvíldartíma á þrem sólarhringum.

32. gr.

Bifreiðastjórar, sem flytja fólk, og stjórnendur véla, sem mönnum getur stafað hætta ef, skulu eigi hafa lengri vinnutíma, en 12 klst. á sólarhring.

33. gr.

Meðan vinna stendur yfir skulu verkamenn fá hæfilega langa hvíldartíma með hæfilegu millibili. Getur ráðherra, í samráði við öryggismálastjóra og öryggisráð, gefið út nánari reglur um ákvæði þessarar greinar.“

Hér eru mjög þýðingarmikil ákvæði um lágmarkshvíldartíma. Sú staðhæfing er því ekki rétt, að þessi lagasetning snerti að engu leyti hvíldartíma verkalýðsins. Ég vænti þess þó, af hv. þm. þyki ekki ástæðulaust að lögfesta þetta frv., af því að verkalýðsfélög geti með samningsrétti sínum tryggt þennan hvíldartíma. Ég veit, að mörg verkalýðsfélög hafa ekki slíkan lágmarkstíma í sínum samningum, og því er setning slíkra l. vissulega mikið framfaraspor.

Ég vona, að hér sé um misgáning að ræða hjá hv. þm. og að skoðanir hans séu raunverulega ekki eins og fram virðist koma í ummælum hans.