25.11.1949
Neðri deild: 5. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 123 í C-deild Alþingistíðinda. (2834)

18. mál, hvíldartími háseta á togurum

Einar Olgeirsson:

Mér finnst nokkuð mikill gorgeir í hv. 3. landsk. (GÞG), þegar hann er að tala um frv. um öryggi á vinnustöðum. Hefur hann athugað, hvað stóð í því, áður en hann fór að lesa það? Það kom fram á Alþingi 1949 frv. um að tryggja verkamönnum 8 tíma hvíld í sólarhring. Á sama tíma var búið að setja í flestum löndum Evrópu lög um 8 tíma vinnu. Alþýðusamtök, sem Ísland er aðili að, vinna að því að koma á 8 stunda vinnudegi. Ég efast um, að hv. 3. landsk. hafi séð, að þessi löggjöf, sem hann taldi svo þýðingarmikla og er þýðingarmikil að ýmsu öðru leyti, er langt á eftir því, sem við ættum að vera búnir að setja í lög hér á landi. Við ættum að vera búnir að lögleiða 8 stunda vinnudag fyrir löngu síðan. Þá . hefði verið ástæða til fyrir hv. þm. að standa upp og vera með gorgeir út af slíkum lögum.

Svo beinir hv. 3. landsk. gorgeir sínum til hv. 6. þm. Reykv., formanns Dagsbrúnar. Prófessorinn aðgætir ekki, að hann er að tala um löggjöf, sem er langt á eftir því, sem tíðkast í Evrópu. En hvað hefur hv. 6. þm. Reykv. og formaður Dagsbrúnar haft forustu um að framkvæma í sínu stéttarfélagi? Hann hefur haft forustu um að framkvæma 8 stunda vinnudag, sem verkamenn hafa barizt fyrir og fjöldamörg lönd í Evrópu hafa sett í lög, og það eru 7–8 ár síðan það var gert. Svo kemur hv. 3. landsk. og talar með yfirlæti um 31. gr. og þær umbætur, sem verkamönnum séu tryggðar þar með ákvæðinu um 12 stunda vinnudag, og, að hv. 6. þm. Reykv. ætti að athuga það. Þekkir hv. 3. landsk. ekki vinnutilhögunina hér við höfnina, sem Dagsbrún hefur komið á með því að semja um 8 tíma vinnudag? Þetta yfirlæti hefði átt við hjá hv. þm., ef hann hefði lagt fram frv. um 8 tíma vinnudag. En í stað þess þá liggur ekki nærri, að frv. tryggi verkamönnum þann rétt, sem þegar hefur verið tryggður í Dagsbrún, því félagi, sem hv. 6. þm. Reykv. er formaður fyrir. Það er því dálítið, undarlegt að fá þá yfirlýsingu frá þeim flokki, sem hv. 3. landsk. tilheyrir, að verkalýðssamtökin hafi ekki haft bolmagn til að stytta vinnudaginn á togurunum. Þeir samningar, sem verkamannafélagið Dagsbrún hefur gert, sýna fullkomlega, hvers verkalýðssamtökin eru megnug. Sama hefði Sjómannafélag Reykjavíkur getað gert. Það er eingöngu samningsmál, hvað vinnutíminn er langur. Sjómannasamtökin hafa nógan styrk til að knýja fram styttan vinnudag, ef þau beita sér. Sjómannasamtökin hafa knúið fram 8 tíma vinnu fyrir kyndara, en kyndarar eru ekki undir togaravökulögunum. Stjórn Sjómannafélagsins lítur svo á, að fyrst kyndarar séu ekki undir togaravökulögunum, þá sé tilvalið að beita valdi samtakanna til að knýja fram 8 tíma vinnu á togurunum fyrir kyndara. En hvað snertir hásetana, sem hafa erfiðustu vinnuna, þá gildir annað um þá. Gerir hv. 3. landsk. þm. ráð fyrir, að stjórn Sjómannafélags Reykjavíkur beri hag háseta minna fyrir brjósti, en hag kyndaranna? Ég sé ekki, að ástæða sé til að ætla það. En hvernig stendur þá á þessu misræmi? Það er af því, að það eru þessi dýrmætu l. um hvíldartíma háseta, og þá er eins og stjórn Sjómannafélagsins þyki ekki eins hæfa að beita valdi í samtökunum á þessu sviði, þó að þeir beiti þessu sama valdi, þegar kyndarar eiga hlut að máli, því að þeir eru í sama félaginu. Þetta er eftirtektarvert, og það sýnir þá leiðu staðreynd, að á sama tíma sem Dagsbrún knúði fram 8 tíma vinnudag og á sama tíma og kyndarar hafa fengið 8 tíma vinnudag, þá hefur gilt annar og miklu lengri vinnudagur fyrir þá, sem hafa haft hvíldartíma sinn ákveðinn með l., og að nú fyrst er verið að hreyfa við honum. Það þarf því engan að undra, þó að fram komi raddir í þá átt, að Alþingi hugsi lítið um hag þessara manna, þegar það hefur tekið þá með þessari gömlu löggjöf undir sinn verndarvæng fyrir 20–27 árum síðan. Þess vegna vil ég ítreka það, að ég álít, að Alþingi þurfi að sýna það í afstöðu sinni til þessa máls nú, þó að það hafi raunverulega brotið að nokkru leyti það traust, sem togarahásetar hafa sýnt því, með því að fresta þessu máli svo lengi, — eigi að sýna það nú, að það vilji láta háseta á togurum njóta a. m. k. allt að því sömu réttinda og þorri verkamanna í landi hefur þegar knúið fram og eins og meira að segja kyndarar á togurum hafa knúið fram. Hinu skal ég ekki neita, að ég álít, að ef verkalýðssamtökin beittu sér í þessu efni, þá hefðu þau nægilegt bolmagn til að knýja þetta fram. Hitt er annað mál, að ég álít heppilegra fyrir þjóðfélagið, að til þess þurfi ekki að koma, að sjómannasamtökin þurfi að beita áhrifavaldi sínu til að knýja þessa umbót í gegn, því að það mundi áreiðanlega kosta verkfall með öllum þeim afleiðingum, sem það hefur. Við vitum, hvað síðasta togaradeila kostaði þjóðina. Engan, sem hefur ábyrgð gagnvart þjóð sinni og atvinnulífinu í landinu, langar til að vísa sjómönnunum á þá leið til að bæta kjör sín. Ég tel því heppilegt, að þingið, þar sem það hefur svo lengi dregizt að lagfæra þessi lög, sem voru svo gífurleg réttarbót á sínum tíma, bæti nú ráð sitt og samþykki þetta frv. skjótt og vel.