25.11.1949
Neðri deild: 5. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í C-deild Alþingistíðinda. (2835)

18. mál, hvíldartími háseta á togurum

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Ég var fjarverandi og heyrði ekki alla ræðu hv. 2. þm. Reykv. (EOl). Ég heyrði þó, að hann var að beina köpuryrðum gegn Sjómannafélagi Reykjavíkur og forustumanni þess. Hann benti á kyndarana. Þeir væru ekki undir vökul., en þeir hefðu tryggt sér hvíldartíma með samningum. Ég vil benda hv. þm. á það, að l., sem voru sett hér á seinni árum um atvinnu við siglingar og annað þess háttar, áttu mikinn þátt í, að kyndararnir hafa nú ekki lengri vinnudag, því að með lögum þessum var ákvarðað, hvað margir menn eigi að vinna í vél og vélarrúmi. Það gerir það að verkum, að hægt er að skipta mönnunum, sem vinna í vélarúmi, í vaktir, svo að enginn þurfi að vinna lengur en 8 tíma á sólarhring.

Þessi bættu vinnuskilyrði kyndara eru því fyrst og fremst byggð á þeirri löggjöf, sem sett hefur verið, ekki sízt fyrir atbeina formanns Sjómannafélags Reykjavíkur, enda hafa andstæðingar þessa máls kallað það Sigurjónskuna. Gögn, sem hefur verið aflað, sýna, að togararnir eru að þessu leyti öðruvísi, en önnur fiskiskip í landinu. Sú n., sem kemur til með að fjalla um þetta mál, ætti ekki sízt að kynna sér, hvernig það er í fyrirmyndarríkinu Rússlandi í þessu efni. Það væri ekki ófróðlegt að kynna sér það atriði. Ég ætla ekki að fara út í það að þessu sinni, n. á þess kost að kynna sér það, þegar þar að kemur.

Þessi fáu orð áttu að vera mótmæli gegn þeim köpuryrðum í garð Sjómannafélags Reykjavíkur og formanns þess, sem komu fram hjá hv. 2. þm. Reykv. En það gladdi mig, að hann er sammála mér, en andvígur hv. flokksbróður sínum, að það sé ekki ráðlegt að afnema togaravökulögin, og taldi réttara, að Alþingi bætti þau, enn en að leggja út í stórar vinnudeilur út af þessu atriði.