25.11.1949
Neðri deild: 5. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í C-deild Alþingistíðinda. (2849)

26. mál, utanríkisráðuneytið og fulltrúar þess erlendis

Flm. (Skúli Guðmundsson) :

Herra forseti. Efni þessa frv., sem ég flyt ásamt hv. 1. þm. Rang., er það að takmarka tölu þeirra sendiherra og sendifulltrúa, sem ríkisstj. skipar sem forstöðumenn sendiráða í öðrum löndum. Frv. um þetta efni var borið fram á síðasta þingi í hv. Nd. og fékk þar athugun í allshn. þeirrar hv. d. Nefndarmenn voru ekki á eitt sáttir í þessu máli og komu fram tvö nál. En úrslit málsins urðu þau, að frv. var vísað frá með rökst. dagskrá, sem samþ. var með litlum atkvæðamun. Okkur hefur því þótt rétt, flm., að taka málið upp aftur nú á þessu þingi.

Eins og mönnum er vafalaust ljóst, þá er það sem fyrir okkur vakir með flutningi frv., að draga úr þeim kostnaði víð utanríkisþjónustuna, sem þegar er orðinn allmikill. Við lítum svo á, að það þurfi að draga úr þeim gjöldum eins og unnt er. Og við teljum, að þrátt fyrir það að tala sendiherra og sendifulltrúa sé eins takmörkuð eins og segir í gr. frv., að þeir skuli ekki vera nema fjórir, þá sé hægt að koma þessum málum þannig fyrir, að sómasamlega sé gætt hagsmuna Íslands erlendis.

Sé ég ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð, en legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.