13.12.1949
Neðri deild: 12. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í C-deild Alþingistíðinda. (2868)

63. mál, fjárhagsráð

Flm. (Skúli Guðmundsson) :

Herra forseti. Í þessu frv. er lagt til að gera nokkrar breytingar á l. um fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit. Vil ég fara nokkrum orðum um breytingar þessar.

Í 1. og 2. gr. er ekki um efnisbreytingu að ræða aðra en þá, að lagt er til, að innflutnings- og gjaldeyrisdeildin, hin svonefnda viðskiptanefnd, sé lögð niður, en fjárhagsráð úthluti sjálft öllum innflutnings- og gjaldeyrisleyfum. Í 3. gr., sem er aðalgr. frv., eru fyrirmæli um úthlutun gjaldeyris- og innflutningsleyfa. Í 1. mgr. er rætt um innflutning á kornvöru, kaffi og sykri og gert ráð fyrir, að innflutningur á þessum tegundum sé sem frjálslegastur, þannig að flutt verði inn eftir óskum manna og þörfum, svo að jafnan verði nóg til af þessari vöru hvar sem er á landinu, eða nóg fyrir útgefnum skömmtunarseðlum, ef skammtað verður, og er því ekki um að ræða breytingar frá því, sem nú er, því að mér skilst, að vörur þessar séu nú fluttar inn eftir óskum manna og þörfum. Í 2. mgr. eru fyrirmæli um úthlutun leyfa fyrir fatnaði, vefnaðarvöru og skófatnaði úr öðru efni en gúmmíi. Leggjum við til, að þegar ákveðið hefur verið, fyrir hve háa upphæð skuli flutt inn af þessum vörutegundum árið 1950, þá skuli vera gefin út stofnleyfi fyrir helmingi þeirrar upphæðar og skuli þau gilda í 6 mánuði frá útgáfudegi þeirra. Skal þeim skipt þannig milli innflytjenda, að Samband íslenzkra samvinnufélaga fái 45% og önnur verzlunarfyrirtæki 55%. Við teljum, að hlutur S. Í. S. hafi verið fyrir borð borinn að undanförnu, og teljum rétt að hafa þennan hátt á úthlutuninni til að jafna aðstöðu verzlunarfyrirtækja í landinu. Það má gera ráð fyrir, að þegar gefnir verða út nýir skömmtunarseðlar, eins og gert er ráð fyrir í næstu mgr., að nokkur keppni verði milli verzlana að selja vörur gegn þeim, þar eð þeir veita heimild til framhaldandi innflutnings, og þótti því rétt að jafna nokkuð aðstöðuna í fyrstu. Í 2. mgr. er einnig getið um efnivöru til vefnaðarvöru- og skóiðnaðar, og skal úthlutun þeirra leyfa skipt á sama hátt og vefnaðarvöru- og skófatnaðarleyfum. Í næstu mgr. á eftir (3. mgr.) segir, að þegar stofnleyfi hafa verið gefin út, skuli gefa út nýja skömmtunarseðla, eins og ég hef áður getið um, en samanlagt gjaldeyrisverðmæti þeirra má ekki fara fram úr 70% af heildarupphæð stofnleyfanna. Í þessari mgr. er einnig tekið fram, að leyfisveitingum fyrir þessum vörum skuli framvegis skipt milli innflytjenda í hlutfalli við gjaldeyrisverðmæti þeirra skömmtunarseðla, sem gefnir hafa verið út samkv. ákvæðum þessarar greinar og innflytjendur skila til fjárhagsráðs. Í næstu mgr. eru ákvæði um það, að meðan takmarkaður sé innflutningur á vörum samkv. 2. mgr. þessarar gr., þá skuli þær skammtaðar og skömmtunarseðlar aldrei gefnir út fyrir meira vörumagni, en flutt er til landsins á hverjum tíma. Tilgreint sé á seðlunum gjaldeyrisverðmæti það, er þeir gilda fyrir, og um leið og útsöluverð á vörum er ákveðið, skal jafnframt tilgreina skömmtunarverðmæti þeirra, þ. e. gjaldeyrisverðmæti. Eins og kunnugt er, á að heita, að þessar vörur séu nú skammtaðar hér, en það er gert á þann hátt, að aðfinnsluvert er. Það eru gefnir út skömmtunarseðlar til fólks fyrir þessari vöru í stórum stíl, en almenningur getur ekki fengið keypt út á seðlana í verzlunum nema þá að litlu leyti. Þetta er óhæft. Við flm. viðurkennum, að nauðsynlegt sé að viðhalda skömmtun meðan innflutningur til landsins er ekki nægilegur til að svara eftirspurnum, ef með því móti er hægt að skipta vörunum sanngjarnlegar milli neytenda. En við viljum hafa skömmtunina með öðrum hætti, þannig, að hver maður fái sinn skerf, sem honum er úthlutaður, og teljum betra að hafa minna af seðlum, en þeir séu þá í fullu gildi, því að annars verður skipting vörumagnsins ójöfn, þar eð menn hafa mjög misjafna aðstöðu til að fá vörur út á seðla sína. Þannig hafa sumir fengið fullkomlega út á sína seðla á meðan aðrir hafa fengið lítið sem ekkert út á sína.

Ég sé nú ekki ástæðu til að ræða þennan fyrri hluta gr. frekar, en vil snúa mér að síðari hlutanum, sem er um innflutnings- og gjaldeyrisleyfi á nokkrum tilgreindum vörutegundum. 5. mgr. l. fjallar um smávöru, sem óskömmtuð hefur verið undanfarið, gúmmískófatnað, búsáhöld og hreinlætisvörur, og leggjum við þar til, að stofnleyfum fyrir þeim vörum verði skipt í sömu hlutföllum og vefnaðarvöruinnflutningnum á milli S. Í. S. og kaupmanna og framhaldsúthlutunum verði skipt í réttu hlutfalli við skilaða vefnaðarvöruskömmtunarseðla á hverjum tíma. Í 2. tölulið eru taldir nýir, þurrkaðir og niðursoðnir ávextir, kryddvörur alls konar og nýlenduvörur og skal því úthlutað í hlutfalli við skilaða skömmtunarseðla fyrir neyzlusykri fyrir næsta ár á undan. 3. töluliður kveður svo á, að leyfum fyrir varahlutum í bifreiðar og hjólbörðum skuli skipt milli héraða í réttu hlutfalli við tölu skrásettra bifreiða í hverju umdæmi, en úthlutun til verzlana og viðgerðarstöðva í hverju umdæmi skal fara eftir óskum bifreiðaeigenda.

Þá er ónefnt stórt atriði í þessari gr., en það er ákvæðið um úthlutun leyfa fyrir efnivöru til bygginga, sem fjárfestingarleyfi þarf til og nánar er tilgreint í frv. Við leggjum til, að um leið og fjárfestingarleyfið sé veitt, skuli gera áætlun um gjaldeyrisþörf fyrir þeirri erlendu vöru, sem til byggingarinnar þarf og tilgreind er hér í frv. Skal leyfishafinn fá ávísun fyrir gjaldeyris- og innflutningsleyfum fyrir þessum vörum, sem hann framvísar svo hjá þeim verzlunum eða fyrirtækjum, sem hann vill skipta við. Það er ekki vafi á því, að verði þetta samþ., þá mun það gera mönnum stórum auðveldara að ná í efni til þeirra framkvæmda, sem leyfðar eru. Ég þekki sjálfur og geri ráð fyrir, að hv. þm. þekki mörg dæmi þess, að menn hafi átt mjög erfitt með að fá þessar vörur, þó að þeir hafi fengið fjárfestingarleyfi, og oft orðið að leita til fjarlægra verzlunarstaða, sem hefur haft í för með sér aukinn kostnað og mikla fyrirhöfn. Heppilegast er að fá það, sem til þarf, á næsta verzlunarstað. — Þá koma fyrirmæli um úthlutun á byggingarefni til viðhalds mannvirkja og til framkvæmda, sem ekki þarf fjárfestingarleyfi fyrir, og er lagt til, að því sé skipt milli landshluta í hlutfalli við mannfjölda, en á milli verzlana á hverjum stað í sömu hlutföllum og byggingarefni til framkvæmda, sem fjárfestingarleyfi þarf fyrir.

Þá er gert ráð fyrir því, að úthlutun á gjaldeyris- og innflutningsleyfum fyrir öðrum vörum en hér eru nefndar fari eftir ákvörðunum fjárhagsráðs, nema fyrirmæli séu sett um það með öðrum l. eða ályktunum frá Alþ., og minnist ég í því sambandi t. d. laga um úthlutun jeppabifreiða, þó að þau hafi ekki komið til framkvæmda, því að engar slíkar bifreiðar hafa verið fluttar inn í landið síðan þau voru sett.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða um 4.–13. gr., því að þær eru ekki efnisbreyt., heldur formsbreyt., sem stafa af því, að gert er ráð fyrir, að viðskiptanefnd verði lögð niður. En við vonum, að það verði til sparnaðar fyrir hið opinbera og eins hitt, að mál þessi verði ekki eins þung í vöfum, og þau hafa verið hingað til, og auðveldara verði fyrir þá, sem þurfa á leyfisveitingum að halda, ef þeir þurfa ekki að fara til eins margra ráða og nefnda og hingað til. Þá hefur það einnig átt sér stað, að ekki hefur alltaf verið fullt samræmi í framkvæmdum þessara tveggja stofnana, fjárhagsráðs og viðskiptanefndar, þó að nefndin sé aðeins ein af undirdeildum ráðsins.

Ég býst við, að menn séu yfirleitt sammála um það, að æskilegast væri, að ekki þyrfti allar þessar innflutningshömlur, heldur væri þetta allt frjálst eins og í gamla daga. En við flm. teljum, að ekki verði hjá innflutnings- og gjaldeyrishömlum komizt nú um sinn, þar eð útlitið í viðskiptamálum er nú slæmt, og á meðan er óhjákvæmilegt að haga framkvæmdum þannig, að hið takmarkaða vörumagn skiptist á sem sanngjarnastan hátt á milli landsmanna og að þeir hafi fullt frelsi til að ráða, hvar þeir kaupa hið takmarkaða vörumagn, sem þeir fá. Ef einhver óskar að verzla við kaupmenn, þá á hann að hafa leyfi til þess, og ef einhver óskar að skipta við kaupfélag, þá á hann að fá að gera það, óáreittur af öllum veraldlegum völdum. Allt annað er óþolandi. Það er hægt að gefa mönnum kost á að velja um, hvar þeir kaupa vöru sína, þó að takmarka þurfi magn hennar. Það er þessi stefna, sem frv. okkar boðar, sama stefnan sem kom fram í frv. því, sem við fluttum á s. l. þingi á þskj. 37 og var samþ. hér í hv. d., en var svo fellt í hv. Ed. með eins atkvæðis mun. En þetta nýja frv. er ýtarlegra og á því hafa verið gerðar nokkrar breyt. í samræmi við orðnar breyt. í viðskiptamálum, t. d. hefur verið hætt skömmtun á kornvöru, kaffi o. fl. síðan í fyrra

Ég sé ekki ástæðu til að fylgja þessu frv. úr hlaði með fleiri orðum, en leyfi mér að leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn. og vil beina þeirri ósk til hv. n., að hún afgreiði málið frá sér til hv. d. sem allra fyrst.