13.12.1949
Neðri deild: 12. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í C-deild Alþingistíðinda. (2869)

63. mál, fjárhagsráð

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Það er ef til vill ekki ástæða til að ræða þetta frv. ýtarlega við þessa umr., en ég get samt sem áður ekki látið hjá líða að fara nokkrum orðum um viss atriði í frv.

Það er fátt í þessu frv., sem ég er samþykkur. Þó er eitt atriði í því, sem ég get fallizt á, en það er sameining hinna tveggja deilda, fjárhagsráðs og viðskiptanefndar. Það hefur sýnt sig, að það er ekki heppilegt fyrirkomulag, og málum er vísað frá einni n. til annarrar, auk þess sem þeim er vísað til ríkisstj., og af þessu stafar meiri afgreiðslutregða, en ef þetta væri í einu lagi. Og mér hefur virzt svo, að fjárhagsráð skipti sér lítið af störfum viðskiptanefndar, þegar það afhendir sín fyrirmæli um upphæðir, sem úthluta á hverju sinni í hverju efni. En í þeim löndum, þar sem einstaklingum og félögum er leyft að fara með verzlunarframkvæmdir, þá þykir mér líklegt, að lagasetning þessi væri alveg eins dæmi, ef þetta frv. væri samþ., að það sé ákveðið með lögum í einu landi, hversu mikið einn flokkur innflytjendanna skuli hafa af innflutningnum, og á ég þar við það, sem til er tekið í frv. þessu, að lagt er til, að ákveðið verði, að Samb. ísl. samvinnufélaga og kaupfélögin skuli fá 45% af innflutningnum, en kaupmenn 55%. Þetta er háttur, sem ég fullyrði, að þekkist ekki í nokkru öðru landi, fyrir utan það, að það verður ekki með neinum rökum sýnt fram á, að þetta byggist á nokkrum raunhæfum forsendum. Hér er sett fram í lagaformi togstreita, sem hefur verið á ferðinni síðan 1931 og hefur farið á ýmsa vegu og hallazt til ýmissa hliða. En nú er í fyrsta skipti þessi togstreita færð inn í Alþ., til þess að fá lögfest þessi hlutföll í innflutningnum. — Þetta frv. er ákaflega mikið frábrugðið því frv., sem áður hefur verið lagt fyrir þingið nokkrum sinnum um það, að skömmtunarseðlarnir skuli gilda sem innflutningsleyfi handa þeim aðilum, sem fá þá. Breyt. er, eftir því sem mér virðist, aðallega byggð á því, að nú er gert ráð fyrir því, að það verði veitt stofnleyfi, sem eigi að vera undanfari þess, að þetta form geti komizt á. Mér er ekki kunnugt um, að það sé í nokkru landi ríkjandi slíkt form við skiptingu innflutningsins, nema ef vera skyldi í landi eins og Argentínu, þar sem pólitískur ribbaldaháttur hefur gengið fyrir sig árum saman. Innflutningsmálunum hefur verið stjórnað ég vil segja — í öllum löndum, sem hafa innflutningshömlur, samkvæmt kvótareglum. Mér dettur ekki í hug að segja, að kvótareglurnar hafi ekki annmarka. Þær hafa stórkostlega annmarka. En þrátt fyrir það hafa þjóðir eins og Norðurlönd, Bretland, Holland og fleiri lönd, sem yfirleitt reyna að reka sín störf á lýðræðis- og réttlætisgrundvelli, þau hafa ekki fundið annan réttlátari grundvöll, en þennan. Þessum grundvelli halda þau enn í dag. Vafalaust má telja, að þessi lönd hafi mikið hugsað og rætt um það, hvernig bezt væri að koma þessum málum fyrir, vegna þess að öllum kemur saman um, að þetta séu vandræðamál, hvernig sem á þau er litið. En samt sem áður hefur enginn treyst sér til að fara út í jafnhæpnar ráðstafanir og hér er gert ráð fyrir. Með þessu móti, eins og frv. gerir ráð fyrir, væri það svo um félög og einstaklinga, sem hafa byggt upp sín fyrirtæki á löngum tíma, jafnvel á áratugum, að þau væru gerð gersamlega réttlaus með þessari skiptingu. Annars staðar er þessi skipting í mjög ákveðnu og sterku fyrirkomulagi. En hér hafa nú síðustu árin, vegna pólitískra áhrifa, þessi mál farið svo úr böndunum, að það má segja, að úthlutunin í þessum efnum í flestum greinum fari fram án þess að hún sé byggð á nokkrum skipulagsbundnum hætti. — Ég hygg, að það mundi reynast erfitt í framkvæmd sumt af því, sem hér er gert ráð fyrir í frv., og vildi ég þá sérstaklega benda á fyrsta töluliðinn, upptalningarliðinn, í 3. gr., þar sem talað er um, að stofnleyfi skuli gefin út fyrir smávörum (er teljast með vefnaðarvöruflokknum), gúmmískófatnaði, búsáhöldum, leir-, gler- og postulínsvörum og hreinlætisvörum. Það á að vísu að gefa stofnleyfi fyrir þessum vörum. En svo á að úthluta innflutningsleyfunum fyrir þessum vörum síðar, eftir skömmtunarseðlum fyrir vefnaðarvörum. M. ö. o. þeir, sem selja þessar vörur, eiga það undir einhverjum öðrum, hversu þeir menn eru duglegir að selja vefnaðarvörur, hvort þeir fá nokkurn innflutning eða ekki á þessum vörum. Þetta virðist nú vera nokkuð langt sótt. En það er þá ekki heldur gerð grein fyrir því í þessari gr., hvernig skiptingin á þá að vera til þeirra manna, sem eiga að fá þessar vörur. Hvernig á sú skipting að vera? Því að ef þetta frv. væri samþ., þá kæmi það til kasta þess opinbera að velja einhverja leið til þess að útbýta þeim leyfum, sem þannig koma til.

Þá er það byggingarefnið. Það má segja kannske, að það liti vel út á pappírnum, að þeir, sem nota vöruna, eigi að hafa frjálst val um það, hvar þeir geti keypt hana. En ef hv. þm. athuga, hvað innifelst í þessari kvöð, sem þeir þarna vilja setja á fjárhagsráð, þá kemur í ljós, að hér er gert ráð fyrir að setja þá kvöð á fjárhagsráð, að það verði að láta reikna út hvern smáhlut, hvern nagla, hverja skrá og hverja ró í húsi t. d., sem á að byggja hverju sinni, og gefa viðkomandi aðila sundurliðað leyfi fyrir öllum þessum vörum, sem þeir þurfa í byggingu hverja. Það má kannske segja, að það sé ekki gersamlega útilokað að framkvæma þetta. En það má öllum vera ljóst, hvílík gífurleg Kleppsvinna hlýtur að liggja í þessu, en þetta sýnir bara, hve miklum erfiðleikum hv. flm. hafa verið í viðkomandi því að finna einhverjar leiðir til þess að setja fram það, sem þeir hafa sett fr8m hér. Það var ekki heldur við því að búast, að þeir gætu fundið einhverja frelsandi leið út úr þessum málum, þar sem aðrar þjóðir, miklu vanari skipulagi en við, hafa gefizt upp við að fara aðra leið en þá, sem ég gat um áðan.

Þá er það byggingarefnið til viðhalds. Formælendur stefnu þeirrar, sem þetta frv. flytur, segja: Því skal skipt á milli héraða (kaupstaða og sýslufélaga) í hlutfalli við mannfjölda. Það verður ekki af þessu skilið annað en að það eigi að úthluta byggingarefni til viðhalds til bæjarstjórna og sýslunefnda. Má vera, að hv. flm. gefi aðra skýringu á því.

Ég skal ekki draga neina dul á það, að frá mínu sjónarmiði eru l. um fjárhagsráð stórkostlega gölluð. En þau mundu ekki batna við þessa viðbót, það er hægt að fullyrða. En mér finnst ástæða til þess við þessar umr. að benda hér aðeins á þrjár málsgr. í l. um fjárhagsráð, til þess að hv. þm. geti rifjað upp fyrir sér, hvað margir af þeim á sínum tíma hafa samþ. sem verkefni þessarar stofnunar. Það er t. d. í 2. gr. nr. 2 til tekið meðal annars, að það sé, „að öllum vinnandi mönnum, og þó sérstaklega þeim, er stunda framleiðsluvinnu til sjávar og sveita, séu tryggðar réttlátar tekjur fyrir vinnu sína, en komið í veg fyrir óeðlileg sérréttindi og spákaupmennsku.“ Og í 7. tölul. sömu gr. er það til tekið sem verksvið þessa ráðs, „að atvinnuvegir landsmanna verði reknir á sem hagkvæmastan hátt á arðbærum grundvelli og stöðvist ekki vegna verðbólgu og dýrtíðar.“ Og í þriðja lagi er í 8. tölulið: „að húsnæðisskorti og heilsuspillandi íbúðum, hvar sem er á landinu, verði útrýmt með byggingu hagkvæmra íbúðarhúsa.“ Þetta eru náttúrlega hlutverk, sem við viljum allir gjarnan, að verði unnin. En hugsum okkur bara, hvaða ráðstöfun það er að ætla að leggja svona hlutverk á herðar einnar stofnunar eins og fjárhagsráðs. Og hugsum okkur, hvaða von er um, að þetta ráð geti framkvæmt þetta. Það má segja, að það sé síður en svo, að það saki, þó að þetta standi í l. En við höfum þá líka gert okkur óþarflega bjartar vonir um það, hversu miklu slík stofnun geti afkastað.

Það, sem er mest nauðsyn á nú eins og stendur er, að það sé hægt að koma á skipulegum og skynsamlegum vinnubrögðum í þessum málum.

Mér þykir rétt í sambandi við þessar umr. að geta þess, að gjaldeyrismálin eru að mínu áliti komin í hreint öngþveiti, eins og sakir standa, og það verður ekki komizt hjá því á einhvern hátt að taka þau föstum tökum. En það er ekki hægt að gera með þessu frv. Það eitt verður sagt. Óreiðuskuldir hafa safnazt í bönkunum undanfarna mánuði, og samkvæmt uppgjöri, sem var gert fyrir mánuði síðan, þá nam það yfir 50 millj., sem fyrir lá af beiðnum um yfirfærslur á fé til vörukaupa og greiðslu á vörum, sem komnar eru til landsins og liggja á hafnarbakkanum, en hefur ekki verið hægt að greiða. Þetta er svo alvarlegt mál, að það er ekki hægt að láta þessa þróun ganga svona lengur og halda áfram að safna skuldum við útlönd á þennan hátt. En við skulum bara gera okkur grein fyrir því í sambandi við skipulag þessara mála, sem við erum að ræða um, að þessar vörur líklega allar eru pantaðar út á lögleg innkaupaleyfi, gefin út af þeirri stofnun, sem þingið og ríkisvaldið hafa valið til þess að vinna þessi störf. En þrátt fyrir það að þessi leyfi séu gefin út að löglegum hætti, þá verða þetta óreiðuskuldir við útlönd, og þau fyrirtæki, sem senda hingað vörur, sætta sig ekki við, að þær liggi hér þannig, að það fáist ekki yfirfærsla vegna þeirra.

Ég skal ekki fara lengra út í þetta mál að sinni. En vel kann svo að fara, að til þess reki nauður að gera þær ráðstafanir um stundarsakir, að ekki verði hægt að flytja vörur til landsins nema jafnframt sé tryggð greiðsla fyrir þeim.