13.12.1949
Neðri deild: 12. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í C-deild Alþingistíðinda. (2872)

63. mál, fjárhagsráð

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Út af því, sem hv. þm. Hafnf. (EmJ) sagði, þá er ég honum sammála um það, að það hefur verið ókostur við framkvæmd þessara mála, að þau skuli ekki hafa heyrt undir eitt ráðuneyti. Reynslan hefur sýnt, að ekki kemur til mála, að þau heyri undir alla ríkisstj. Með því móti verða framkvæmdir stofnunarinnar allt of þunglamalegar og raunverulega enginn, sem ábyrgðina ber. Ég gleymdi nú að benda á, að hv. flm. fella niður seinni málsgr. 9. gr., en með því virðist vera kippt burt möguleikanum til þess að setja fjárhagsráði starfsreglur, en það er mjög nauðsynlegt.

Það hefur undanfarið ár verið heróp samvinnumanna í landinu, að menn fái ekki að verzla þar, sem þeir vilja, og hv. frsm. segir, að þetta sé nú orðið eins og þegar við vorum verst staddir á einokunartímunum. Þetta er nú vægast sagt mjög mikill misskilningur, ef ekki vísvitandi blekking. Það getur hver maður verzlað í hvaða verzlun sem hann vill, og þetta vita allir. Deilan hefur hins vegar staðið um heildarskiptinguna. Það er hin mesta fjarstæða að halda því fram, að Íslendingar séu bundnir við ákveðnar verzlanir. En þetta hefur verið túlkað á þann veg, að með því að S. Í. S. fái ekki nægilegar vörur, þá séu menn neyddir til að verzla þar, sem mönnum er það þvert um geð. En þessi fullyrðing fær á engan hátt staðizt.