13.12.1949
Neðri deild: 12. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í C-deild Alþingistíðinda. (2873)

63. mál, fjárhagsráð

Flm. (Skúli Guðmundsson) :

Herra forseti. Ég vildi aðeins segja örfá orð út af ræðu hæstv. viðskmrh. Ég sagði, að ef farið væri eftir kvótareglunni, þá yrði afleiðingin sú, að verzlunin væri bundin í sömu skorðum og áður var. En ég viðurkenni, að ekki er farið eingöngu eftir henni, og því er ófrelsið ekki alveg eins mikið. En mjög var það ofmælt hjá hæstv. ráðh., að menn geti verzlað hvar sem þeir vilji. Ég kann um það mörg dæmi, að menn, sem fengið hafa fjárfestingarleyfi, hafa orðið að fara sjálfir fleiri ferðir til Rvíkur eða gera út sendimenn eða fá sér þar umboðsmenn til þess að fá leyfisvörurnar, af því að þær vörur voru ekki til í neinum af þeim verzlunum heima í héraði, sem þeir helzt hefðu kosið að skipta við, allra hluta vegna. Ummæli hæstv. ráðh. eru því úr lausu lofti gripin.