02.05.1950
Neðri deild: 94. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í C-deild Alþingistíðinda. (2880)

63. mál, fjárhagsráð

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Þetta frv. fer fram á það, að settar verði ákveðnar reglur um innflutning til landsins og skiptingu hans milli landsmanna. Það lá fyrir hv. fjhn. annað frv., sem ég og annar hv. þm. erum flm. að, um svipað efni. Hins vegar hef ég flutt brtt. við þetta frv. á þskj. 566 og mun kannske flytja fleiri till. síðar. En áður en ég byrja að ræða um þessar till. mínar vildi ég minnast örfáum orðum á ástandið í þessum málum eins og það er.

Ég verð að segja það, að hreinskilnislega sagt finnst mér það undarlegt að ætla nú að fara að ræða af alvöru um skiptingu innflutnings á vörum til landsins. Mér sýnist ástandið vera þannig í þjóðfélaginu, að það séu önnur mál, sem þarf að afgreiða áður en farið er að ræða um það, hvort og hvernig innflutningurinn eigi að skiptast milli verzlana. Það er að vísu gott að hafa til ákveðnar reglur um skiptingu innflutningsins, en það er þá bezt, fyrst verið er að skipuleggja þetta, að skipuleggja það með hliðsjón af því, hvort eitthvað muni flytjast af vörum til landsins, sem séu til skipta. Og ég fæ ekki séð neina afgreiðslu á þessum málum, sem þingið getur verið þekkt fyrir, nema jafnhliða sé tekið fyrir spursmálið um útflutninginn. Ég fæ ekki betur séð, en að það sé helber og ósvífnisleg blekking gagnvart neytendunum, ef við færum að afgreiða þetta mál út af fyrir sig, þó að það kunni í sjálfu sér að vera réttlátt, en það er blekking, þegar við sjáum, að grundvöllurinn undir innflutningnum er að hrynja í rústir, ef við gerðum ekki neinar ráðstafanir til þess að fyrirbyggja það. Það er ekki hægt að afgreiða slíkt frv. sem þetta í þeirri trú, að það komi að einhverju gagni, öðruvísi en að sjá um það um leið, að útflutningurinn sé tryggður, til þess að hægt sé að flytja eitthvað inn; það væri ekki sómasamlegt af Alþingi að gera slíkt. Undanfarin ár hefur mikið verið rætt um innflutninginn og mikið um hann deilt. Það hefur verið hægt að rífast um þessi mál einsömul. Þetta hefur gengið svo langt, að það hefur verið tekið allt frjálsræði af útflutningnum og fengið í hendur innflytjendum. En það sér hver heilvita maður, að þetta er ekki hægt lengur. Sú verzlunarpólitík, sem rekin hefur verið undanfarin ár, er búin að eyðileggja allan útflutninginn, og spurningin, sem fyrir liggur og svara verður, er því, hvernig við eigum að koma stoðum undir útflutninginn. Frá mínu sjónarmiði er um tvær leiðir að velja. Það er í fyrsta lagi sú leið, sem ég álít æskilegasta, samkv. stefnu minni í þjóðfélagsmálunum, að ríkisstjórn alþýðustéttanna hafi með útflutninginn og þessi mál að gera og reki þau með það sjónarmið fyrir augum að tryggja markaðina sem bezt fyrir okkar vörur. Sá möguleiki er nú ekki fyrir hendi, þar sem svo er ástatt, að harðvítugasta afturhaldsstjórn fer nú með völd á Íslandi og hefur gert nú undanfarin ár, og það ríkisvald hefur, blindandi eða vitandi vits, rekið sína verzlunarpólitík án nokkurs tillits til hagsmuna Íslendinga og eyðilagt þá markaði, sem við höfðum fyrir, eða horft á þá eyðileggjast af auðvaldskreppunni hjá engilsaxnesku þjóðunum, án þess að hafast nokkuð að. En ég ætla nú ekki að fara að ræða frekar þennan möguleika til breyttrar viðskiptastefnu með það fyrir augum að afla markaða fyrir afurðir okkar.

En það er til annar möguleiki, sem ég vil taka fram, að ekki er í samræmi við höfuðstefnu sósíalistískra flokka um þessi mál, en samt sem áður mundi vera til mikilla bóta miðað við þá einokun á verzluninni, sem undanfarið hefur verið rekin á Íslandi, og sá möguleiki er, að verzlunin verði gefin frjáls, að minnsta kosti að nokkru leyti frjáls. Með öðrum orðum, Íslendingum yrði gert mögulegt að selja út vörur sínar sjálfir og kaupa inn aftur þær vörur, sem að áliti fjárhagsráðs eru taldar nauðsynlegar. Ég álit, að sú stefna, sem rekin hefur verið í inn- og útflutningsmálunum, geti ekki gengið lengur, því að eins og fyrirkomulagið á þeim málum er nú, hafa þeir, sem flytja inn vörur, engan áhuga á því og engra hagsmuna að gæta, hvernig gjaldeyris fyrir þeim er aflað og hvort hann er til, og þaðan af síður dettur þeim til hugar að setja fé sitt í útflutningsframleiðsluna. Það er með öðrum orðum höggvið á hagsmunatengslin milli útflutnings- og innflutningsmálanna. Og þetta frv. tekur aðeins til annarrar hliðar þessa máls. Það miðar ekkert að því að vekja áhuga innflytjendanna á útflutningsrekstrinum, heldur aðeins af því að skipta innflutningnum. Ég hygg, að það horfi nú svo með okkar útflutning, að hann sé að hrynja í rústir. Það er ekki neinn framtíðarspádómur, heldur staðreyndin um það, sem er að gerast og gerist á næstu missirum. Gífurlega góð síldarvertíð í sumar gæti að vísu bjargað einhverju, en ef hún verður eins og undanfarin sumur, þá er hrun framundan. Ég býst við því, að það sé öllum þm. ljóst og ekki þurfi að taka fram, að hrun í útflutningnum þýðir skort eða hrun í innflutningnum og stöðvun í meiri hluta þeirra atvinnulegra framkvæmda, sem við þurfum nauðsynlega að gera til þess að koma í veg fyrir ægilegt neyðarástand. Nú efast ég ekki um, að þrátt fyrir þá kreppu, sem geisar víða erlendis í þeim viðskiptaheimi, sem við erum mest við tengdir, þá séu fyrir hendi mjög miklir möguleikar á því að útvega þar meiri markaði, ef unnið er að því af meira kappi, en hingað til hefur verið gert. Það kerfi, sem notað hefur verið til þess að útvega markaði, er ekki til þess hæft. Ég tel ekki, að utanríkisráðuneytið sé útbúið til þess að hafa þau mál á hendi. Það er ekki skipulagt til þess, og enda er ekki ætlazt til þess, hvorki af þeim, er því stjórna, né heldur hefur því verið ætlað það í upphafi. En hins vegar hefur allt framtak einstaklinganna til þess að afla markaða verið lamað algerlega af því skrifstofubákni, sem yfir þessum málum er haft. Það hefur verið lamað og útilokað, að hægt sé að afla markaða og hefja viðskipti á þann hátt, sem þau eru hugsanleg. Það eru svo að segja öll lönd, sem hafa við svipaðar aðstæður og við að búa í þessum efnum. Þau geta ekki selt vörur sínar, hvorki í Ameríku, Asíu né Evrópu. Þau geta ekki selt vöru sína á frjálsum markaði fyrir dollara eða sterlingspund, en þau geta ef til vill selt hana með vöruskiptaverzlun. Það er því engum efa bundið, að það er hægt að selja afurðir okkar og flytja inn vörur í staðinn, ef það er gert að mönnum, sem hafa brennandi áhuga á því. En nú er fyrirkomulagið þannig, að það er ekki hægt að framkvæma svona verzlun með öllu því skrifstofubákni og öllum þeim leyfum, sem nauðsynleg eru. Það er ekki hægt að framkvæma svona verzlun með svo svifaseinu skrifstofubákni, það hefur verið reynt, en það hefur allt kafnað undir apparatinu. Sérhagsmunirnir eru svo ríkir í fjárhagsráði og togstreitan er þar svo mikil, að það er til að kæfa allt. Það er hægt að kaupa til landsins fjöldann allan af vörutegundum, sem okkur vantar, og selja afurðir okkar í staðinn, sem við þurfum að losna við, en það er ekki gert með því fyrirkomulagi, sem nú er á þessum málum. Ég veit, að þá kunna einhverjir að spyrja, hvort við séum þá ekki að fara inn á þá braut, að þeir, sem flytji út afurðirnar á þennan hátt, flytji bara bíla og annan lúxus inn í landið til þess að selja svo á svörtum markaði á eftir, til þess að geta grætt sem mest á viðskiptunum. En ég álít, að það sé hægt fyrir Alþingi að útiloka svartan markað og innflutning á óþarfa varningi, og í till. minni á þskj. 566 er einmitt ákvæði um það efni, að Alþingi banni algerlega allan innflutning á slíkum vörum. Við eigum að segja: Við höfum ekki efni á því að flytja inn þessar vörur. — Og við eigum að banna innflutning á þeim. Ég tel að ástandið sé svo alvarlegt, að ef þjóðin segir, að við höfum ekki efni á því að flytja inn slíkar vörur, þó að einstakir menn hafi ef til vill efni á því, þá á Alþingi að banna innflutning á þeim, og það á engar undantekningar að gera á því, þó að einstaka menn hafi efni á því. Það á ekki að leyfa innflutning á neinu öðru en því, sem óhjákvæmilega er nauðsynlegt til daglegra þarfa, bygginga og atvinnuveganna, og hví þá ekki að gefa innflutning á þessu, sem óhjákvæmilegt verður talið, frjálsan við þá menn, sem geta selt út þær vörur, sem okkur vantar nú markaði fyrir? Ég álít, að ef þessu skrifstofufargani verður létt af, þá sé hægt með atorku þeirra manna, sem áhuga hafa á því, að afla nýrra markaða fyrir okkar vörur og fá inn í landið aftur þær vörur, sem okkur skortir. Og ég vil taka það fram, hvaða aðilar þetta eru. Það eru í fyrsta lagi útflytjendurnir, og ég vil taka það greinilega fram í því sambandi, að ég tel enga þörf á að láta undan þeim kröfum útflytjendanna, sem óvinsælastar eru meðal almennings í landinu, eins og kröfum þeirra um frílista. Það er vel hægt að selja þær vörur, sem í þeim flokki eru, gegn greiðslu í nauðsynlegum vörum Það er engin ástæða til þess að flytja inn tilbúinn fatnað, eins og mikið hefur verið gert, fyrir þennan gjaldeyri; það er vel hægt að kaupa inn vefnaðarvöruna sjálfa til landsins, ef möguleikar eru á því að vinna úr henni hér. Útflytjendurnir yrðu þá, að svo miklu leyti sem þeir hafa áhuga á sínum útflutningi, að flytja inn vörur, sem þörf er á og nauðsynlegar eru. — Í öðru lagi, ef svo er komið, þá er gefið, að S. Í. S. og kaupfélögin og heildsalarnir, sem hafa með innflutninginn að gera, mundu hafa áhuga fyrir því að kaupa útflutningsvörur til þess að selja þær í öllum löndum og til þess að reyna sem víðast að koma sér í slík verzlunarsambönd og vinna þannig upp markaði. Fyrst við erum að keppa við Norðmenn, þá verðum við að læra af þeim. Norðmenn og norskir fiskimenn vinna markaði í hverju einasta landi og reyna alls staðar að koma sinni vöru inn. Við skulum ekki ímynda okkur, að við getum barizt við þá á heim grundvelli einum að undirbjóða þá eins og nú er gert með fiskinn, þegar alltaf er verið að lækka verðið á okkar fiski, m. a. í Suðurlöndum, niður fyrir það verð, sem Norðmenn fá fyrir hann, því að það eru ósannindi, að við höfum ekki verið samkeppnisfærir. Hins vegar er verið að skapa aðstöðu til þess að undirbjóða Norðmenn í Suðurlöndum. Ég álít, að þessi firmu, sem hafa með innflutninginn áð gera, mundu fá áhuga fyrir því að útvega markaði fyrir íslenzkar vörur og vinna að því að koma þeim inn í öllum löndum, svo framarlega sem þessi firmu fengju innflutninginn með því skilyrði, að þeim tækist að útvega þessa markaði. Ég held þess vegna, að þeim mikla áhuga kaupsýslustéttarinnar, sem undanfarin ár hefur komið fram í því að hersitja Skólavörðustíg 12 í því skyni að fá gjaldeyrisleyfi hjá viðskiptan., væri bezt svarað með því að gefa þessum mönnum möguleika til þess að reyna að afla markaða. Í þessari till. minni, brtt. 566,2, er hins vegar gengið út frá því, að reynt sé að breyta einkaframtakinu í félagslegt framtak, þannig að verzlun og vöruskipti geti samrýmzt því skipulagi, sem við höfum nú, og það er eiginlega 2. málsgr., sem skýrir mína afstöðu. Þar geri ég ráð fyrir, að ef ríkisstj. gerir samning við önnur ríki um sölu ákveðinna vörutegunda þangað, þá sé henni heimilt að ákveða, að eigi megi bjóða til þess ríkis, selja þangað eða flytja þær vörutegundir, sem hún hefur samið um sölu á, nema að fengnu leyfi hennar. Að svo miklu leyti sem um er að ræða slíka verzlunarsamninga víð önnur lönd, t. d. Bretland, þá verður hægt áð halda því skipulagi, sem við höfum nú, og ríkisstj. eða það opinbera fær þá, þegar um frjálsan gjaldeyri er að ræða, þann gjaldeyri, sem þannig er skilað, til ráðstöfunar, og honum er þá skipt eftir þeim reglum, sem gilda í frv., sem hér liggur fyrir, og enn fremur gildir það um lönd, sem við höfum clearing-viðskipti við. Við skulum segja, að ríkisstj. hafi samninga við 10 lönd á þann hátt; þá gildir það fyrirkomulag um þetta takmarkaða svæði. Hins vegar um þau lönd, sem ríkisstj. hefur ekki verzlunarsamninga við, þar álít ég, að við þurfum að nýta allan þann áhuga, sem innflytjendur hafa fyrir því að útvega innflutning, til þess að útvega markaði í þessum löndum fyrir okkar afurðir. Það mundi vera með þessu móti tvenns konar kerfi hjá okkur, og ég held, að það sé vel hægt að koma slíku fyrir, og ég held það væri ekki sérstaklega erfitt að stjórna því. Aðalvandinn mundi vera að ákveða bannlistann á þeim vörum, sem ekki mætti flytja til landsins. — Hvað fengist nú með því að gefa þetta takmarkaða frjálsræði, sem gengið er út frá í minni till.? Það ynnist það í fyrsta lagi, að þeir, sem nú hafa mestan áhuga fyrir að afla sér gjaldeyris með því að ganga í skrokk á gjaldeyrisn., mundu fara að útvega okkur gjaldeyri sjálfir og fá leyfi til að flytja inn vörur, sem leyft er að flytja til landsins. Í öðru lagi mundi það gerast með þessu, að það skapaðist áhugi hjá innflytjendum að tryggja þannig saman hagsmuni í útflutningi og innflutningi. Þetta mundi þannig pína þá, sem hafa áhuga fyrir að fá gjaldeyri, til þess að vinna að því að hjálpa til að útvega þennan gjaldeyri. Þetta mundi þýða, að mikið af heildsölufyrirtækjum í Reykjavík og S. Í. S. mundu fá aukinn áhuga fyrir að setja sitt fé í útflutninginn, og þetta mundi þannig orka á það, sem nauðsynlegast er, að reka nokkuð af því fé, sem fast er í verzluninni, yfir í útflutningsframleiðsluna, og það mundi um leið knýja fram, að unnið væri miklu meira að útflutningi á þessu sviði. Það þykir kannske dálítið undarlegt, að ég skuli koma með þessa till. Það hefði sem sé eftir þeim yfirlýsingum, sem komið hafa fram frá þeim flokkum, sem skipa ríkisstj., Sjálfstfl. og Framsfl., verið eðlilegt, að þessir flokkar hefðu komið fram með svona till. Það hefur enginn flokkur talað eins mikið um frjálsa verzlun á Ís1andi eins og þeir flokkar. En af því að ég veit, að engin von er til þess að fá nú fram ríkisstj., sem með þjóðnýttri utanríkisverzlun mundi vinna að því að tryggja okkur markaði hvar sem það er hægt, þá ber ég fram þessa till., sem ég hefði ætlazt til, að þessir flokkar hefðu flutt til að rýmka þarna ofur lítið um innflutninginn og banna innflutning á þeim vörum, sem hægt er að komast af án. Ég álít, að einokunarskipulagið, sem nú er á verzluninni á Íslandi, sé meginorsökin að því hruni, sem nú er verið að þvinga yfir atvinnulífið, og mér finnst ákaflega hart, þegar menn horfa fram á hrun, ef það má ekki gefa landsbúum frjálsræði til þess að reyna að breyta verzluninni sjálfir í þessum efnum, þegar valdhafarnir geta ekki útvegað markaði og geta ekki skaffað vörur, sem við þurfum á að halda. Mér finnst það ákaflega hart, ef á að banna einstaklingum, félögum eða kaupmönnum að reyna að selja þessar vörur og kaupa nauðþurftir í staðinn. Ég vil minna á, að samvinnuhreyfingin hefur jafnra hagsmuna að gæta fyrir útflutningi sem innflutningi, og þegar dönsku selstöðuverzlanirnar réðu verzlun okkar lands, þá voru það samtök bænda í Suður-Þingeyjarsýslu, sem hófust handa um útflutning á sauðfé og seldu það til Englands og keyptu vörur frá Englandi í staðinn. Dönsku kaupmönnunum þótti þetta hart, að gengið væri þannig fram hjá hagsmunum móðurlandsins. Það, sem liggur fyrir okkur nú í sambandi við þá till., sem ég hef hér gert, er hvort Íslendingum nú á tímum skuli leyft það sama og þingeysku bændunum var leyft 1880, hvort Íslendingum skuli leyft að flytja út sínar útflutningsvörur og kaupa vörur fyrir í staðinn, án þess að þurfa að sækja til einokunarkaupmannanna í Reykjavík. Ég álít, að það sé alveg óverjandi, með þeim horfum framundan, sem nú eru, að neita mönnum um þennan rétt og banna mönnum að reyna að skipuleggja svona hluti. Ég álít, að þeir menn, sem banna Íslendingum að gera þetta nú, taki á sig ábyrgðina á því að horfa upp á þetta hrun. Annaðhvort verða menn að segja við þjóðina: Ég skal bjarga þessu, — eða menn verða að segja: Nú get ég ekki meira, þið verðið að bjarga ykkur sjálf. — Það er ekki hægt í senn að segja við þjóðina: Það er ekki hægt að bjarga, og þú mátt ekki hreyfa þig til að bjarga því sjálfur. — Ég veit, að það er hér við ramman reip að draga, það eru 10–20 ríkustu heildsalar landsins í Reykjavík og S. Í. S., sem skipta á milli sín innflutningnum til landsins. Það virðast vera svo sterkir þræðir á milli þessara tveggja samtaka, að það er eins og það eigi að tapast allir hagsmunir íslenzku þjóðarinnar í viðureigninni milli þessara tveggja aðila um það, hvernig þeir eigi að skipta milli sín innflutningnum. Ég álít alveg óverjandi að láta þetta ganga svona til. Ég álít, að Alþ. geti ekki verið þekkt fyrir að afgreiða þetta mál á þann hátt að segja: Nú skulum við skipta innflutningnum á milli ykkar, voldugustu heildsalanna og S. Í. S., en hvort það verður nokkur útflutningur eða ekki, varðar okkur ekkert um. — Að láta þessa aðila engan áhuga hafa fyrir útflutningnum og eiga allt sitt á þurru álít ég að geti ekki gengið. Þessu verður að breyta. Þess vegna legg ég ákaflega mikið upp úr því, að það verði hægt að samþ. brtt. 566,2. Ég vil taka það fram, að að svo miklu leyti sem hv. þm. kynnu, að sjá galla á framkvæmdinni eins og ég hef hugsað hana, þá er ég alveg reiðubúinn til samninga um þær lagfæringar, sem hugsanlegar væru, því að ég hef reynt að hugsa þessar till. þannig, að ef stjórnarvöldin framkvæmdu þær samvizkusamlega, þá væru ekki möguleikar á svartamarkaði. Ég skal viðurkenna, að til þess að framkvæma þetta verður að fara ákveðið í þennan bannlista, sem ég legg til. Ég er hræddur um, að við höfum ekki efni á að flytja inn nema það nauðsynlegasta, og þá dugir ekki að halda því ástandi að flytja inn óþarfar vörur, þó að mikið sé til af ríkum mönnum, sem óska eftir að kaupa þær. Ég er þess vegna, ef menn vildu fallast á aðalhugsunina, sem ég hef reynt að gera grein fyrir, en sjá annmarka á framkvæmdinni, reiðubúinn til þess að ræða um það og semja um það.

Varðandi frv., sem hér liggur fyrir frá hv. þm. V.-Húnv. o. fl., þá hefur áður komið fram svipað frv. um þetta efni. En það er aðallega eitt spursmál í þessu, sem ég skal strax gera grein fyrir, að ég hef aðra skoðun á en hv. flm. Það er viðvíkjandi skiptingu innflutningsins. Í frv. því, sem við þm. Sósfl. höfum flutt á þskj. 282, kemur fram, að við álítum að það eigi, að svo miklu leyti sem innflutningnum er skipt, að skipta honum til neytenda, og enn fremur á hann að fara til samvinnufélaga og kaupmanna. Það hefur oft verið komið með það og það var talað um það fyrir kosningar að afnema skömmtunina. En mig langar til að heyra í þeim þm. nú, sem vill halda því fram, að það, sem við blasi í okkar atvinnulífi, sé það, að engin þörf sé á skömmtun. Ég verð að segja, að ef einhver hugsar sem svo, að engin þörf sé á skömmtun, þá hlýtur hann að ganga út frá alveg gífurlegri fátækt hjá almenningi á næstunni og hverfandi litlu af vörum til landsins, eða réttara sagt, að það verði mikið til af vörum, en almenningur geti ekki keypt þær. Ég er hræddur um, ef það fer eins og mér lízt á, að við höfum ekki efni á að flytja inn meira af vörum, en við höfum gert, en við verðum að sjá um, að fólkið geti skipt þessum vörum á milli sín. Ef við höldum þannig áfram að flytja eins lítið inn og galdeyrisástæðurnar leyfa, en höfum ekkert skömmtunarkerfi, þá er ég hræddur um, að það fari fjarri því, að hér verði um eins konar skömmtun að ræða eftir þessu frv. Ef þjóðin hefur lítið, þá verðum við að reyna að skipta jafnt, þannig að þeir, sem hafa mikil efni, geti ekki hrifsað til sín allt, sem inn kemur. Þá held ég sé betra að skipta smærra í hvern stað, en láta ganga jafnt yfir. Ég held þess vegna, að það kerfi að úthluta til neytenda innflutningsleyfunum, sé gott kerfi meðan við búum við það ástand, sem nú er. Ég veit, að skömmtunarkerfið er leiðinlegt og misnotað og klaufalega framkvæmt, en það er til annað kerfi, sem er verra. Það er, ef fátæktin er svo mikil, að menn geta ekkert veitt sér, þegar ekki er flutt inn nema lítið, sem aldrei kemur til almennings vegna þess, að það hefur gufað upp á leiðinni. Ég hef þess vegna viðvíkjandi því, sem hv. þm. V-Húnv. leggur til um skiptinguna á stofnleyfunum í sambandi við innflutninginn, tilhneigingu til að gera þá breyt., að stofnleyfunum sé skipt milli samvinnufélaganna annars vegar og kaupmanna hins vegar. Ég skal þá benda á eitt atriði í sambandi við það, þegar stofnleyfunum er úthlutað. Þegar inn eru fluttar vörur, þá gilda þessi stofnleyfi eins og innflutningsleyfi í höndum þeirra aðila, sem þau fá, sem þýðir einokun. Ef svo og svo mikið af heildsölum fær þessi stofnleyfi, þá þýðir það, að þeir ráða, hvaða kaupmenn fá vörurnar frá þeim. Það þýðir, að heildsalarnir hafa líf þessara kaupmanna í hendi sér, verzlunarlega. Við vitum, að heildsalarnir hafa gert mikið að því undanfarið að reyna að ná sérstökum búðum á sitt vald og láta sérstaklega renna til þeirra búða, sem þeir eiga, enn fremur, að þeir ráða miklu í sambandi við verðlagsmálin, og hvernig er þetta viðvíkjandi skömmtunarskrifstofunni? Það er þannig, að það er enginn efi, að þetta kerfi, sem ætlunin er að leggja niður, skapar heildsölunum einokunarvald yfir smákaupmönnunum, og þetta er ófært. Við verðum, þegar við afgreiðum svona mál, að geta stuðlað að því, að smákaupmenn fái sinn rétt og möguleika gagnvart heildsölunum, að þeir hafi t. d. möguleika til þess að mynda samtök sín á milli um að kaupa sjálfir inn sínar vörur. Það er sannarlega í þágu almennings að skapa samkeppni á þessu sviði, að kaupmenn hafi sitt samband, ef það reynist betur. Eins er rétt að taka fram, að það eru líka til samvinnufélög utan við S. Í. S., og þau þurfa líka sinn rétt, það á ekki að ofurselja þau í hendur heildsalanna í Reykjavík. Ég kem þess vegna til með að koma fram með brtt. um þetta og kannske einhver fleiri atriði. Það getur farið eftir því, hvernig gengur með samninga um þetta mál.

Þá að síðustu örfá orð um fyrri partinn af brtt. 566, um það að gefa nokkuð frjálst viðvíkjandi byggingarstarfseminni, að það mætti án fjárfestingarleyfis byggja íbúðarhús, enda sé íbúðin ekki stærri en ákveðið er um verkamannabústaði. Ég held, að það væri óhætt að afnema skömmtun á byggingum á Íslandi, en setja í l., að það megi ekki byggja ákveðnar tegundir bygginga nema með sérstöku leyfi. Við skulum segja, að það væri bönnuð bygging þeirra íbúðarhúsa, sem eru yfir ákveðna stærð, enn fremur mætti banna byggingu ýmissa verzlunar- og skrifstofuhúsa, nema undir sérstökum kringumstæðum, og enn fremur viðvíkjandi verksmiðjuhúsum. Þá mætti einnig banna byggingu sumarhúsa, sem þyrfti nokkurt verulegt efni til. Þetta mætti banna með l., en gefa byggingar að öðru leyti frjálsar. Einokunarskipulagið gengur þannig yfir, að annars vegar er sagt við sjómenn úti á landi: Það er ekki til neins fyrir ykkur að framleiða fisk, þið fáið ekki leyfi til að selja hann, og þið fáið ekki leyfi til að kaupa vörur, og þið fáið ekki leyfi til að vinna sjálfir við byggingu húsa. Það er nú atvinnuleysi um allt land, fyrir utan Reykjavík og Hafnarfjörð. Á fjöldamörgum af þeim stöðum mundu menn geta skapað sér atvinnu með því að geta selt sjálfir eitthvað af sínum afurðum út úr landinu og komið sér síðan upp húsum, en hafa verið hindraðir í því vegna skriffinnskunnar hér í Reykjavík. Ég held sannarlega, að kreppa og annað slíkt sé nægilegt. Ég held, að það sé nógu erfitt fyrir menn að afla fjár til slíkra framkvæmda, þó að þeir þurfi ekki að vera að sækja um leyfi til alls konar nefnda hér, og það er óþolandi ástand að mega ekkert skera af nefndunum, hversu óþarfar sem þær annars eru. Það má telja afsakanlegt, þó að nokkrar hömlur væru settar á í þessum efnum meðan ótakmarkað fé var í umferð í landinu, en nú er ekki lengur um slíkt að ræða. Framferði fjárhagsráðs í úthlutun byggingarleyfa er óhæft. Byggingarleyfum fyrir s. l. ár var úthlutað í ágústmánuði, en leyfin ætti að sjálfsögðu að afgreiða árinu áður, svo að menn geti undirbúið sig í þessum efnum, byrjað bygginguna snemma vors og gert húsin fokheld fyrir veturinn og unnið svo að innréttingum að vetrinum, en með því móti að byrja svona seint á byggingunni verður bara vitleysa úr öllu saman og allt miklu dýrara og óhentugra. Í ár hefur ekkert leyfi enn verið afgreitt, og getur verið, að það verði ekki gert fyrr en í september eða hver veit hvenær, ef nokkur leyfi verða þá veitt í þessu skyni. Það þarf að miða þessa embættismenn á það, að þeir eru þjónar og mega ekki halda, að þeir séu herrar yfir öðrum þegnum þjóðarinnar, og það er kominn tími til að kippa hér í taumana. Ég tel þessi mál, bæði þetta og frv. um ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins, mjög þýðingarmikil mál. Mörgum kann að virðast, að hér sé um óskyld mál að ræða, en svo er ekki. Ég mun svo síðar koma með till. við einstakar greinar. Ég held því fram, að það sé hrein blekking og svik við alþýðuna í landinu að afgreiða þetta mál án þess að athuga það betur og eins með útflutningsverzlunina.