02.05.1950
Neðri deild: 94. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í C-deild Alþingistíðinda. (2881)

63. mál, fjárhagsráð

Ásgeir Ásgeirsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara langt út í efni þessa frv., en það er kunnugt frá síðasta þingi, að ég var sammála frv., sem hv. þm. Hafnf. (EmJ) flutti þá varðandi þessi mál, en það fjallaði m. a. um það, að úthlutun færi ekki öll fram samkvæmt kvótareglunni, heldur skyldi draga þar frá 1/4 heildarúthlutunarinnar. Síðan skyldi úthluta eftir innflutningi s. l. ár, en geyma nokkuð handa nýjum fyrirtækjum og gömlum fyrirtækjum, sem hefðu vaxið að umsetningu á árinu. Það, sem ég var á móti þá og er enn á móti, það er að gera það neyðarúrræði, sem skömmtunin er, að undirstöðu verzlunarinnar. Ef slíkt hefði verið gert fyrir einu eða tveimur árum, þá hefði ekki verið hægt að afnema skömmtun á kaffi og fleiri vörum nema með lögum. Ef afnema á skömmtun á sykri, sem ég tel, að hefði átt að vera búið að gera, þá mundi það raska þessum grundvelli. Ég vil ráðleggja þeim, sem vilja samkeppni í verzlun, að vera ekki alltaf í hámarki þess, sem leyfilegt er. Ef þeir gera það ekki, skapast samkeppni og þeir, sem hefðu lægst vöruverð, mundu fá aukin viðskipti og hlutdeild í auknum innflutningi. Í fjhn. er það svo, að n. hefur látið þetta frv. og önnur slík liggja, þangað til ríkisstj. er komin og hefur lýst yfir stefnu sinni í þessum málum. Allar ríkisstj. hafa samið um þessi mál, og nú er það svo, að öll hæstv. ríkisstj. hefur með þessi mál að gera, og ef menn vilja ekki una við það ástand, sem nú er í þessum efnum, þá verður að setja um það ný lög. Ég tek því ekkert mark á þessu frv., en bíð eftir stefnu hæstv. ríkisstj. í þessum efnum. — Viðvíkjandi frv. því, sem hv. þm. Hafnf. flutti hér á síðasta þingi, þá hefði þurft að taka það til athugunar í sambandi við lausn þessara mála. Ég sé því miður ekki hæstv. viðskmrh. hér í d., en ég undirstrika það, sem ég sagði áðan, að ég tel þetta frv. eins og það er tilkomið ekki svo þýðingarmikið, heldur sem eins konar aukaleik einstakra hv. þm. og að hæstv. ríkisstj. vilji bíða með þessi mál óbreytt, unz hún hefur undirbúið þau betur, og tel slíkt ekki óeðlilegt.

Ég vil svo mælast til þess við hæstv. forseta, að hann gefi hæstv. ríkisstj. tækifæri til að láta í ljós skoðun sína á þessum málum. Ég býst svo tæplega við, að ég hafi meiru við þetta að bæta, fyrr en ég hef heyrt stefnu hæstv. ríkisstj., sem lögum samkvæmt á öll um þetta mál að gera.