04.05.1950
Neðri deild: 95. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í C-deild Alþingistíðinda. (2884)

63. mál, fjárhagsráð

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég hef ekki fylgzt með umr. þeim, sem fram hafa farið um þetta merkilega mál, en ég get þó ekki stillt mig um, sökum fjarvistar hæstv. viðskmrh., að gera nokkra grein fyrir stefnu ríkisstj. í þessu máli, og verður það einkum út af því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði.

Svo tókst til í þeirri stjórn, sem hv. síðasti ræðumaður veitti forstöðu, að mjög óljóst var, hver stefna þeirrar stjórnar var í verzlunar- og viðskiptamálum. Ég minnist þess, að viðskmrh. þáverandi lagði áherzlu á það, að þrjár stefnur í viðskiptamálum hefðu verið uppi í stjórnartíð hans, og taldi hann þá til síns ágætis, að hann hefði sneitt mitt á milli öfganna í þeirri hæstv. ríkisstj., annars vegar á milli hv. 1. þm. S-M. (EystJ), núv. hæstv. fjmrh., og hv. þm. Mýr. (BÁ), en hins vegar á milli mín og hv. þm. Vestm. (JJós). Hann fann og til þessa ósamkomulags í þáv. hæstv. ríkisstj., þar sem hv. þm. Hafnf. var þá sjálfur viðskmrh. og varð að vinna þau störf, sem þar heyrðu til. Hann hafði þar ekki öll völd og gat því ekki framfylgt stefnu sinni, og þess vegna sagði hann, að það stefnuleysi væri ekki sín sök, heldur væri það vegna þess, að ósamkomulag væri í ríkisstj. um mál þessi. Þetta er ekkert launungarmál, enda fór svo að lokum, að upp úr slitnaði í stjórnarsamstarfinu, illu heilli. Var það fyrir frumhlaup framsóknarmanna, sem töldu sig ekki getað unað því að koma ekki sínu fram í fyrrv. stjórn, en stefna þeirra var mjög einhliða. Með þessa forsögu finnst mér það vera óviðeigandi fyrir hv. síðasta ræðumann að gera of mikið úr því, að ríkisstj. skuli ekki hafa lýst fyrir þingheimi stefnu sinni í viðskiptamálum. Í fyrrverandi samsteypustjórn voru þrjú sjónarmið um fyrirkomulag viðskiptamálanna, en nú eru þau í meginatriðum tvö, og hvort nú tekst að samræma þær skoðanir eða ekki, hlýtur fljótlega að koma í ljós. Ég get vel tekið undir það með hv. síðasta ræðumanni, að það væri mjög æskilegt og mjög eðlilegt, að þetta mál, sem hér er á dagskrá, lægi nokkru ljósar fyrir, áður en hv. þd. kveður upp sinn dóm yfir því, en forsendurnar, sem hv. þm. bar fyrir þeirri ósk, eru ósanngjarnar í garð núv. ríkisstj., enda er það ekkert launungarmál, að er núv. stjórn var mynduð, hafði ekki verið samið um þennan málaflokk. Hér er um mjög viðkvæmt mál að ræða, og mun ríkisstj. reyna að finna betri lausn þess, áður en Alþingi fellir sinn dóm. Að því mun verða unnið, og þess vegna vil ég taka undir þá beiðni, að hæstv. forseti fresti umr. og taki málið út af dagskránni.