06.05.1950
Neðri deild: 96. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í C-deild Alþingistíðinda. (2891)

63. mál, fjárhagsráð

Emil Jónsson:

Herra forseti. Ég vil nú fyrst leyfa mér að taka undir það, sem hæstv. viðskmrh. óskaði, að umr. verði ekki lokið í dag, heldur frestur veittur a. m. k. til mánudags til þess að koma fram með brtt., sem að nokkru leyti hafa verið boðaðar af hv. þm. V-Ísf. (ÁÁ) og að nokkru leyti af hv. 8. landsk. (StJSt), þegar hann ræddi um þetta mál, svo að ég vildi vona, að forseti sæi sér fært að ljúka ekki umr. í dag. en gefa frest til mánudags, svo að gengið yrði frá þessum brtt., sem verið er að undirbúa í sambandi við það, sem boðað hefur verið.

Að öðru leyti skal ég aðeins minnast með örfáum orðum á eitt eða tvö atriði í ræðu hæstv. viðskmrh. Honum þótti það nú í meira lagi óþarft að vera að spyrja um stefnu hæstv. ríkisstj. í þessu máli, þar sem vitað væri og ljóst og hefði lengi verið, hver stefna Sjálfstfl. væri í viðskiptamálum, nefnilega sú, að stefna að frjálsri verzlun, afnema höft og færa innflutninginn sem mest í það horf, sem hann var í áður en til þeirra laga var stofnað, sem hér væri verið að ræða um og áður hefði verið fylgt um innflutning og gjaldeyrismeðferð. Það er náttúrlega ekkert nýtt, og við vitum vel, hvað Sjálfstfl. hefur sagt, að sé hans stefna í málinu. En það spurðum við ekki um. Við spurðum um stefnu ríkisstj. í málinu, og það vantar, þó að ráðh. hafi skýrt okkur frá því, hvað hafi verið hin yfirlýsta stefna Sjálfstfl. Ef þeir aðilar, sem með þessi mál eiga að fara, koma sér ekki saman, þá er stefnulaust og leiðir að algeru öngþveiti. Hins vegar hlýtur stefnan í þessum málum sem öðrum að verða að byggjast á samkomulagi, þegar margir flokkar standa að ríkisstjórn og hver með sínar ákveðnu skoðanir. Hins vegar hef ég alltaf haldið fram, að framkvæmdin ætti að vera á einni hendi, enda viðkomandi um leið ábyrgur fyrir sínum gerðum. Þetta náðist ekki samkomulag um á meðan ég hafði með þessi mál að gera, heldur hafði ríkisstj. öll ákvörðunarvald, og tel ég það hafa verið mjög misráðið.

Hæstv. viðskmrh. sagði áðan, að höfuðástæðan fyrir því slæma ástandi, sem nú ríkir, væri gjaldeyrisskortur og um leið vöruskortur. Þetta er að sjálfsögðu að miklu leyti rétt, en þrátt fyrir það vill þessi hæstv. ráðh. afnema alla skömmtun. Af hverju var skömmtunin sett á? Var það ekki einmitt af vöruskorti? Hefur þá verið bætt úr þessum vöruskorti? Nei, sannarlega ekki, og þar af leiðandi hefur sennilega aldrei verið eins rík ástæða til að skammta og einmitt nú. Ef skömmtunin verður nú afnumin, án þess að frekari aðgerðir komi til, þrengist enn hagur almennings frá því, sem nú er í sambandi við vöruútvegun. Að vísu má segja, að þær vörur, sem inn verða fluttar, lendi einhvers staðar, en þá verður klíkuskapurinn enn meiri í sambandi við úthlutunina, en nú er, þó að sízt sé á það bætandi. Afleiðingin hlýtur að verða sú, að þeir, sem hafa hin svokölluðu góðu sambönd, fá allar vörur, sem inn verða fluttar, en aðrir ekkert. Ég get fúslega viðurkennt, að margir gallar eru á núverandi skömmtunarfyrirkomulagi, en meginástæðan fyrir þeim göllum er sú, að meira hefur verið gefið út af skömmtunarseðlum, en flutt hefur verið til landsins af vörum, og ég get játað, að mér tókst ekki að kippa þessu í lag á meðan ég hafði með þessi mál að gera, en það var ekki mér eða mínum flokki að kenna. Á síðasta Alþingi flutti ég frv. um breytingu á þessum málum og tel tvímælalaust, að það frv., ef að lögum hefði orðið, hefði bætt mikið úr því öngþveiti, sem nú ríkir, en frv. náði ekki samþykki. Aðalatriði þessa frv. var meðal annars það, að flutt yrði inn meira magn af vörum, en útgefnir skömmtunarseðlar næmu, og þó að þetta sé ef til vill aðeins framkvæmdaratriði, þá hefur þetta ekki fengizt samþykkt, og má tvímæla1aust kenna því um, að framkvæmd þessara mála er ekki í höndum neins ábyrgs aðila. Ég ætla ekki að lýsa hér neinu sérstöku trausti á hæstv. viðskmrh., en þó vil ég óhikað heldur leggja framkvæmd þessara mála í hans hendur, en una við það ástand, sem nú ríkir. Ég tel að sá ráðh., sem með viðskiptamálin fer á hverjum tíma, eigi að hafa framkvæmd þessara mála í sínum höndum og ekki að þurfa að sækja undir neinar nefndir eða ráð eða aðra ráðh. stjórnarinnar. Það er áreiðanlega mjög óheppileg ráðstöfun að láta atkvgr. í nefnd eða ríkisstj. ráða úrslitum, þar sem oft ráða pólitískir duttlungar, og svo er enginn ábyrgur, þegar til þess kemur. Í tilefni af þessu er ein brtt., sem við berum fram við þetta frv., sú, að stjórn þessara mála verði hjá viðskmrh. og einungis stærstu atriðin, eins og innflutningsáætlun, heyri undir ríkisstj. í heild. Þetta ásamt fullkomnu samræmi milli innflutnings og útgefinna skömmtunarseðla teljum við, að geti bætt mikið úr því ófremdarástandi, sem nú ríkir. Hins vegar erum við Alþýðuflokksmenn þeirrar skoðunar, að ekkert vit sé í að afnema skömmtunina á meðan ekki er hægt að auka innflutninginn verulega frá því, sem nú er. — í þriðja lagi leggjum við áherzlu á, að innflutningnum verði ekki skipt eingöngu prósentvís milli innflytjenda, heldur verði þeir látnir sitja fyrir innflutningsleyfum, sem bezt innkaup gera, bæði hvað verð og vörugæði snertir. Hins vegar vil ég taka það greinilega fram, að stefna okkar Alþýðuflokksmanna í verzlunarmálunum er allt önnur, ef út í það er farið. En við teljum vonlaust að koma þeirri stefnu okkar fram, eins og nú standa sakir, og þess vegna berum við fram þessar till. sem eins konar málamiðlun og tilraun til að fá það út úr þessu máli, sem bezt er af því, sem mögulegt er að fá samkomulag um. Aftur á móti tel ég frv., eins og það liggur fyrir, stórgallað og að það muni ekki óbreytt ná þeim árangri, sem stefnt er að.