11.05.1950
Neðri deild: 99. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í C-deild Alþingistíðinda. (2904)

63. mál, fjárhagsráð

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja brtt. á þskj. 709, í 2 liðum, við frv. eins og það er nú. Í fyrsta lagi við 4. gr. b, að umorða þann lið, vegna þess að mér skilst, að eins og liðurinn er í frv., þá sé hann dálítið erfiður í framkvæmd. Þegar sagt er, að skipta skuli milli kaupstaða og sýslufélaga í réttu hlutfalli við tölu skráðra bifreiða í hverju umdæmi, þá yrði skiptingin tæplega réttlát, ef farið væri bókstaflega eftir þessu, vegna þess að það er svo misjafnt, hvað bifreiðar þurfa af varahlutum og gúmmíi, eftir því í hvaða atvinnu þær eru. Langferðabifreiðar, sem keyrðar eru með þungum hlössum allt árið, þurfa miklu meira af gúmmíi og varahlutum en bifreiðar, sem eru allan ársins tíma á sléttum götum í bæjum. Með þeirri breyt., sem ég hef gert á þessum lið frv., þá ætlast ég til, að það verði hægt að uppfylla á réttlátan hátt kröfur hinna ýmsu aðila, sem slíta bifreiðum sínum meira en t. d. í meðallagi, og hef ég því lagt til að umorða liðinn þannig, að varahlutum til bifreiða og bifreiðagúmmíi skuli skipta milli viðgerðarverkstæða með hliðsjón af tölu skráðra bifreiða í umdæminu og stærð og afkastagetu verkstæðanna. Ég held, ef liðurinn yrði samþ. þannig, að þá væri hægt að uppfylla, eftir því sem við verður komið, óskir og þarfir þeirra, sem við bifreiðaakstur fást.

Þá hef ég leyft mér að leggja til, að aftan við sömu gr. frv. bætist, að innflytjendum sé skylt að afgreiða til smásöluverzlana byggingarefni í hlutfalli við fengin fjárfestingarleyfi og að fjárhagsráð skuli miða fjárfestingarleyfin við það efnismagn, sem flutt er til landsins, þannig að tryggt sé að þeir, sem fjárfestingarleyfi hafa fengið, fái nægilegt efni til framkvæmdanna, en á því hefur oft verið misbrestur, eins og flestum er kunnugt, og því ekki ástæðulaust að setja þetta inn í l. Enn fremur, að því byggingarefni, sem ætlað er til viðhalds mannvirkja og framkvæmda, sem ekki þarf fjárfestingarleyfi fyrir, skuli úthluta til verzlana eftir skýrslum byggingarfulltrúa í bæjum og oddvita í sveitum. Það er nú svo, að ýmsar smásöluverzlanir hafa fengið lítils háttar byggingarefnaleyfi, og þó að þessi liður væri samþ., þá breytir það ekki neinu. Hitt er þó algengara, að hinar stærri byggingarvöruverzlanir fái leyfi og þær úthluti svo aftur til smásöluverzlana, sem annast aðdrætti fyrir einstaklinga á þessum vörum. Það hefur verið á ýmsum byggingarvörum tvenns konar álagning, í fyrsta lagi heildsöluálagning og í öðru lagi smásöluálagning. Þó að ég leggi ekki til í þessari till., að þetta verði skilgreint nánar eftirleiðis, en verið hefur, þá vænti ég, að svo megi verða, enda er það á valdi verðlagseftirlitsins að gera það. Ég held, að ef þessu væri bætt inn í l., þá gæti það orðið til bóta frá því, sem er, og geri þetta greinilegra en oft hefur áður verið. Það virðist ástæða til, eftir þeirri reynslu sem við höfum fengið, að það sé skýrt fram tekið í l., að fjárfestingarleyfi séu miðuð við það efni, sem á hverjum tíma er flutt inn. Það er vitaskuld alveg gagnslaust fyrir menn að hafa fjárfestingarleyfi í höndunum og geta svo ekki fengið efni til framkvæmdanna. Menn byrja á framkvæmdum og stöðvast svo, þannig að þeir hafa bundið fé í þessum framkvæmdum árum saman, vegna þess að það fæst ekki efni til þeirra, án þess að geta fengið þessar framkvæmdir í not.

Ég vænti þess, þó að þetta frv. sé að sumra áliti harla gott, að menn geti þó verið sammála um, að það megi bæta það með þeim till., sem ég legg hér fram, og vænti ég þess, að þær verði samþykktar.