11.05.1950
Neðri deild: 99. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í C-deild Alþingistíðinda. (2906)

63. mál, fjárhagsráð

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af ræðu hv. þm. V-Húnv. (SkG). Um það, sem hann sagði um byggingarefni, að eftir brtt. minni væri því slegið föstu, að það ætti bæði að fara gegnum hendur heildsala og smásala, þá er þetta ekki rétt, því að í 4. gr. frv. eru smásalar ekki útilokaðir frá því að fá innflutningsleyfi. Þetta, sem ég legg til að bætist við, á við það, að þegar smásali hefur ekki innflutningsleyfi, þá kaupi hann byggingarefnið af heildsala, og oftar mun svo vera, en brtt. mín breytir engu um möguleika smásala til þess að kaupa byggingarefni beint utanlands frá. — Um hinn liðinn, ef hann verður umorðaður, þá verða lögin skýrari og léttari í framkvæmd. Það er ekki venja, að bifreiðaeigendur fái innflutningsleyfi fyrir gúmmíum og varahlutum, enda eykur það einungis á skriffinnskuna, ef svo er. Eðlilegra er, að viðgerðarverkstæðin, sem til eru nálega í hverju héraði, fái þessi innflutningsleyfi, og þar sem sagt er, að leyfin skuli veitt með hliðsjón af bifreiðatölu héraða og afkastagetu verkstæða, þá er unnt að fara eftir óskum bifreiðaeigenda, því að það verður að sækja um þessi leyfi, og þá er hægt að láta fylgja umsóknum skriflegar óskir bifreiðaeigenda um það, hverjum þeir vilja fela að annast innflutninginn fyrir sig. Það verður því mun hægara að uppfylla kröfur bifreiðaeigenda, ef till mín er samþ., því að þeir eru sjálfráðir í því, að hvaða verkstæði þeir snúa sér með viðgerðir. Ég er því viss um, að hv. þm. V-Húnv. sannfærist um það, að málið verður betra í framkvæmd, ef mín brtt. er samþykkt.