06.05.1950
Neðri deild: 96. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í C-deild Alþingistíðinda. (2923)

65. mál, jeppabifreiðar

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég ætla aðeins að segja örfá orð.

Það er ástæða fyrir því, að frv. þetta var borið fram. Legg ég til, að það verði samþ. Tel ég rétt, að settar verði reglur um úthlutun heimilisdráttarvéla, eins og settar voru reglur um úthlutun jeppabifreiða, sem ráð var fyrir gert, að fluttar yrðu inn á s. l. ári. Hitt er annað mál, sem ég vil benda á, og tek ég þar undir ummæli hv. þm. A-Húnv. (JPálm), að Alþ. gerir sig hlægilegt og er sér til skammar í jeppamálunum, þar sem áætlað var að flytja inn 600 jeppa og sett l. um úthlutun þeirra, en enginn þeirra hefur komið. Nú er útlit fyrir, að engar dráttarvélar verði fluttar inn. Lítur út fyrir, að bændur eigi að láta sér nægja reglur og l. um þetta, og þannig verður að ætla, að ástandið verði í verzlunarmálunum almennt.

Þetta vil ég benda á, þótt ég sjái eigi ástæðu til að vera á móti frv., þótt svo færi, að Marshallfé yrði notað til þessa, og tel rétt að setja reglur um úthlutunina, eftir upplýsingum um dráttarvélarnar á s. l. ári.