09.01.1950
Neðri deild: 24. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í C-deild Alþingistíðinda. (2952)

74. mál, verkamannabústaðir

Flm. Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Eitt af mestu vandamálum hvers þjóðfélags er að tryggja þegnum sínum sæmilegt og viðunandi húsnæði. Á þessu hefur hin síðari ár orðið mikill misbrestur hér á landi, ekki sízt vegna þess, að fólkið hefur með breyttum atvinnuháttum flutt úr sveitum landsins til kaupstaða og sjávarborga. Þegar svo þessir flutningar hafa farið fram samhliða auknum vandkvæðum á gjaldeyri til kaupa á byggingarefni, svo og auknum vandkvæðum á að afla fjár til bygginga innanlands, hefur þetta orðið ein af verstu meinsemdum þjóðfélagsins. Ég er ekki í nokkrum vafa um, að þótt nauðsynlegt og sjálfsagt sé að byggja sjúkrahús, þá sé það ef til vill enn nauðsynlegra að tryggja öllum þegnum þjóðfélagsins viðunandi húsnæði. Geysimikill áfangi á þessari leið var farinn, er lögin um verkamannabústaði voru fyrst samþ. fyrir um það bil tveim tugum ára. Þó hefur ekki verið hægt fyrir almenning að notfæra sér það sem skyldi sökum skorts á nægilegu lánsfé. Sú reynsla hefur þó fengizt af þessum íbúðum, að ekki er nokkrum vafa undirorpið, að þetta húsnæði og íbúðir, sem reistar hafá verið í skjóli fyrrnefndra laga, hafa reynzt bezt hagkvæmast og ódýrast og bezt við hæfi þeirra manna, sem ekki geta af eigin rammleik byggt sjálfir. Það má því segja, af þeirri reynslu, sem þegar er fengin og áður er greint, að þetta hefur reynzt hagkvæmasta byggingarformið, ekki undanskildar samvinnubyggingarnar, sem nokkur dæmi eru fyrir að hafi verið misnotaðar í gróðabrallsskyni nú á seinni árum. Aftur á móti eru engin dæmi um slíkt hvað viðvíkur verkamannabústöðum, enda byggt með ströngu lagaákvæði. Þegar þetta er haft í huga, er það ekki nokkrum vafa bundið, að mest aðkallandi í þessum málum er meiri aðstoð almannavaldsins við þá, sem notfæra vilja sér ákvæði verkamannabústaðalaganna. En alvarlegasti þrándur í götu þeirra er skorturinn á lánsfé.

1948 gaf byggingarsjóðurinn í samráði við þáv. hæstv. ríkisstj. út lánsskuldabréf að upphæð 5 millj. kr. En ekki reyndist kleift að selja nema um helming bréfanna, eða fyrir um 2,2 millj. Þó gegnir stórfurðu, hve mikið hefur verið byggt í skjóli þessara laga, en auðvitað hefur það ekki nægt til þess að fyrirbyggja húsnæðisvandræðin. Við höfum séð rísa heil hverfi af fallegum húsum, villum og sambyggingum, en ég ætla þó, að þau hús séu ekki eins hagkvæm og skyldi, en það nauðsynlegasta fyrir okkur er að fá mikið af hentugum, ódýrum og hagkvæmum byggingum til almenningsnota.

Ég veit að vísu, og Alþfl. er það ljóst, að nú verður að stinga við fæti hvað fjárfestingu og byggingar snertir. En ekki verður hjá því komizt að styðja byggingu hagkvæmra íbúðarhúsa til þess að leysa úr hinu alvarlega húsnæðisvandamáli. Eins og ég álít sjálfsagt og fjárhagsráði skylt að draga mjög úr byggingu stórhýsa, þá tel ég óhjákvæmilegt og sjálfsagt að byggja hentugar íbúðir fyrir alþýðumenn í kaupstöðum og kauptúnum. Af þessari nauðsyn er þetta mál flutt. Hér er ekki um að ræða neinar breytingar frá því, sem er í verkamannabústaðalögunum, heldur nánast aðeins viðauka til tryggingar, að nægilegt fé fáist til byggingarframkvæmda næstu fjögur árin. Það er tekið fram í 1. gr. frv., að hæstv. ríkisstj. eigi að tryggja sölu á skuldabréfunum næstu fjögur árin, þannig að ákveðin upphæð, sem þar greinir, verði til í sjóðnum til árlegra útlána. Miðað er við, af fyrri reynslu, að hægt verði að reisa 200 íbúðir víðs vegar um landið á ári hverju, ef þetta frv. yrði samþ. Í næstu gr. er hins vegar lagt til, hvernig eigi að framkvæma þetta, og það er með því móti að skylda vissar stofnanir, sem samkvæmt starfsemi sinni, reglum og eðli málsins verða að ávaxta varasjóði sína og geymslufé í tryggu verðmæti, þessir sjóðir skuli vera skyldaðir til að kaupa fyrir visst magn skuldabréf byggingarsjóðs verkamanna. Eins og kunnugt er, þá njóta þessi lán, samkv. l. um verkamannabústaði, ábyrgðar ríkisins. Í 3. gr. frv. er einnig gert ráð fyrir því, að ríkisstj. leiti samkomulags um það við banka og aðrar peningastofnanir, og er þar átt við sparisjóði; að þeir kaupi fyrir visst fjármagn á ári skuldabréf byggingarsjóðsins. Að lokum er svo sagt til í 4. gr. frv., að ríkissjóður kaupi skuldabréfin, sem um ræðir í 1. gr., fyrir 3 millj. kr. árlega, og er það til nokkurs samræmis við löggjöf, sem sett hefur verið með l. nr. 35 frá 1946, um nýbyggingu og endurbyggingu í sveitum, þar sem gert er ráð fyrir, að ríkissjóður leggi árlega fram 2½ millj. kr. auk upphaflega fjármagnsins til þess að stofna þessa byggingarsjóði, sem standa eiga undir framkvæmdum við að reisa hús í sveitum landsins.

Ég álít, að mál þetta, eins og það er fram sett, sé bæði mjög mikið nauðsynjamál, og eins, að hér sé um raunhæfar till. að ræða, sem hægt sé að framkvæma, ef vilji er til þess. Það er bent á það í grg., að ýmis tryggingafélög og fyrirtæki, sem helzt er gert ráð fyrir að verði skylduð til þess að kaupa skuldabréf byggingarsjóðs verkamanna, hafi á árinu 1948 varið samtals 37,5 millj. kr. til skuldabréfakaupa. Nú yrði það ekki nema hluti af þessum 14 millj. kr., sem nást árlega, sem þessi tryggingafélög þyrftu að kaupa, og sýnist það ekki óeðlilegt, miðað við það, sem þessi félög og fyrirtæki árlega verja í sína varasjóði til þess að kaupa trygg og örugg skuldabréf. Ég held það verði aldrei hægt að koma á þeim endurbótum, sem að nokkru verulegu gagni yrðu í þessum málum, með öðru móti, en að fara inn á einhverjar slíkar leiðir og hér er lagt til. Húsnæðisvandamálið er eitt af erfiðustu viðfangsefnum þjóðfélagsins. Húsnæðisskortur og slæmt húsnæði skapa vandkvæði fyrir fjölda fólks. Og þessi vandkvæði skapast ekki einungis á þann hátt, að fólkið er neytt til að búa í heilsuspillandi íbúðum, heldur er einnig haldið uppi húsaleiguokri í skjóli þeirrar miskunnarlausu reglu, að framboð á húsnæði er miklu minna en eftirspurnin, eða réttara sagt, eftirspurnin er svo langtum meiri en framboðið, að þeir, sem ráða yfir húsnæði, taka í mörgum tilfellum fyrir það okurleigu. Ég mæli sízt af öllu á móti því, að eftirlit sé haft með húsaleigu og reynt að halda henni í skefjum, eftir því sem unnt er, en ég hygg, að það verði alltaf örðugt í framkvæmd með öðru móti en því, að hægt sé smám saman að koma upp svo miklu og hagkvæmu húsnæði, að hlutföllin milli eftirspurnar og framboðs verði ekki eins öfug og verið hefur. Það er hægt fyrir þá menn, sem það vilja, að fara bak við l., og tilhneiging manna til þess er því miður ærið rík. Úr því verður ekki bætt til fulls, hversu skelegg löggjöf sem sett verður um eftirlit með húsaleigu, ef ekki er farið inn á aðrar leiðir: Þær leiðir álít ég skynsamlegastar og öruggastar að vinna að því, að aukið sé hentugt og ódýrt húsnæði. Með því er verið að kippa fótunum undan spekúlationsmöguleikum, sem verða mörgum alþýðumanni til mjög mikils tjóns.

Ég hygg, að ég þurfi ekki að hafa þessi almennu orð mín fleiri um þetta frv., sem hér liggur fyrir, en ég vildi mega vænta þess, eftir því sem heyrzt hefur frá öllum stjórnmálafl:, bæði í blöðum og kosningabaráttunni, að menn vildu taka höndum saman og gera eitthvað, sem að verulegu gagni gæti orðið til þess að bæta úr húsnæðisvandræðunum. Að mínu viti er þetta skynsamleg, réttlát og raunhæf leið, sem hér er lagt til að farin verði. Ég tel rétt, að þetta frv. fari til fjhn., og vænti þess, að því verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr.