09.01.1950
Neðri deild: 24. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í C-deild Alþingistíðinda. (2953)

74. mál, verkamannabústaðir

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég viðurkenni það fyllilega og er sammála síðasta ræðumanni um það, að það er mikil nauðsyn á því, að við getum byggt yfir það fólk, sem stendur höllustum fæti að geta byggt yfir sig sjálft. En þrátt fyrir þessa nauðsyn er jafnframt nauðsynlegt, að þetta sé gert á þeim grundvelli, sem okkar fjárhagsástæður leyfa. Ég ætla ekki að ræða mikið um þetta frv. á þessu stigi málsins, en mun gera það seinna. Ég vil einungis benda á það, að l. nr. 44 frá 1946, sem vafalaust áttu á sinni tíð að vera stórt skref í áttina til þess að bæta úr þörf þessara mála, þau eru þannig úr garði gerð hvað samvinnufélögin snertir, að gert er ráð fyrir, að ríkissjóður ábyrgist 85% af byggingarverði húsanna. Þetta er náttúrlega óhæfilega há tryggingarfjárhæð, sem ríkissjóður á hér að taka ábyrgð á. Þetta hefur orðið til þess, að svo mikil eftirspurn hefur orðið eftir ríkisábyrgð í þessar framkvæmdir, að sú ábyrgð hefur hækkað um tugi milljóna á síðustu tveimur árum, eins og mönnum er kunnugt. Og vegna þess, hversu ríkissjóður hefur tekið miklar ábyrgðir á þessum lánum — eftirspurnin hefur, eins og ég sagði, verið gífurleg —, þá má svo heita, að búið sé, eftir því sem ég get gert mér ljósast, að þurrka upp mest af þeim opinberu sjóðum, sem tiltækilegir eru til slíkra útlána. Við megum gæta þess, að þótt þörfin sé mikil annars vegar að koma upp húsum, þá má heldur ekki setja löggjöf, sem í raun og veru leggur svo mikinn þunga á lánaútvegun frá því opinbera, með þeirri beztu tryggingu, sem við höfum að bjóða, sem er ríkissjóðstrygging, að við getum ekki staðið undir honum. Annað kemur líka hér til greina, að nú er ríkistrygging handbær fyrir þessa menn, en þeir fá ekki lán út á hana lengur. Það eru ekki lengur til aðilar í þessu landi, sem geta eða vilja lána fé út á þessi skuldabréf, þó að ríkistrygging sé bak við þau, og það af þeirri einföldu ástæðu, að peningar eru ekki til. Þetta er enginn barlómur, heldur hreinn veruleiki. Nú er sjálfsagt fyrir þá n., sem fær þetta mál til meðferðar, að athuga það frá öllum hliðum, en það verður líka að athuga, hvað getan leyfir í þessum efnum. Svo vil ég líka benda á 4. gr. frv., þar sem segir, að ríkissjóður skuli kaupa skuldabréf þau, sem um ræðir í 1. gr., fyrir 3 millj. kr. árlega á árunum 1950–53. Við þessu er náttúrlega ekkert að segja, en slíkar fjárhæðir verða vitanlega að koma inn í fjárl. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir, að ríkissjóður kaupi skuldabréf, eins og nú standa sakir, án þess að taka það af því fé, sem hann hefur handbært á hverju ári. Annars þyrfti hann að lána út á þessi skuldabréf og stofna sjálfur lán í bönkum eða einhverjum öðrum stofnunum, sem hafa handbæra peninga. — Ég mun ekki ræða um þetta nánar að sinni, en ætla að ræða nánar um þessa hlið málsins, sem ég hef nú gert að umræðuefni, þegar málið kemur úr n.