10.01.1950
Neðri deild: 25. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í B-deild Alþingistíðinda. (296)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Í sambandi við brtt. á þskj. 176 vil ég aðeins geta þess, að þetta er í framhaldi af því, sem ég sagði, þegar málið var síðast til umr., og ég hef komið hér með brtt., sem er, eins og hv. frsm. n. tók fram, leiðrétting á því, sem áður var komið og hefur áður verið rætt, og sé ég því ekki ástæðu til að hafa um það fleiri orð. Ég tel, eins og sakir standa nú, að þá sé þetta eins nærri sanni og hægt er, en alltaf hlýtur þetta að vera áætlunartala. Út af þeim brtt., sem fram hafa komið, þá virðist mér það liggja fyrir, að tveir flokkar, Alþfl. og Sósfl., leggi til, að 12. og 14. gr. verði felldar niður, m.ö.o., að það sé aðeins tekin ábyrgð á fiskverðinu til 1. marz og lengur ekki. Hins vegar virðist það koma fram af afstöðu fulltrúa Framsfl., að hann vilji halda ábyrgð ríkissjóðs til 15. maí, sem hefur verið talin 42 millj. kr., án þess að nokkur tekjuöflun komi þar á móti, nema það litla, sem gert er ráð fyrir í 3. kafla dýrtíðarl. Þetta er að vísu ekki fram komið enn, en hlýtur að skýrast við afgreiðslu málsins í d. Afstaða þeirra tveggja flokka, sem ég nefndi fyrst, er sú, að þeir vilja samþykkja ábyrgðina til 1. marz og gefa yfirlýsingu um áframhald, og þá á útvegurinn það undir Alþ., hvort hann fær nokkra ábyrgð á áframhaldandi rekstri, ef heildarlausn um afgreiðslu málsins hefur ekki fengizt fyrir þann tíma. Þetta er afstaða, sem ég viðurkenni, að megi deila um. Framsfl. vill hins vegar láta ríkissjóð taka á sig ábyrgðina til vertíðarloka, án þess að nokkrar tekjur komi þar á móti og án þess að nokkur viti á þessari stundu, hvort og hvernig eigi að afla tekna til þess að standa undir þessari ábyrgð, ef hún á að halda áfram til 15. maí. Mig furðar mjög mikið á þessari afstöðu Framsfl., ef það kemur í ljós, að hún verður eins og ég nú hef lýst. Mig furðar sérstaklega á því, vegna þess að enginn annar flokkur hefur frekar en þessi valið mönnum heiti sem óábyrgum mönnum, ef þeir hafa afgreitt mál, þó að það hafi verið á minna óábyrgan hátt, en hér er um að ræða. Ég sé ekki aðra ráðningu í þessu en þá, að flokkurinn sé staðráðinn í því, að fyrir 1. marz veiti hann Sjálfstfl. fylgi til þess að koma fram till. til frambúðarlausnar á þeim vandamálum, sem hér um ræðir, og er þá náttúrlega allt öðru máli að gegna um afstöðu flokksins.

Í sambandi við brtt. á þskj. 180 vil ég benda á það, að ef framlengingin á III. kafla dýrtíðarl. nær ekki lengra en til 1. marz, þá er sýnilegt, að tekjur af þeim lið verða ekki svo miklar í þessa tvo mánuði, að þær hrökkvi til að standa undir þeim minnstu gjöldum, sem óhjákvæmilega hljóta að verða á þessu tímabili. Þá verður Alþ. að framlengja þessa tekjuöflun eða gera ráðstafanir til að afla fjár á annan hátt til að standa straum af þeim útgjöldum, sem þarna koma til greina. Þess vegna hefði mér fundizt eðlilegt að hafa þetta eins og það er í frv., að framlengja tekjuliðina til ársloka, en taka þá til endurskoðunar 1. marz, þegar vitað er, hvernig með þessi mál verður farið, hve miklu ríkissjóður þarf að standa skil á vegna ábyrgðarinnar, og þá mætti láta tekjuliðina gilda þann tíma, sem ætla mætti, að þeir þyrftu að gilda til þess að afla þess fjár. — Að öðru leyti mun ég ekki ræða þetta mál frekar, þangað til séð verður, hvernig frá frv. verður gengið í deildinni.