20.03.1950
Neðri deild: 71. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í C-deild Alþingistíðinda. (2978)

85. mál, eyðing refa og minka

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Ég skal ekki vera margorður um það frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 172, en ég get tekið undir það með hv. frsm. minni hl., 2. þm. Skagf., er hann sagði í ræðu sinni, að bann við minkaeldi, þótt að lögum yrði, mundi lítið færa okkur nær því marki að útrýma villiminkunum. Það, sem drepið hefur verið á undanförnum árum af villiminkum, hefur eingöngu verið af eldri stofninum, sem er ljósbrúnn. Nú hafa hin fáu minkabú, sem enn eru til, eignazt mjög góðan og dýran stofn frá Kanada, og eru dýrin af þeim stofni dökk að lit. Ekki einn einasti dökkur villiminkur hefur verið drepinn undanfarin ár svo ég viti til, heldur eingöngu ljósbrún dýr, og er það sönnun þess, að engin brögð eru nú að því, að dýrin sleppi úr búrum.

Ég held, að það sé m. a. af þessum sökum ekki áhorfsmál, að þetta frv. eigi að fá svipaða afgreiðslu nú og á undanförnum þingum, og beri að fella það. Þeim, sem enn hafa sýnt þann dugnað að halda alistofninum við og hafa trú á, að það geti svarað kostnaði, þótt treglega hafi gengið um skeið með þennan atvinnuveg, — þeir eiga það ekki skilið af löggjafans hálfu, að tekin sé sú ákvörðun að láta þá, eftir margra ára stríð og hallarekstur, missa þann góða stofn, er þeir hafa nú eignazt auk þess sem sú ráðstöfun mun kosta ríkissjóð allmikið fé í erlendum gjaldeyri.

Ég er því mótfallinn því, að sú grein frv., er um þetta fjallar, nái samþykki.