10.01.1950
Neðri deild: 25. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í B-deild Alþingistíðinda. (298)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Hv. 1. þm. S–M. (EystJ) vildi halda því fram, sem einhverjir aðrir hv. þm. héldu fram, að það væru til nógir peningar, án þess að lagðir væru á nýir skattar. Þetta er bara tilraun til sjónhverfinga og á sér ekki stað í veruleikanum, eins og hann veit líka sjálfur. Söluskatturinn, sem nú hefur verið tekinn inn í fjárlfrv., var einn af aðaltekjustofnunum fyrir dýrtíðarráðstafanirnar. Þessi upphaflegi söluskattur gengur til að greiða niður innlendar afurðir, eins og gert er ráð fyrir í fjárlfrv. Hins vegar er ekki í fjárlfrv. gert ráð fyrir neinni fjárhæð til að standa undir fiskábyrgðinni. Munurinn, sem kemur fram á þessu, er sá, að III. kafli l. um dýrtíðarráðstafanir, að undanteknum söluskattinum, hefur ekki verið tekinn inn í fjárlfrv. Sá hluti þess III. kafla var upphaflega áætlaður um 15–18 millj. kr. Af því hefur einn liður brugðizt að verulegu leyti, skattur af sölu bifreiða, sem hefur ekki gefið nema brot af því, sem hann átti að gera. Þegar söluskatturinn er tekinn og þessi skattur, þá kemur mismunurinn fram á því, að tekjur ríkissjóðs eru áætlaðar lægri í fjárlfrv. og margir, jafnvel flestir liðir rekstrargjalda eru áætlaðir miklu hærri, en á síðasta ári; og þar af leiðandi hafa gjöld ríkissjóðs aukizt, en tekjuvonir á sumum liðum minnkað. Mér finnst því ekki málflutningur hv. 1. þm. S-M. sómasamlegur, heldur er þar allt sagt út í hött.