23.03.1950
Neðri deild: 73. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í C-deild Alþingistíðinda. (2984)

85. mál, eyðing refa og minka

Bjarni Ásgeirsson:

Herra forseti. Það er vegna brtt. á þskj. 477 um það, að þrátt fyrir það, að minkaeldi sé almennt bannað í landinu, eins og samþ. var hér eftir 2. umr., þá skuli þó heimilt að stunda minkaeldi í Vestmannaeyjum og Grímsey, þar sem engar líkur eru til þess, að minkar geti sloppið til meginlandsins. Ég skal ekki fara mörgum orðum um þetta, því að það er mjög ljóst. Ég er sammála þeim mönnum, sem harma útbreiðslu villiminksins, og ef vissa væri fyrir því, að með drápi allra aliminka væri unninn bugur á villiminknum, þá væri ég með þeirri útrýmingu, en ég leyfi mér að halda því fram, að þótt allir aliminkar yrðu drepnir, þá erum við ekki fetinu nær með að útrýma villiminknum, en með því að eyðileggja útflutningsnytjarnar af aliminknum, en sitja jafnframt uppi með villiminkinn, þá höfum við af þessu máli bæði skömm og skaða, sem mest má verða. Skaðann höfum við þegar, en það er skömm að nota sér ekki útflutning minkaskinna, úr því að villiminkurinn er á annað borð orðinn útbreiddur hér, sérstaklega eftir lagfæringuna á gengisskráningunni, því að þá gerbreytist aðstaðan til gjaldeyrisöflunar af framleiðslu minkafelda, svo að þar verður um að ræða mikilvæga atvinnugrein. Til þess nú að áframhaldandi reynsla fáist af minkaeldi án nokkurrar hættu á útbreiðslu, og til þess enn fremur að sjá, hvaða áhrif eyðilegging aliminksins á meginlandinu hefur á útrýmingu villiminksins, þá vil ég gera tilraun til þess, að menn í Vestmannaeyjum og Grímsey fái að stunda minkaeldi, þótt það sé bannað á meginlandinu.