10.01.1950
Neðri deild: 25. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í B-deild Alþingistíðinda. (300)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Eysteinn Jónsson:

Ég vildi einmitt undirstrika það, að þessi er einmitt afstaða Framsfl., m.a. að auka aðhaldið og knýja til úrslita um aðrar leiðir í málinu. Út af því, að hæstv. fjmrh. hafði það eftir mér, að ég hefði sagt, að til væru nógir peningar til að greiða ríkisábyrgðina með, þá er það útúrsnúningur á orðum mínum. Ég benti hins vegar á það, og ég þarf ekki að endurtaka það í langri ræðu, það er svo einfalt, að á síðustu árum hefði tugum milljóna verið safnað í ríkissjóð og menn hefðu sagt, að þetta væri til þess að borga niður dýrtíðina og til þess að standa undir ábyrgðum bátaútvegsins. Ef þetta fé hefði allt verið notað aðeins í þessu skyni, þyrfti ekki að afla nýrra tekna nú, a.m.k. ekki nema að mjög litlu leyti. En aðferðin hefur verið sú, að mikið af þessu fé hefur svo verið látið ganga inn í almennan rekstur ríkissjóðs. Þó að sagt sé, að það eigi að standa undir útflutningsábyrgðinni m.a., er það meðal annarra hluta notað til að greiða með því launauppbætur. Og ég minnist á það í þessu sambandi, að það var ekki talað um, að leggja þyrfti á nýja skatta eða útvega nýjar tekjur, þegar samþ. var till. um launauppbótina. Ég vil líka benda á, að það er hættulegt, að þjóðfélagsþegnarnir fái þá mynd af ríkisrekstrinum á tilfinninguna, að hægt sé að þenja út ríkisreksturinn og hækka launin án þess að um leið sé gert ráð fyrir sköttum. Svo eru skattarnir teknir með þeim forsendum, að þeir þurfi að ganga til bátaútvegsins. Ég veit, að við skiljum allir, að þessa mynd verður að leiðrétta. Hitt veit hæstv. fjmrh. vel, að það vantar stórkostlega mikið fé til þess að halda uppi rekstri ríkisins og standa straum af dýrtíðargreiðslunum, þegar þetta kemur allt saman. Hæstv. ráðh. sagði, að það vantaði fé í þessar greiðslur, vegna þess að þetta væri ekki fært inn á fjárlfrv. Það er auðvitað bókfærsluatriði, hvað fært er inn á fjárlfrv. Það hefði verið hægt að færa útflutningsábyrgðina á fjárlfrv. og segja svo, að það vantaði peninga til þess að borga niður dýrtíðina. Það var engu siður ástæða til að setja útflutningsábyrgðina í fjárl., en segja svo, að það vanti peninga til þess að halda uppi launagreiðslum og almennum rekstri ríkissjóðs. En þetta er líkast því að leika sér areð tölur og er bókfærsluatriði.